Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 12:13:53 (5601)

     Pétur Sigurðsson :
    Virðulegi forseti. Aðeins í sambandi við þessa umræðu um sveitarstjórnarmál sem ég vildi leggja orð í belg. Mér finnst það ákaflega einkennileg framsetning hjá mönnum að segja að tilraunir hæstv. félmrh. til þess að sameina sveitarfélög í landinu einkennist af æðibunugangi. Ég held nefnilega að það sé alveg öfugt ef menn skoða þetta vel. Ég held að flestum hér inni sé kunnugra um þetta en þeir láta uppi. Á vegum ráðuneytisins hefur farið fram mjög víðtæk skoðun á þessum málum. Fjölmenn nefnd hefur farið um landið til þess að ræða við sveitarstjórnarmenn og síðan hafa verið settar fram ákveðnar tillögur og hugmyndir um sameiningu og dregnar ályktanir af því hvaða hagkvæmni fylgir því að reka stærri sveitarfélög frekar en fjölmörg og smærri sem við búum við í dag.
    Það er skiljanlegt að það gæti ákveðinnar óþolinmæði hjá hæstv. félmrh. í sambandi við þetta mál, sérstaklega miðað við niðurstöðu fulltrúafundar sveitarfélaga sem var haldinn nýlega á Suðurnesjum þar sem viðbrögðin voru, reyndar eins og a.m.k. ég bjóst við, ákaflega neikvæð og menn reyndu að finna einhverjar leiðir til þess að dreifa málinu og setja það í fleiri nefndir og skoðanir þannig að a.m.k. væri öruggt að ekkert yrði gert í þessum málum fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar sem eru reyndar eftir rúmt ár. Þá er greinilegt að ef ekkert gerist fyrir þann tíma, þá gerist ekkert næsta kjörtímabil í sveitarstjórn. Það er alveg greinilegt miðað við alla umræðu sem hefur átt sér stað í þessu.
    Það er augljóst og einkennilegt hvað það er neikvæð umræða um þessi mál hjá sveitarstjórnarmönnunum vegna þess að þeir viðurkenna allir ákveðna hagkvæmni í því að reka stærri sveitarfélög. Það er svo margt sem kemur upp í hugann í sambandi við það, bæði skipulagsmál, framkvæmdir, uppbygging atvinnuhátta í sveitarfélögunum og á svæðum o.fl., að það er óskiljanlegt að menn skuli vera að reyna að bregða fæti fyrir þær tilraunir sem eru uppi um að sameina sveitarfélög.
    Ég sagði áðan að umræðan hefði að mestu leyti farið fram við sveitarstjórnarmenn. Það er kannski eðlilegt að ráðuneytið hafi beinan aðgang að sveitarstjórnarmönnunum sjálfum í sambandi við þessi mál en sá þáttur hefur gleymst sem er þýðingarmestur í þessu máli. Ef sveitarfélög eiga að sameinast á friðsamlegan hátt og það á ganga fyrir sig eðlilega og til frambúðar og menn búi þá í stærra sveitarfélagi í sátt og samlyndi í framtíðinni, þá þarf auðvitað að snúa sér til fólksins sjálfs. Það hefur ákaflega lítið verið gert í því að ræða þessi mál hjá hinum ýmsu félagasamtökum í minni sveitarfélögum og meðal einstaklinga. Það er ákaflega auðvelt að sá tortryggni meðal fólksins í sambandi við sameiningu sveitarfélaga. Gamlir fordómar og alls konar nágrannakrytur eru rifjaðir upp og magnaðir sem verða til þess að menn taka ekki afstöðu eða taka hreinlega afstöðu á móti.
    Á norðanverðum Vestfjörðum hefur þetta verið tekið pínulítið alvarlega, þ.e. þegar sveitarstjórnarmenn hafa gefið sér tíma í sambandi við þessi mál. Sveitarstjórnarmenn eru auðvitað uppteknir í því að reka sín sveitarfélög og sinna þeim verkefnum sem hlaðast á þá. Það verður að segjast alveg eins og er að þeir hafa ekki gefið sér mikinn tíma til þess að sinna þessum málum. Það hefðu mátt vera enn þá tíðari heimsóknir frá starfsmönnum ráðuneytisins og þessari nefnd til þess að reka á eftir sveitarstjórnarmönnum vegna þess að þessir menn eru ekki búnir að loka á eftir sér hurðunum þegar sveitarstjórnarmenn eru komnir í önnur verkefni og hættir að hugsa um það sem var til umræðu þegar nefndarmenn stóðu við.
