Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 12:57:12 (5610)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Sigurðsson veit það ósköp vel að Alþfl. kaus á síðasta flokksþingi sínu ef ég man rétt frekar en hið næstsíðasta, það eru alla vega ekki nema örfá ár síðan, að skreyta nafn sitt með því að bæta orðunum ,,Jafnaðarmannaflokkur Íslands`` við nafnið. Það dugði sem sagt Alþfl. ekki lengur að hafa það nafn sem hann hafði haft nánast alla öldina, Alþfl., það þurfti að bæta við Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Okkur sem höfum fylgt jafnaðarhugsjóninni um langan tíma er annt um þetta nafn og hv. þm. Pétur Sigurðsson þarf ekki að verða hissa þó að við tölum hispurslaust, miskunnarlaust og hreinskilið við þá ráðherra sem skreyta sig með þessu nafni, bæði hér í þingsalnum og opinberlega, sérstaklega við sem tengdum hér fyrir nokkuð löngu síðan nútímalýðræðislegan hugsunarhátt og vinnubrögð við jafnaðarstefnuna. Alþfl. verður bara að þola það þegar hann hefur kosið að skreyta sig með þessu nafni með röngu að vera tekinn fyrir hér í þingsalnum og annars staðar. Og eins og ég sagði hér áðan, við erum varla byrjuð á því, hv. þm., vegna þess að auðvitað mun það verða leitt hér fram á næstu missirum hvar hin raunverulega nútímalýðræðislega jafnaðarstefna á Íslandi á heima.
    Ég hef ekki gert athugasemdir við það að menn væru í starfi hjá hinu opinbera. En sá maður sem ég hef hér rætt og gegnir formennsku í þessari nefnd var ekki í starfi hjá hinu opinbera. Hann rak verktakafyrirtæki úti í bæ og það verktakafyrirtæki fékk síðan verkefni út á þessa opinberu aðstöðu. Hann var ekki opinber starfsmaður. Hann var verktaki á almennum markaði. En ráðherrar Alþfl. úthlutuðu honum síðan verkefnum í krafti ráðherraembættis síns og ekki bara nefndarformennsku af þessu tagi, heldur líka stjórnarsetu í ýmsum fyrirtækjum þar sem hann notaði síðan stjórnarsetu sína, t.d. í einu sjávarútvegsfyrirtæki, til þess að biðja sitt eigið verktakafyrirtæki um að gera úttekt á þessu sama sjávarútvegsfyrirtæki sem hann var formaður í. Það er því miður þannig að hægt er að rekja í löngu máli þessi vinnubrögð sem hafa verið vernduð af ráðherrum Alþfl. í anda þess flokkspólitíska kommissarakerfis sem ráðherrar Alþfl. hafa verið að festa í sessi í kringum sig á undanförnum missirum.