Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 12:52:12 (5608)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega fagnaðarefni að hæstv. félmrh. skuli vera að draga í land með þeim hætti sem hún gerði hér og vísa á það að Samband ísl. sveitarfélaga eigi að hafa forræði á málinu. Hún fer þá væntanlega eftir þeim vilja sem nýlega hefur komið fram hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga. En ég tók eftir því í sjónvarpi fyrir einum eða tveim dögum síðan, að ráðherrann var nú ekki aldeilis á því að það væri sjálfgefið að hún færi að vilja sveitarfélaganna sem þau lýstu yfir núna á fundi sínum sem haldinn var á Suðurnesjum. Þá þurfti ráðherrann að hugsa málið og var ekki reiðubúin að gefa nein svör um það að hún ætlaði að fara að vilja sveitarfélaganna. En það er vissulega fagnaðarefni ef þessi umræða hér í dag og atburðirnir upp á síðkastið hafa orðið til þess að ráðherrann hefur loksisn áttað sig á því að hún verður að taka tillit til vilja allra sveitarfélaganna. Og þótt fulltrúaráð sveitarfélaganna hafi lýst þessu yfir á sínum tíma, þá veit auðvitað ráðherrann manna best að það er langt innan við helmingur af sveitarfélögunum á landinu sem eiga þar fulltrúa og þorrinn af smæstu sveitarfélögunum á landinu sem mestra

hagsmuna hafa að gæta í sameiningarmálum eiga þar ekki fulltrúa, þannig að fulltrúaráð sveitarfélaga var auðvitað enginn vettvangur til þess að leita eftir því lýðræðislega samstarfi sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson með réttu hefur minnt á að við mörg sem hingað komum inn á þing 1978 vorum talsmenn fyrir. Það samráð gerðist ekki í einhverjum lokuðum fulltrúasamkomum þar sem bara lítill hluti þeirra sem hlut áttu að máli átti sæti. Það var samráð sem varð að gerast úti á vettvangi með jafnri þátttöku allra sem þarna áttu hlut að máli.
    Það vita hins vegar allir að formaður nefndarinnar var sérstakur pólitískur fulltrúi ráðherrans. Og það vita líka allir að hann fór um landið og hann flutti boðskap. Hann var ekki bara að stýra einhverri umræðu. Hann flutti boðskap og ráðherrann fór síðan með honum í ferðalög og ráðherrann flutti líka boðskap. Það vita líka allir sem þessa fundi sátu.
    Hvað snertir aðgang þessa manns að úthlutunarkerfi ráðherra Alþfl. á embættum, stöðum og annarri aðstöðu, þá er ég vissulega reiðubúinn að ræða það mjög ítarlega. Ég hef aldrei sagt að maðurinn væri ekki hæfur. Ég hef bara sagt að það væri óeðlilegt að ráðherrar Alþfl. séu búnir að koma sér upp svona þröngu kommissarakerfi. Það minnir á allt of gamla tíma.