Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 12:59:48 (5611)

     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Þessar umræður hafa nú orðið nokkuð miklar um það frv. sem hér liggur fyrir og ég

ætlaði mér ekki að blanda mér í þær umræður meira. Ég sagði frá því í upphafi að mér fyndist þessi mál vera að fara í heppilegan farveg, en það var eitt í orðum hv. 8. þm. Reykn. um starf þeirrar nefndar sem ég átti sæti í sem ég kemst ekki hjá því að leiðrétta og skýra frá. Hann sagði eitthvað á þá leið að nefndin hefði verið látin komast að þeirri niðurstöðu að hafa 25 sveitarfélög. Nefndin komst aldrei að þeirri niðurstöðu að 25 sveitarfélög ættu að vera í landinu. Hún benti á þrjár leiðir sem til greina kæmu og gerði ekki upp á milli þeirra. Síðan voru þessar leiðir ræddar á fulltrúaráðsfundi eins og hefur komið hér fram. Ég leyndi því aldrei að landsþing hefði frekar átt að taka afstöðu til þessara leiða en hins vegar var sú nefnd leyst frá störfum eftir það og skilaði aldrei lokaniðurstöðu. Nefndin var endurskipuð með nýjum fulltrúum vegna þess að kosningar höfðu farið fram í millitíðinni og hún vann síðan áfangaskýrslu sem nú liggur fyrir, ný nefnd.
    Ég vildi láta þetta koma fram vegna þess að ég átti sæti í nefndinni og ég hef aldrei verið látinn komast að niðurstöðu um 25 sveitarfélög eða hef komist að niðurstöðu. Sannleikurinn er sá að það hefur verið talað allt of frílega um að hitt og þetta í áfangaskýrslum nefndarinnar tveimur séu tillögur nefndarinnar. Þetta hefur glumið í eyrunum á manni að þetta séu tillögur þessara nefnda. Ég hef fyrst og fremst litið á það sem mitt hlutverk í þessum nefndum að vinna að þessum áfangaskýrslum að safna upplýsingum, benda á leiðir sem eru teknar til umræðu og síðan séu teknar afstöður í lokaskýrslu nefndarinnar. Það mun væntanlega verða gert nú á næstunni.
    Ég ætla ekki að blanda mér í aðrar umræður sem hér hafa farið fram um formann nefndarinnar og þau mál. Ég ætla ekki að taka þátt í þeirri umræðu en vildi láta þetta koma fram. --- [Fundarhlé.]