    Á norðanverðum Vestfjörðum hefur verið skipuð starfsnefnd í þessi mál á vegum héraðssambandsins og reyndar líka kosnar nefndir í einu eða tveimur ef ekki fleiri sveitarfélögum til þess að ræða málin innan veggja og undirbúa það að menn komi með tillögur sem eru freistandi fyrir aðra þegar kemur að því að taka einhver skref í sameiningarmálum. Það er svo merkilegt við þessa umræðu að hún snýst auðvitað um ákveðin hagkvæmnisjónarmið og samrekstur á ýmsum þáttum en hún endar alltaf á einu. Hún endar alltaf á því: Hvaða tillögu hafa menn og hugmyndir um það hvernig væntanleg sveitarstjórn þessa stóra sveitarfélags á að vera saman sett? Hvernig ætli stjórnmálaflokkum gangi að koma saman framboðslistum í sínu hinu stóra og nýja sveitarfélagi sem kannski nær yfir nokkuð stórt landsvæði? Þetta hindrar það að menn gangi alvarlega til verks. Það eru einmitt þau sjónarmið að hver er að passa sinn stól. Það er víða í þjóðfélaginu sem við rekumst á slíkt þegar um svona mál er að ræða eða skyld mál.
    Ég hef sagt það á þessum fundum okkar að ég tel að ef við nálgumst það á mínu svæði --- ég er að tala út frá því en auðvitað eru kringumstæður mismunandi í hinum ýmsu landshlutum og ég ætla ekki að blanda mér mikið í það í dag heldur það sem snýr að okkur --- þá höfum við ákveðið að fara einmitt í herferð og kynna þetta hjá félagasamtökum og hvernig staða manna verður í þeim á eftir og eins að undirbúa fólkið og heyra hljóðið í því frekar en sveitarstjórnarmönnunum um þessi mál. Ég hef lagt það til í umræðunni hjá okkur að ef við komumst að þeirri niðurstöðu núna á þessu ári að þetta væri hagkvæmt og vilji væri fyrir því þá kæmi vel til greina að óska eftir því við félmrn. að kosningum til sveitarstjórna á þessu svæði yrði frestað þangað til sameining gengi fyrir sig. Ég held að menn hafi verið sammála mér um að það væri óráðlegt að undirbúa þetta mál mjög náið og fara með það síðan í kosningaslag í sveitarfélögunum. Það væri mjög auðvelt að búa til stjórnmálaflokka í þessum sveitarstjórnum sem byðu sig fram því augnamiði að koma í veg fyrir sameiningu.
    Hvað varðar tillögur um kosningafyrirkomulag tel ég það enga spurningu um hvort hér sé um að ræða þvingun eða ekki þvingun. Við höfum þetta kosningafyrirkomulag eða atkvæðafyrirkomulag og vitum af því. Af einhverjum ástæðum hefur það verið lögfest að það væri ekki endilega meiri hluti sem réði úrslitum. Sannleikurinn er sá að meiri hlutinn af þeim sem eru í kosningum, eins og þeim sem við erum að huga að hér, og mundu ekki taka þátt í kosningunni eru menn sem eru frekar hlynntir málinu því að sannleikurinn er sá að þeir sem eru á móti svona máli eru fúsastir til þess að mæta á kjörstað. Ég held að sú reynsla sem við höfum frá Eyrarhreppi og á Ísafirði þegar þau sveitarfélög voru sameinuð í kosningunum um það mál sé mjög skýr. Það var tiltölulega lítil þátttaka en ég gef mér það að flestir af þeim sem sátu heima og nenntu ekki að taka afstöðu hafi raunverulega verið búnir að taka afstöðu með sameiningunni.