Sveitarstjórnarlög

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 14:05:27 (5620)


     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sú umræða vestur á fjörðum er skammt á veg komin. Menn reyndu fyrir sér fyrir tveimur árum, ef ég man rétt, að byrja umræðu um samnýtingu hafna og sú umræða hefur nánast ekkert komist á flot af þeirri einföldu ástæðu að menn eru ekki tilbúnir í smáum sveitarfélögum eða stórum að gefa frá sér það sem þeir hafa. Þetta verðum við að horfast í augu við og viðurkenna þennan veruleika.
    En ég vil minna hv. þm. á að eina tillagan sem hefur verið flutt um samstarf og samnýtingu mannvirkja á norðanverðum Vestfjörðum er tillaga sem ég flutti í bæjarstjórn Bolungarvíkur 1986 um samnýtingu og uppbyggingu sameiginlega á íþróttamannvirkjum. Hún var samþykkt og stofnuð viðræðunefnd milli Ísafjarðar, Bolungarvíkur og Súðavíkur um það verkefni í framhaldinu en því miður varð enginn árangur af því nefndarstarfi.