Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 12:54:35 (5609)

     Pétur Sigurðsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hefur nú komið fram og reyndar oft þessa fáu daga sem ég hef setið hér að menn furða sig oft á því hvernig ræðuhöld hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur hér frammi og reyndar var þessi ræða hans ekkert ólík öðrum sem maður hefur heyrt af og sagt frá. Það voru árásir á Alþfl. og þá sérstaklega ráðherra Alþfl. í núv. ríkisstjórn. Það var hvergi minnst á raunverulega kjarna málsins, það frv. sem var hérna til umræðu, heldur var þetta aðallega notað til þess að ráðast á Alþfl. og þá sérstaklega á þann mann sem þetta hvíldi nú mest á í sambandi við það að kynna þessi sameiningamrál fyrir sveitarfélögunum, þ.e. Sigfús Jónsson. Hann tók þann kost að uppnefna hann og kalla hann kerfiskarl og ég hefði nú talið að það væri ekki þinglegt heldur sýndi ákveðið eðli þess manns sem slíkt notar.
    Ég vil nú samt spyrja hv. þm. að því, á hvaða kerfi hefur hann lifað frá því að hann hóf störf? Er það einhver skömm að menn séu í starfi fyrir hið opinbera? Hvað hafa menn verið að gera hér á Alþingi? Verið að byggja upp það stjórnkerfi sem við búum við. Ef allir sem vinna þar eiga svo að sitja undir uppnefnum á Alþingi og vera kallaðir kerfiskarlar.
    Virðulegur þingmaður sagði líka að það væri út í hött að ræða sameiningu minni sveitarfélaga vegna þess að fyrst eigi að sameina í stærri sveitarfélögum og þá sérstaklega hér á Suðvesturlandi því að það þurfi endilega að varðveita úti á landi í minni sveitarfélögum grasrótarlýðræðið. Ég er kannski ekki nógu næmur fyrir því og ekki nógu skilningsríkur á þessi orðatiltæki í pólitík, en ég hélt að við værum fyrst og fremst að fjalla um það að varðveita byggðirnar á þessum stöðum og varðveita byggðirnar einmitt með því lýðræði að hafa stærri sveitarfélög og gera menn megnugri til þess að mæta því að suðvesturhornið sækir að landsbyggðinni.