Vegalög

119. fundur
Miðvikudaginn 03. mars 1993, kl. 15:34:27 (5570)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegur forseti. Við erum að ræða mikilsvert mál þar sem eru breytingar á vegalögum. Þau eru að stofni til orðin 30 ára gömul enda þótt þeim hafi verið breytt margoft á tímabilinu.
    Eins og kom áðan fram í ræðu hæstv. ráðherra þá var fyrst sett á laggirnar nefnd innan Vegagerðar ríkisins til að endurskoða vegalögin og gera frv. til nýrra vegalaga. En hæstv. samgrh. setti síðan á stofn nýja nefnd í febrúar sl. eins og segir í athugasemdum með lagafrv. Í þeirri nefnd eru settir átta menn, þar af eru fjórir alþingismenn sem eru allir úr stjórnarmeirihlutanum, þ.e. í nefndinni er enginn þingmaður úr minni hluta á Alþingi. Nú er ég ekki að deila á að þetta séu ekki ágætis menn sem hafa verið skipaðir í nefndina. Ég efa ekki að þeir hafi unnið af heilindum, en ég vil þó gagnrýna að aðeins skuli hafa verið teknir þingmenn úr stjórnarliði en enginn þingmaður úr stjórnarandstöðunni á Alþingi.
    Ég tel að málaflokkur eins og samgöngumál og ekki hvað síst vegamál séu þverpólitísk mál enda hefur það sýnt sig að þingmannahópar hafa yfirleitt náð samstöðu um þau mál á þingi og getað lagt til niðurstöður sameiginlega um fjárveitingar til verkefna hver í sínu kjördæmi. Ég tel því að ekki hefði þurft að fara gjörsamlega pólitíska línu við að skipa nefnd til að endurskoða vegalög.
    Þetta lagafrv. tekur á því að breyta vegakerfinu nokkuð, þ.e. heiti vega og skilgreiningum á þjóðvegum og stofnvegum. Þar eru nokkuð veigamiklar breytingar sem er ekki hægt að gera skil í ræðu í þinginu heldur verður að fjalla nánar um það í samgn., ekki hvað síst með tilliti til þeirra fjárframlaga sem eiga að fara í viðkomandi vegaflokka. Með frv. er greinilegt að verið er að auka vald Vegagerðarinnar til að ákveða hvaða flokkum hver vegarspotti tilheyrir. Greinilega er verið að færa það á þann veg að heimamenn og sveitarstjórnir á hverjum stað taki meiri þátt í uppbygginu vega og viðhaldi. Í 51. gr., sem er um vetrarþjónustu, er sagt að kostnaður við vetrarþjónustu skuli talinn með öðrum viðhaldskostnaði vega. Ef snjómokstur er talinn sem vetrarþjónusta er hann tekinn af óskiptu vegafé. Hér er sagt að kostnað við vetrarþjónustu skuli telja með öðrum viðhaldskostnaði vega. Mér er því spurn: Á að taka það af viðhaldskostnaði vega innan hvers kjördæmis og fer það þá eftir almennum skiptireglum? Einnig segir í greininni að Vegagerðinni sé heimilt ,,að binda vetrarþjónustu því skilyrði að allur kostnaður við hana eða hluti hans verði greiddur með framlagi úr héraði.``
    Ég vil einnig gera að það umtalsefni í sambandi við vetrarþjónustu að þegar við í samgn. og fjárln. ræddum um skiptingu á styrkjum til vetrarsamgangna kom fram ákveðin tregða við að deila þeim styrkjum út til vetrarsamgangna. Rekstrarstjóri Vegagerðarinnar sagði okkur að Vegagerðin greiddi ævinlega helminginn á móti því sveitarfélagi sem vildi láta moka innan sveitarfélags síns, þ.e. dreifbýlissveitarfélögin. Þegar ég spurðist fyrir um þetta í fámennum sveitarfélögum á Vestfjörðum var svarið það að þeir greiða vissulega helming en þeir vilja ráða því hvenær er mokað, þeir vilja meta það sjálfir hvort þörf er á að moka og þeir vilja leggja til sín eigin tæki til þess moksturs en ekki þau tæki sem sveitarstjórnirnar hafa kannski með margra ára fjárframlögum komið sér upp til að hafa á staðnum. Það getur því verið erfitt um vik fyrir sveitarfélög að nýta sér það ákvæði að Vegagerðin greiði helming kostnaðar við snjómokstur innan sveitar.
