Frágangur fjárlaga 1993

120. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 10:41:38 (5573)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja það að ég tel mjög eðlilegt að þessi fsp. sé fram komin frá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur. Ég verð að lýsa því yfir að ég er hvorki fyllilega ánægður með svar hæstv. fjmrh. áðan né það svar eða þau rök sem eru fyrir því hvernig þetta er fært upp í fjárlögum og hafa borist fjárln. frá fjmrn. sem svar við fsp. hv. þm. Þar er talað um að ekki sé óeðlilegt að fara með þetta svipað og útsvarið, þ.e. að um nettófærslu sé að ræða. Það tel ég að sé ekki rétt. Með útsvarið gildir allt annað mál. Þar er um að ræða skatt sem rennur beint til sveitarfélaganna og er breytilegur eftir sveitarfélögum. Hér er um fasta upphæð að ræða sem kemur í gegnum ríkissjóð. Hvert sveitarfélag fær fyrir fram ákveðna upphæð þannig að það tel ég mjög ólíkt því sem háttar til með útsvarið, enda ákveðið að hafa tilfærsluna frá aðstöðugjaldi yfir í einhvern annan skatt með allt öðru móti en útsvarið. Það var hægt að taka ákvörðun um að þetta skyldi vera viðbótarútsvar en það er ekki gert. Það er ákveðið að þetta sé viðbótartekjuskattur og er því eðlilegt að hann komi í gegnum ríkissjóð og færist þar.
    Auk þess segir í svari til fjárln. að ríkisreikningsnefnd hafi að undanförnu verið að gera athugasemdir um ýmislegt sem varðar uppsetningu fjárlaga. Við höfum reyndar rætt um það áður, en það varðar t.d. ýmsa útgjaldaliði sem eru færðir til frádráttar á tekjuhlið, en ýmir tekjuliðir sem færðir eru til frádráttar aftur á gjaldahliðinni. Ég nefni t.d. þjónustugjöldin. Ég hef oft talað um að ég teldi eðlilegt að þjónustugjöldin kæmu sem tekjur en ekki sem nettófærsla á gjaldahlið í fjárlögunum. Svo segir hér einnig ef ég má vitna til þessa svars, með leyfi forseta:
    ,,Þá má þar nefna greiðslur barnabóta og vaxtabóta sem nú eru dregnar frá tekjuhlið en eiga samkvæmt tillögum ríkisreikningsnefndar að færast á gjaldahlið.``
    Hér er gerð tillaga um breytingu á þessu atriði og ég tel að það hafi verið mjög eðlilegt að hafa það eins með þá 4 milljarða sem hér um ræðir, þeir komi fram í fjárlögunum. Ég trúi því að það muni verða gert þegar fjáraukalög verða lögð fyrir á árinu.