Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 15:01:09 (5635)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Á síðasta þingi beið ég hérna a.m.k. tvo heila daga eftir að komast í ræðustól og ræða um þál. um framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Þetta mál var ævinlega aftast á dagskrá þingsins og það voru alltaf önnur mál sem fengu forgang, enda endaði það þannig að þetta mál fékkst aldrei rætt á síðasta þingi þrátt fyrir að hér biðu konur heilu og hálfu dagana eftir umræðu um það. Nú er það komið hér og hvað sjáum við þegar við lítum yfir salinn? Áhuginn er greinilega mjög lítill á þessu máli og maður spyr sjálfan sig, til hvers er verið að þessu? Til hvers er verið að leggja fram slíka framkvæmdaáætlun? Það er enginn áhugi á slíkri framkvæmdaáætlun. Ekki hafa ráðherrarnir áhuga á henni. Ég er sannfærð um að ekki einn einasti þeirra hefur skenkt þessari áætlun eina hugsun, þeir hafa ekki komið nálægt því að semja þessa áætlun, ég er alveg sannfærð um það. Það hafa setið einhverjir skriffinnar uppi í ráðuneytum og þeim hefur verið sagt: Setjið eitthvað á blað um einhver átök eða einhverja áætlun eða eitthvað slíkt sem hægt er að gera í þessum jafnréttismálum. Þeir hafa gert það og síðan hefur það ratað hérna inn í þessa áætlun og þessir ráðherrar hafa ekki skenkt þessu eina hugsun og þeir hafa engan áhuga á þessu máli, ég fullyrði það. Það sýna tómu sætin þeirra hérna.
    Ástæðan fyrir því að verið er að fjalla um þetta og gera svona áætlun er að það er verið að fullnægja formsatriði. Lögin segja: Þetta á að gera og þá skal það gert og sett hér á dagskrá. Svo er það undir hælinn lagt hvort þetta fæst rætt og svo er það undir hælinn lagt hvort það kemur hingað aftur inn og svo er það undir hælinn lagt hvort það verður yfirleitt framkvæmt. Það er ég sannfærð um. Ég er ekki að forsmá í rauninni ágætan vilja félmrh., það er í hennar verkahring að leggja þetta fram og ég er í sjálfu sér ekki að forsmá þessa áætlun, en ég er að benda á það að þeir sem ráða í stjórnkerfinu hafa engan áhuga á þessu máli, þeir eru bara að fullnægja formsatriði með því að gera þetta hérna.
    Þetta er talsvert mikið plagg og það væri hægt að tala langt mál um þetta en það gefst ekki tími til þess og þess vegna verður maður að demba sér einhvers staðar inn í þetta. Mig langar vegna þess að hér hefur réttilega komið fram og verið á það bent að flest það sem þessi ríkisstjórn er að gera vinnur einmitt beinlínis gegn jafnrétti, er beinlínis til þess fallið að gera stöðu kvenna verri en hún er. Og það hefur verið bent á það með lánasjóðinn, það hefur verið bent á það með tryggingakerfið. Inni í þessari áætlun er ýmislegt sem kemur í sjálfu sér jafnrétti ekkert við og konum í sjálfu sér ekkert við. Það er eins og með leikskólann, að það eigi að láta fara fram einhverja endurskoðun þannig að saman fari skuldbindingar, ábyrgð og völd í fjárhagslegu og faglegu tilliti. Hvað kemur það jafnrétti við? Hefur það eitthvað með það að gera hvar mál skuli staðsett í stjórnkerfinu? Það kemur konum ekkert sérstaklega við og jafnrétti ekkert við. Þá verða menn að setja sér einhver önnur markmið en slík.
    Það er líka eitthvað slíkt um fæðingarorlofið að jafna rétt foreldra til fæðingarorlofs óháð því hvort um er að ræða opinberan starfsmann eða starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Það hefur margsinnis komið fram í máli m.a. hæstv. heilbr.- og trmrh. að hann hefur mikinn hug á því að jafna fæðingarorlofið niður á við, takmarka rétt þeirra sem hafa betri stöðu núna og jafna niður á við. Það er ekkert sem kemur konum til góða eða er til einhverra bóta í jafnréttismálum, það kemur jafnrétti ekkert við. Þannig er um fleiri hluti í þessari áætlun.
    Á fremstu síðu er minnst á starfsmannamál ríkisins. Í lið nr. 2 segir:
    ,,Ákvæði um ráðningar í störf.
