Frágangur fjárlaga 1993

120. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 10:46:20 (5575)


     Margrét Frímannsdóttir :

    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli okkar á þessu og taka þetta fyrir, bæði hér og í fjárln. Ég verð að segja að ég er mjög hissa á svörum sem komu frá hæstv. fjmrh., sérstaklega þegar hann segir að það sé með öllu óeðlilegt að tvífæra þessar tekjur, þ.e. að þær séu fyrst færðar hjá ríkinu og þá hjá sveitarfélögum. Tekjuskatturinn er samkvæmt tekjuskattslögum tekjustofn ríkisins. Ríkið sér um að innheimta tekjuskattinn og síðan að greiða hann út. Á þá með þessum rökum að fara þá leið að þegar búið er að ákveða í hvað tekjur ríkisins skuli fara þá skuli þær aðeins færðar hjá viðkomandi stofnunum, sveitarfélögum og félagasamtökum sem þær fá en aldrei hjá ríkinu?
    Ég vil líka spyrja að því hvernig á að meðhöndla framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem samkvæmt lögum á að fá 1,4% af heildarskatttekjum ríkisins.