Frágangur fjárlaga 1993

120. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 10:35:22 (5572)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Sem svar við fsp. vil ég segja eftirfarandi:
    18. des. sl. var í fjárln. fjallað ítarlega um málið og það skýrt af hálfu fulltrúa fjmrn. Það er rétt sem á hefur verið bent að hér er um umdeilanlegt atriði að ræða hvernig færa skuli en þar sem hér er um bráðabirgðafyrirkomulag að ræða, sem einungis á að gilda fyrir yfirstandandi ár, var sú ákvörðun tekin að athuguðu máli og eftir umræður í ríkisreikninganefnd að færa um það bil fjóra milljarða með þeim hætti sem gert er í fjárlögum. Ástæðurnar eru bókhaldslegar að sumu leyti en eiga sér aðrar skýringar að öðru leyti.
    Í fyrsta lagi er um að ræða viðurkenndar skatttekjur sveitarfélaganna og má líta á ástandið í ár sem bráðabirgðaástand meðan verið er að finna sköttum til sveitarfélaganna nýtt form. Sveitarfélögin hafa ekki afsalað sér þessum skatttekjum. Þetta er greitt út eins og um útsvar sé að ræða og fjármunirnir renna aldrei í ríkissjóð. Hins vegar renna þeir til sveitarfélaganna eftir álagningu aðstöðugjalds sem er ekki lagt á, en álagning á sér stað án þess að innheimt sé. Fjallað er um útsvar og aðstöðugjald í tekjustofnalögum sveitarfélaganna. Þannig á að tryggja sömu tekjur til sveitarfélaganna og sveitarfélögin munu ugglaust telja þetta til skatttekna hjá sér. Það eigi að líta á þetta sem framlag úr ríkissjóði og þar sem það kemur gjaldamegin í reikningi ríkissjóðs þá er auðveld leið fyrir ríkisstjórnina og meiri hluta á Alþingi að skerða þær tilfærslur frá ríkinu til sveitarfélaganna en því er ekki til að dreifa varðandi þetta tiltekna mál.
    Það sem skiptir í öðru lagi miklu máli er að líta á heildarskatttekjur hins opinbera. Þegar þetta var kannað varð ljóst að til þess að fá mynd af heildarskatttekjum hins opinbera þarf að koma í veg fyrir að um tvítalningu sé að ræða. Þess vegna er óeðlilegt að ríkið teldi þetta fyrst tekjur hjá sér og síðan sveitarfélögin aftur hjá sér eftir að þessar skatttekjur sem áður voru hjá sveitarfélögunum renna ekki einu sinni gegnum ríkissjóð heldur í gegnum tekjuskattsinnheimtuna og aftur til sveitarfélaganna. Fyrir þessu er gerð ítarleg grein í fylgiriti með fjárlögum. Ég endurtek að hér er ekki um varanlega breytingu að ræða. Ef svo væri og ef það yrði þannig í framtíðinni finnst mér sjálfsagt að þetta sé fært með öðrum hætti. En að öllu samanlögðu var það niðurstaðan að þetta væri eðlileg færsla eins og gert er ráð fyrir í fjárlögum yfirstandandi árs. Þetta svarar reyndar einnig annarri spurningu að ekki ætlunin að leggja fram fjáraukalög til að leiðrétta þetta, enda var það skýrt tekið fram hinn 18. des. þegar málið var rætt í nefndinni hvernig fært yrði.

    Varðandi ríkisreikninginn 1993 á ég von á því að þetta komi fram með ákvæmlega sama hætti og ég tel jafnframt eðilegt að gerð sé grein fyrir málinu líkt og gert er á bls. 100 og 101 í fylgiriti með fjárlögum 1993 þannig að öllum sé nákvæmlega ljóst hvernig bókhaldið er fært.
    Það er svo önnur saga sem hv. þm. ræddi lítillega í máli sínu og mál sem nú er til skoðunar hvernig færa skuli tekjur og gjöld ríkisins og að því hlýtur að draga að mínu mati fyrr en síðar. Það er til skoðunar að tekin verði endanleg ákvörðun um það hve mikið á að færast á tekjuhlið og hve mikið á gjaldahlið fjárlaga yfirleitt. Að þessu sögðu vil ég t.d. benda á að það eru nettótölur sem finnast bæði gjaldamegin og teknamegin á fjárlögum þannig að sértekjur færast til tekna gjaldamegin en frádráttur og afslættir til frádráttar eða gjalda teknamegin. Því er um að ræða nokkurs konar nettóbókhald sem kemur fram í fjárlögum. Þetta hefur oft verið rætt, einkum og sér í lagi í gegnum OECD, og má búast við því að breyting verði gerð innan tíðar með þeim hætti að brúttó verði fært allt upp beggja vegna. Ég get giskað á að það hækkaði bæði gjalda- og tekjutölur fjárlaga um á að giska 20%.
    Ég vil að síðustu, herra forseti, láta koma fram að í þessu tilliti var m.a. skoðað hvert væri álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og eftir að það var skoðað með sérstöku tilliti til færslu á tekjum sveitarfélaga annars vegar og ríkisins hins vegar þótti eðlilegt að færa þetta með þeim hætti sem nú hefur verið gert þó auðvitað megi deila um þetta eins og svo margt annað í bókhaldi eins og hv. þm. vita.