Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 12:05:57 (5597)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér heyrist það rétt sem nokkrir fulltrúar sögðu í nefnd sem hefur starfað að sameiningu sveitarfélaga að allir vildu sameina einhvers staðar annars staðar en hjá sjálfum sér. Það hefur sannast á máli hv. síðasta ræðumanns --- án þess að ég vilji gera honum upp skoðanir --- þar sem ég tel hann ekki búsettan á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar tek ég undir viðhorf hans um að það þarf að leita að hagkvæmnisástæðum við sameiningu sveitarfélaga og meðal þess sem augljóslega má taka til athugunar er okkar ágæta höfuðborgarsvæði og nágrannabyggðir þar sem sveitarfélagamörk liggja víða mjög óeðlilega og raunar hefur þessum mörkum að mörgu leyti verðið hrundið með samstarfi. M.a. má nefna það að Vesturbæingar í Reykjavík og Seltirningar reka saman heilsugæslu.
    Ástæða fyrir því að ég kom hingað upp í andsvar er þó fyrst og fremst sú að ég held að það verði að skoða sérstaklega vandamál sem upp gæti komið ef sameinað yrði í of misstórar einingar. Mér hefur lengi þótt það vera bæði galli fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu og fyrir önnur sveitarfélög hversu mikið misvægi er milli stærðar sveitarfélaga þar. Ég tel að við séum ekki fullkomlega búin að vinna okkur í gegnum þá umræðu og sérstaklega þann vanda sem er í samstarfi sveitarfélaga þegar þau eru mjög misstór.
    Annað sem ég vil ekki síður nefna eru möguleikar íbúa í mjög stórum sveitarfélögum til þess að hafa áhrif innan síns sveitarfélags. Þar tel ég að víða sé pottur brotinn og dæmin hafa sannað það.