    Það kynið, sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein, skal að öðru jöfnu ganga fyrir við ráðningar í störf þegar umsækjandi er jafnhæfur eða hæfari.``
    Og mig langar til að vekja athygli þingmanna á því hvernig þetta getur virkað núna á atvinnuleysistímum. Auðvitað eru svona mál hugsuð þannig að konur hafi einhvern aðgang að störfum þar sem karlar eru í meiri hluta sem eru þá vellaunuð störf, yfirleitt stjórnunarstörf eða einhver slík, en á atvinnuleysistímum getur þetta virkað þannig að konur verða að hrekjast úr kvennastéttum vegna þess að atvinnulausir karla fari að leita inn í illa launuð kvennastörf sem þeir hafa ekki haft nokkurn einasta áhuga á, ekki nokkurn áhuga á að fara í vegna þess að þeim finnst þetta ekki vera merkileg störf, þetta eru illa launuð störf en á atvinnuleysistímum vilja auðvitað menn gera ýmislegt. Og þá getur ákvæði eins og þetta virkað þannig að í rauninni ýti það konum út úr hefðbundnum kvennastörfum og þetta hefur verið að gerast hér í löndunum í kringum okkur. Ég var hérna einhvers staðar með úrklippu úr Aftenposten frá því í nóvember og þar kemur þetta einmitt fram að konur þar eru að segja nei eða hafna því að fá karla inn í kvennastörf vegna þess að þeir eru að ýta þeim út úr ýmsum umönnunarstörfum. Hér segir:
    ,,Karlarnir hafa raunverulega aldrei verið beittir neinni mismunun. Þessi störf hafa alltaf verið þeim opin, þeir hafa bara ekki sótt í þau``. Það er öðruvísi með störfin þar sem karlar hafa verið í meirihluta, stjórnunarstörfin. Konur hafa sótt í þessi störf en ekki fengið þau. Á því er mikill munur. Og það segir hérna: ,,Ef karlar eru ekki í umönnunarstörfum er það fyrst og fremst vegna þess að þetta eru láglaunastörf sem hafa haft litla skírskotun til karla.`` Og hér er einmitt á það bent að vegna atvinnuleysisins séu karlar í auknum mæli að sækja inn í hefðbundin kvennastörf til þess að fá eitthvað að gera. Og oft eru þeir teknir fram yfir, jafnvel þó þeir séu ekki hæfari. Þar með er takmarkaður aðgangur kvenna að þessum störfum og þetta verðum við að hafa í huga. Tímarnir eru allt aðrir núna heldur en þeir voru fyrir nokkrum árum þegar í rauninni vantaði fólk á vinnumarkaðinn og við verðum að hugsa þessi mál dálítið út frá því.
    Annað sem mig langar til þess að gera hér örlítið að umtalsefni er dóms- og kirkjumrn. vegna þess að ég lagði fram fsp., líklega á síðasta þingi, um ofbeldi á heimili. Ég sé ekki neitt í þessu plaggi frá dóms- og kirkjumrn. um það hvernig það hefur hugsað sér að taka á þeim málum. Það er full ástæða til að ráðuneytið gefi nú þeim málum gaum. Þeir ættu að vísu að fjölga konum í starfi hjá RLR og það er auðvitað mikilvægt, ekki síst að fjölga þeim konum sem vinna að rannsóknum á kynferðisafbrotum. Þá er líka rétt að hafa það í huga að þær konur hafa oft átt dálítið erfitt uppdráttar hjá rannsóknarlögreglunni og m.a. ein kona sem var komin með talsvert mikla reynslu þar var flutt til í starfi og úr rannsóknum á kynferðisafbrotum. Þeir verða þá eitthvað að skoða sinn gang betur hjá rannsóknarlögreglunni. En ég vil fá að vita hvernig þetta ráðuneyti ætlar að taka á heimilisofbeldi. Í svarinu sem ég fékk við fsp. minni í fyrra kom fram að af 130 málum á ári þar sem lögregla þarf að hafa afskipti af líkamlegu ofbeldi á heimili endar yfirleitt eitt með kæru. Sían var úr 130 málum á ári og niður í eina kæru. Lögreglan lítur kannski svo á að þetta sé einkamál en ofbeldi er aldrei einkamál. Það skiptir engu máli þó að það fari fram inni á heimili. Það er jafnmikið andfélagslegt athæfi og jafnmikið brot gegn samfélaginu eins og það fari fram á götu úti. Ofbeldi er ógnun við samfélagið allt og okkur verður að lærast að líta þannig á málið og ekki sýna umburðarlyndi gagnvart því hvar sem það fer fram. Því miður er það nú svo að það virðist hafa verið litið á þetta ofbeldi inni á heimilum sem einkamál og ekki hafa verið tekið á því sem opinberum málum. Hins vegar vantar yfirleitt ekki snör handtök þegar um götuofbeldi eða ofbeldi á skemmtistöðum er að ræða, en það virðist fremur horft í gegnum fingur sér með ofbeldi á heimili. Ég vil fá að vita hvað ráðuneytið hyggst gera í þessu máli því að ég sé ekkert um það hér.
    Þá er ástæða til að benda á að það er víða pottur brotinn varðandi skráningu á þessum málum og mig langar til að benda á, (Forseti hringir.) ég er að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. ( Forseti: Ég verð að vekja athygli hv. þm. á því að ...) Ég veit það, virðulegi forseti, ég ætla að nefna tvær tölur áður en ég fer úr pontu. Á fjórum árum voru skráð 11 slík mál hjá sýslumanninum í Eyjafjarðarsýslu, bæjarfógetanum á Akureyri og Dalvík samanlagt. ( Forseti: Ég verð að biðja hv. þm. að ljúka máli sínu.) Á sama tíma voru skráð 105 mál í Hafnarfirði sem sýnir að það er eitthvað verulega athugavert við skráningu á þessum málum hjá lögregluembættunum.