Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 11:26:15 (5585)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sú grein sveitarstjórnarlaganna sem hér er lagt til að breytt verði, það er 109. gr., fjallar um hvernig túlka eigi niðurstöður í atkvæðagreiðslum um svokallaða frjálsa sameiningu sveitarfélaga, þ.e. þegar ekki er skylt að sameina sveitarfélag öðru sveitarfélagi vegna þess að íbúatalan sé komin niður fyrir 50. Greinin fjallar einnig um ákvarðanir sveitarstjórna og ráðuneytisins í framhaldi af atkvæðagreiðslu, svo og hvernig með skuli fara ef sveitarfélög þau sem sameina skal eru í fleiri en einu lögsagnarumdæmi. Í athugasemdum með frv. til núgildandi sveitarstjórnarlaga er þessi grein ekki skýrð neitt eða rökstudd sérstaklega. Ég tel því rétt að líta til reynslunnar varðandi ákvæði greinarinnar sem hér er til umræðu. Á þetta ákvæði mun hafa reynt í tveimur tilvikum, annars vegar við sameiningu fimm sveitarfélaga í Vestur-Skaftafellssýslu, þ.e. Hörglandshrepps, Kirkjubæjarhrepps, Leiðvallahrepps, Skaftártunguhrepps og Álftavershrepps. Í einu þessara sveitarfélaga, Leiðvallahreppi, varð niðurstaðan sú að aðeins fleiri af þeim er atkvæði greiddu voru gegn sameiningunni. Sameiningin var hins vegar samþykkt í öllum hinum sveitarfélögunum.
    Þarna hagaði þannig til landfræðilega að hagt var að sameina fjögur sveitarfélög en skilja Leiðvallahrepp eftir. Það var hins vegar mat sveitarstjórna á svæðinu og mat ráðuneytisins að sameina ætti öll fimm sveitarfélögin. Ákvæði þessa frv. sem hér er til umræðu hefði þýtt að hreppur með undir 50 íbúa hefði getað komið í veg fyrir sameiningu þessara fimm hreppa.
    Sameining sveitarfélaga í Vestur-Skaftafellssýslu fór fram 1990 þannig að nokkur reynsla er komin á þá sameiningu. Ráðuneytið hefur fengið upplýsingar frá heimamönnum um reynsluna fyrir sameiningu og er hún mjög góð að mati heimamanna. Hitt dæmið þar sem reynt hefur á þetta ákvæði var við sameiningu þriggja sveitarfélaga í Suður-Múlasýslu, þ.e. Búlandshrepps, Beruneshrepps og Geithellnahrepps. Í einu þessara sveitarfélaga, Geithellnahreppi, voru 16 af þeim sem atkvæði greiddu andvígir sameiningunni en 15 með. Á kjörskrá voru 50. Þarna hagar einnig þannig til að hægt hefði verið að sameina tvö sveitarfélög en skilja Geithellnahrepp eftir. Niðurstaðan varð hins vegar sú að bæði sveitarstjórnirnar og ráðuneytið töldu rétt að sameina öll þrjú sveitarfélögin. Sama er hér uppi á teningnum. Einn hreppur hefði getað komið í veg fyrir sameiningu allra þessara þriggja hreppa hefði ákvæði þessa frv. gilt.
    Ég tel rétt að benda á að verði frv. þetta sem hér er til umræðu samþykkt, getur það leitt af sér að minni hluti atkvæðisbærra íbúa í fámennu sveitarfélagi getur hindrað sameiningu margra sveitarfélaga á tilteknu landsvæði þó svo mikill meiri hluti atkvæðisbærra íbúa annarra hlutaðeigandi sveitarfélaga samþykki sameininguna. Ég mun alveg á næstunni eiga viðræður við fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga um næstu skref í sameiningarmálum sveitarfélaga. Í þeim viðræðum mun ég taka upp það atriði sem frv. sem við ræðum hér fjallar um.