Frágangur fjárlaga 1993

120. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 10:52:31 (5579)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Þessi ákvörðun um að leggja niður aðstöðugjaldið er mjög flaustursleg og hefur auðvitað komið fram í umræðum á Alþingi áður með hvaða hætti hefur verið staðið að þessu og nú er auðvitað að sýna sig að menn hafa ekki hugsað sig nógu vel um og ekki undirbúið þetta mál á eðlilegan máta. Nú datt það upp úr hæstv. fjmrh. að ef svo færi að þetta yrði framlengt með einhverjum hætti, þá teldi hann að það ætti að koma þessu fyrir öðruvísi. Ég hygg að hann sé að segja þetta í fullri meiningu, að hann sé farinn að horfast í augu við það að hann muni ekki finna tekjustofna í staðinn fyrir aðstöðugjaldið á þessu ári handa sveitarfélögunum, enda er það ekki auðfundinn tekjustofn sem gefur 4,3 milljarða. Menn hafa nefnt ýmsar leiðir eins og það láta sveitarfélögin hafa tekjur af bifreiðum eða eitthvað slíkt. Það var gengið þó nokkuð langt í því að innheimta tekjur af bensíngjaldi í haust. Það gaf þó ekki nema 780 millj. og þó að sveitarfélögin fengju það allt saman, þá þarf að finna æðistóran tekjustofn í viðbót og það er því miður ekki neitt útlit fyrir að hann finnist. Nú er hæstv. fjmrh. farinn að horfast í augu við það.