    Áreiðanlega er full þörf á því að endurskoða vegalög, ekki hvað síst með tilliti til þess hversu gömul þau eru orðin en ég tel að í frv. sé viss tilhneiging til að færa valdið frá heimamönnunum og meira til Vegagerðarinnar og án þess að Vegagerðin sé þá skyldug eða þurfi að hafa lögboðið samráð við heimamenn. Í því sambandi er hægt að vísa til sérálits Þórðar Skúlasonar sem var fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga í nefndinni sem endurskoðaði vegalögin. Hann gagnrýnir t.d. að flokkun stofn- og tengivega í þéttbýli, sem nú á að koma í staðinn fyrir þjóðvegi í þéttbýli, leiði til þess að stofn- og tengivegir í þéttbýli verði um þriðjungi styttri en þjóðvegir í þéttbýli eru nú og þar af leiðandi kemur meiri kostnaður yfir á sveitarfélögin. Þannig mundi þriðjungur stofn- og viðhaldskostnaður þjóðvega í þéttbýli færast yfir til sveitarfélaganna, auðvitað án þess að þeim yrði nokkuð bættur sá kostnaður eins og venjulega hefur gerst þegar verið er að færa meira af kostnaði yfir á sveitarfélögin. Hann leggur því áherslu á að skipuð sé sérstök samstarfsnefnd Vegagerðarinnar og Sambands ísl. sveitarfélaga til að fjalla um framkvæmd þessara laga ef frv. verði að lögum. Verkefni hennar á að vera að fylgjast með og móta samstarfsverkefni og samninga sveitarfélaganna og Vegagerðarinnar, sérstaklega hvað varðar stofn- og tengivegi í þéttbýli.
    Ég vil taka undir það sem hann hefur bókað um málið og tel að sveitarfélögin hafi mikilla hagsmuna að gæta hvað varðar flokkun veganna. Þetta væri breyting frá því sem er í núgildandi vegalögum þar sem ákvæði í núgildandi lögum segir: ,,Við samningu tillagna sinna sinna skal vegamálastjóri leita álits hlutaðeigandi sveitarstjórnar og skipulagsnefndar ríkisins.`` Ekkert slíkt ákvæði virðist vera í frv.
    Í þessu frv. er einnig ákvæði um gerð langtímaáætlunar sem var unnin í fyrsta sinn árið 1983 að mig minnir eftir þál. Alþingis frá 1981. Sú langtímaáætlun sem ætti að vera í gildi núna og menn hafa oft vitnað til í umræðum um vegamál var raunar aldrei samþykkt á Alþingi. En eftir henni hefur þó að miklu leyti verið farið. Tekið hefur verið tillit til hennar. Í þessu frv. er þetta 28. gr. og þar segir að áælunin skuli vera til 12 ára og endurskoðuð að liðnum hverjum fjórum árum á tímabilinu og hana skuli afgreiða í endanlegu formi sem þál. um langtímaáætlun í vegagerð.
    Ég tel að það sé rétt stefna að taka þetta upp og setja þetta inn í vegalög. Ég held að gott sé að hafa það við að styðjast. Það hefur sýnt sig að sú langtímaáætlun sem hér var lögð fram síðast og tekur yfir það tímabil sem við erum á núna og lengur, eða til ársins 2002 að mig minnir, hefur sannað gildi sitt þó hún hafi ekki verið samþykkt.
    23. gr. í þessu frv. er um ferjumálin. Í þá grein er sett að heimilt sé að greiða af vegáætlun kostnað við ferjur til flutnings á fólki og bifreiðum yfir sund og firði enda komi ferjan í stað vegasambands um stofnveg eða tengiveg, a.m.k. hluta úr ári. Einnig sé heimilt að greiða hluta af kostnaði við bryggjur. Í framsöguræðu hæstv. ráðherra áðan kom einnig fram að hann hugsar sér að verði þetta frv. að lögum hafi rekstur ferja- og flóabáta a.m.k. þriggja ára aðlögunartíma, jafnvel þó svo að þær uppfylli ekki þessi skilyrði. Hér segir í ákvæði til bráðabirgða að heimilt sé að greiða hluta kostnaðar við ferjur í allt að þrjú ár frá gildistöku laganna þótt skilyrðum sé ekki fullnægt að öllu leyti í þessari grein.
    Nýlega er komin út skýrsla um ferjur og flóabáta sem unnin hefur verið af Ríkisendurskoðun og ekki farið að fjalla um hana að ég held á neinum vettvangi nema fjölmiðlar hafa eitthvað gert því skil. Fjallað verður um þá skýrslu í fjárln. og ég tel eðlilegt að fjárln. vísi þeirri umfjöllun síðan til samgn. því mjög miklar upplýsingar er að hafa í skýrslunni um ferjur og flóabáta og greinilegt að þar má ýmislegt betur fara. Hvort það verður til þess að mikill uppskurður verður gerður á ferjum og flóabátum í því frv., sem við erum að ræða, skal ég ekki segja um en ég tel að þetta sé mál sem þurfi allmikla umræðu og umfjöllun bæði innan nefnda þingsins og í þinginu.
    Eins og ég sagði í upphafi er verið að breyta mjög heitum vega og skilgreiningum á þeim. Ég er

ekki tilbúin að ræða það enda tæplega búin að bera það saman við núgildandi vegalög til að geta sagt fyrir um hvort það sé endilega það rétta sem hér sé verið að gera. Það tel ég að þurfi að skoða nákvæmlega. En í fylgiskjali 2 með frv. er tafla yfir það hverjir eru þjóðvegir, sýsluvegir og aðalfjallvegir 1. jan. 1992 og svo vegakerfið samkvæmt frv. og þessu er skipt niður á kjördæmi. Mér sýnist að þessir fjórir flokkar, stofnvegir, tengivegir, safnvegir og landsvegir, sem eiga að koma í stað þjóðvega, sýsluvega og aðalvega, muni vera þeir sem séu álitnir vera verkefni Vegagerðarinnar og hafi fjárframlög í samræmi við það.
