Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 12:12:08 (5600)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nú kannski enn það sama og fyrr, ekki mörgu að svara, en hv. þm. gefur mér eigi að síður tilefni til þess að hugsa til Suðurnesja. Á þessu litla svæði, á þessu litla fallega nesi, skilst mér að séu sjö sveitarfélög og það skilur ekki eitt einasta fjall í millum og nánast hver vegur malbikaður. Ég bý aftur á móti í sveitarfélagi sem hefur líka verið í umræðunni vegna sameiningar við næsta sveitarfélag. Þar er ekki yfir fjall að fara heldur fyrir skriður og fjall að fara og svo ólíku saman að jafna. Eigi að síður hef ég setið á rökstólum með þingmanni Reykjaneskjördæmis sem hefur verið að gefa mér það í skyn að hugsanlega væri gott að sameina þessi tvö sveitarfélög. Meðan svo er þá hlýt ég að spyrja: Eigum við ekki að horfa okkur nær? Við erum að reyna að velta því fyrir okkur að ná fram lausn í sambandi við samvinnu sveitarfélaga, t.d. á Austurlandi, en þar sem aðstæður eru langsamlega bestar til sameiningar, t.d. á Suðurnesjum, hefur ekki náðst árangur. Við fylgjumst gjörla með því hvernig sameiningartilraunir á Suðurnesjum mættu takast. Ef ekki tekst þar hvar tekst það þá?