Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 13:54:12 (5613)

     Hrafnkell A. Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef því miður ekki verið viðstaddur þessa umræðu frá upphafi hennar en ræða hv. síðasta ræðumanns gefur mér tilefni til þess að koma hér upp og gera örstutta athugasemd við hans mál. Út af fyrir sig getur lagagreinin sem hann gerir tillögu um breytingu á fyllilega átt rétt á sér. Það er umdeilanlegt hvort núverandi ákvæði sveitarstjórnarlaga hvað þetta varðar eru fyllilega réttlát. En það sem vakti hins vegar furðu mína í ræðu hv. þm. var að honum tókst að fjalla hér í löngu máli um eitthvað allt annað en það sem þessi lagagrein lýtur að og þá fyrst og fremst að skeyta skapi sínu á Alþfl. sem auðvitað er eitthvað sem ég ætla ekki að blanda mér í. Það er rétt og skylt að hann geri það þegar hugur hans stendur til þess.
    En það sem ég vildi rifja upp er að ég man ekki betur en fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga hefði á síðasta ári samþykkt samhljóða þá stefnu sem svokölluð sveitarfélaganefnd hefur fylgt eftir. Ég man ekki betur en þessi samþykkt hafi verið gerð þvert á allar flokkslínur og ef mig misminnir ekki þeim mun meira greiddu tveir fulltrúaráðsmenn atkvæði gegn þeim tillögum sem sveitarfélaganefndin lagði til á þeim tíma. Út af fyrir sig er sú niðurstaða sem þessi ágæta nefnd hefur unnið eftir að mínum dómi umdeilanleg og langt í frá að vera sjálfgefin, en því fer víðs fjarri að það sé hægt að merkja hana einhverjum pólitískum línum.