    Ef ég fer aðeins yfir niðurstöðutölur úr þessari töflu þá hefur Suðurland í þessum flokkum 2.494 km samkvæmt því sem gildir í dag en hefði 3.113 km samkvæmt frv. Reykjanes hefur 571 km samkvæmt því kerfi sem gildir en hefði 591 km samkvæmt frv. Vesturland hefur 1.874 km en hefði 1.932. Vestfirðir hafa 1.856 km samkvæmt þjóðvega-, sýsluvega- og aðalfjallvegakerfi í dag en fengju um 300 km minna eða 1.574 km í þessum fjórum flokkum samkvæmt frv. Norðurl. v. hefur 1.699 km samkvæmt núgildandi lögum en hefði 1.707 km samkvæmt frv. Norðurl. e. hefur 1.950 km samkvæmt núgildandi lögum en fengi 2.172. Austurland hefur 1.984 km en fengi 2.169 samkvæmt þessum flokkum. Því er greinilegt að flest kjördæmi landsins fá aukningu í þessum flokkum. Nú skal ég ekki segja um hvort þeir eru algerlega sambærilegir, ég hef ekki getað borið þá saman enn þá. En öll kjördæmin fá aukningu í þessum flokkum sem virðast samkvæmt töflunni eiga að vera sambærilegir nema Vestfirðir. Vestfirðir fá þarna 300 km styttri vegalengdir sem teljast til stofn-, tengi-, safn- og landvega. Ég vildi þess vegna biðja um skýringu á því hvort vegirnir á Vestfjörðum, sem þarf að telja til þjóðvega, sýsluvega og aðalfjallvega, hafi allt í einu styst. Kannski menn séu bara búnir að brúa firði og fara í gegnum fjöllin og þess háttar. Það getur svo sem vel verið að tiltæk skýring sé á þessu, en ég vildi gjarnan heyra þá skýringu og má vel vera að hún sé mjög eðlileg. En þetta stingur í augun þegar maður les töfluna.
    Í 24. gr. er rætt um að a.m.k. einum hundraðshluta af tekjum samkvæmt lögum um fjáröflun til vegagerðar skuli varið til rannsókna og tilrauna við vega- og gatnagerð undir stjórn Vegagerðarinnar. Það tel ég að sé rétt stefna að hafa ákveðinn hluta af fjármagninu til rannsókna og tilrauna því að alltaf verður að fylgjast með því sem er að gerast og við höfum séð hversu miklar framfarir verða oft á stuttum tíma í vegagerð. Því tel ég rétt að ákveða einhvern hundraðshluta af tekjum til þess að standa fyrir rannsóknum og þróunarstarfsemi í þessu sem öðru.
    Ég hef ekki hugsað mér að fara yfir hverja grein í frv. Til þess gefst að sjálfsögðu tími þegar frv. kemur til umfjöllunar í hv. samgn. og ég verð að láta þess getið að ég hlakka ólíkt meira til þess að fjalla um þetta frv. en það sem við vorum að ræða hér rétt áðan. Mér finnst þetta svolítið meira spennandi að takast á við að skoða, en það er kannski annað mál.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta miklu meira annað en það að ég vil nefna það í sambandi við dreifbýlissveitarfélögin og þá tengivegi, sem nú eiga að kallast svo og eiga að ná heim að bæjum, þ.e. sem líklega eru í dag sýsluvegir. Nú á að breyta því þannig að tengivegir eigi að ná að fjórða býli frá vegarenda í stað þriðja sem þjóðbrautirnar ná núna til, ekki sýsluvegir. Þarna er verið að lengja þá kafla sem teljast þá vera innansveitarvegir, þ.e. vegurinn nær yfir fjögur býli í staðinn fyrir þrjú sem hingað til hefur verið og það hlýtur líka að auka kostnað sveitarfélaganna á hverjum stað eða þeirra sjóða sem þeir hafa til þessarar vegagerðar þar sem hér er verið að lengja kaflann sem tilheyrir þá sveitarfélögunum að sjá um. Það má einnig geta þess að vegurinn getur lengst jafnvel enn þá meira vegna þess að ef aðeins þau býli, sem vegurinn liggur fram hjá, eru talin þá getur líka verið að inn á milli þeirra sé eitthvað farið í eyði. Þá lengist vegurinn enn þá meira. Ég held að þarna sé líka atriði sem þarf að skoða vel.
    Ég ætla að öðru leyti ekki að lengja umræðuna og sé raunar að fundartími okkar núna er að verða búinn og vísa þessu þá til frekari umræðu af minni hálfu í samgn.