Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 15:10:17 (5636)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Mikið lifandis skelfing finnst mér svona plagg klæða hæstv. félmrh. illa. Þetta plagg sem hér liggur fyrir á þskj. 232 minnir mig meira en nokkuð annað á mörg slík plögg sem lögð voru fyrir okkur í Norðurlandaráði á sínum tíma og okkur þótti nú sum hver harla efnislítil þó orðmörg væru. Fyrir nokkrum árum hefði mér þótt óhugsandi að hæstv. núv. félmrh. legði svona plagg fram. Hún átti það mjög til í þann tíð, skal upplýst fyrir þá sem ekki sátu þá á þingi, að vera hér með klár og skýr mál, oftast til bóta fyrir konur og fyrir ýmsa þá sem verr voru staddir í þjóðfélaginu. Það var auðvelt að styðja þau mál og mörg fluttum við saman, en aldrei held ég að mér hefði dottið í hug að sjá annað eins og þetta frá

hæstv. núv. ráðherra. Ég skil satt að segja ekki til hvers svona plagg er. Í það vantar nú í fyrsta lagi, ef þetta á að ná til allra íslenskra borgara, ansi stóra hópa. Ég spyr: Hvar á að vinna að bættum kjörum aldraðra kvenna? Ég sé ekki að það sé neitt hugsað um þær hér. Ég sé heldur ekki að talað sé um börn nema jú, það er minnst hér á leikskólapláss. Fatlaðir, ég á erfitt að sjá hvar þeir eru staddir hér. Eitthvað er til af fötluðum konum býst ég við og heimavinnandi húsmæður gegna hér ekki stóru hlutverki heldur. Allt er þetta meira en yfirborðslegt og ég vil auðvitað taka undir hvert einasta orð sem hv. 2. þm. Vesturl. sagði hér áðan, Ingibjörg Pálmadóttir. Það er dálítið hallærislegt, liggur mér við að segja, að sjá svona plagg lagt fram sem heitir ,,Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.`` Á sama tíma og hæstv. ráðherra hefur verið í ríkisstjórn í tvö ár sem er að vinna að því ljóst og leynt að gera kjör Íslendinga óbærileg, Íslendinga af báðum kynjum. Þegar lífskjör rýrna, þá bitnar það alltaf harðar á konum. Það hefur alltaf verið svo. Þær búa þegar við miklu lakari hlut og því verra sem ástandið verður í þjóðfélaginu, þá verri verða kjör kvenna. Það mætti svo sem þess vegna tæta niður hvert einasta orð sem hér stendur.
    Strax í 1. lið er enn verið að tala um ákvæði um auglýsingar á lausum stöðum hjá ríkinu. Það eru engar lausar stöður hjá ríkinu. Hæstv. ráðherra þarf ekki að hafa minnstu áhyggjur af því. ( Gripið fram í: Hvað um seðlabankastjórastöðuna?) Það er verið að segja fólki upp í hópum og fólk er að missa vinnuna. Hverjir skyldu nú missa vinnuna fyrst? Ætli það séu ekki einmitt konur þannig að það er auðvitað eins og brandari að leggja þetta fram fyrir okkur hér og nú.
    Ég veit eiginlega ekki hvort maður á að vera að eyða miklu púðri í þetta. Það getur vel verið að það sé afskaplega nauðsynlegt nú eins og segir hér á bls. 2 að markvisst verði unnið að því að ráða fleiri konur í störf rannsóknarlögreglumanna hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins. Ég held að ég fari ekki rangt með það að það réðust þó nokkrar konur til lögreglunnar á sínum tíma og ég held að ég megi segja að þeim hafi þegar fækkað mjög aftur. Skal ég þó taka leiðréttingu ef það er misskilningur minn, en á tímabili a.m.k. hafði þeim fækkað. Ég kann svo sem engar skýringar á því. Ég býst við að það sé gamla sagan að það sé erfitt fyrir konur með fjölskyldu að vinna þau störf. Konur eiga ekki heimangengt á borð við karlmenn ef um er að ræða einhverja fjölskyldu hvort sem okkur líkar betur eða verr.
    Það leiðir af sjálfu að ef konur eru með ung börn eða foreldrar eru með ung börn, þá mæðir auðvitað meira á konunni, a.m.k meðan barnið nýtur brjóstagjafar og allt annað raus um það mál er auðvitað einskis virði. Það vitum við allar sem höfum haft fjölskyldu og þurfum ekki að láta segja okkur það.
    Það er ósköp fallegt að segja hérna á bls. 4 að efla skuli heimilisiðnað. Hvernig er búið að vinna að því? Það er með því að leggja handavinnukennslu í grunnskólunum svo til niður. Hún er hvorki fugl né fiskur eins og hefur verið sannað hér á hinu háa Alþingi. Í tilefni af því að ég bar hér fram fsp. fyrir nokkrum árum um hvaða áhrif það hefði haft að bæði piltar og stúlkur skyldu læra sömu handavinnuna, en um leið hefði verið gleymt að fjölga tímunum um helming, það kom auðvitað í ljós að handavinnu í grunnskólanum hefur hrakað svo að hún er ekki umræðuverð eins og sakir standa. Halda menn svo að upp úr því vaxi einhver heimilisiðnaður? Hvaðan á hann að koma? Ætli það væri ekki ráð að byrja á grunnskólanum. En hvernig gerir hæstv. ráðherra það? Með því að leggja blessun sína yfir að þar er allt skorið niður og ekkert gert í því þrátt fyrir að fyrrv. hæstv. menntmrh., Svavar Gestsson, kæmi hér með ítarlega skýrslu um þetta mál. Hefði honum enst embættisaldur þá hefði verið unnið að því að bæta þarna úr. En það er öðru nær en að það hafi verið gert. Það þarf mikla vinsemd til að líta á þetta plagg með einhverju því hugarfari sem nálgast að taka þetta alvarlega.
    Það er ekki aldeilis ónýtt heldur, hæstv. forseti, að hæstv. iðnrh. skipi sérstaka nefnd til að gera úttekt á stöðu kvenna í iðnaði og móta tillögur í þá átt að jafna hlut kynjanna á öllum starfs- og stjórnunarstigum. Ég spyr hæstv. forseta og hæstv. ráðherra: Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta að hæstv. ráðherra ætli að vinna að því að karlarnir taki sér sæti við saumavélarnar á þeim launum sem þar eru boðin og taki nú til að sauma gallabuxur og skyrtur og barnaföt og guð má vita hvað? Ég skal segja hæstv. forseta að mér finnst svona lagað ekki boðlegt í þingskjali. Mér finnst þetta hlægilegt. Það er auðvitað ekkert að því að konur séu lagnari við saumaskap en karlar en það sem er að er að þær eru miklu verr launaðar fyrir þau störf en karlarnir fengju ef þeir sætu við saumavélarnar. Það getum við alveg gefið okkur.
    Síðan er hér í annarri hverri grein talað um starfsmenntun og námskeið. Þetta er sjálfsagt unnið upp úr einhverjum skandinavískum plöggum þar sem menn hafa búið við það í áratugi að stór hluti þjóðarinnar sé atvinnulaus og eigi að vera það og verði það og þess vegna er verið að reyna að hafa ofan af fyrir þessu fólki með alls kyns námskeiðahaldi og menn heita ýmist ,,ledig`` eða ,,langtidsledig`` eða hvað þetta nú heitir og þar hefur málið gengið svo langt að ef einhver ,,langtidsledig`` fær atvinnu þá verður hann að fara úr henni eftir nokkra mánuði því það þarf að koma öðrum ,,langtidsledig`` að. Ég hélt að við ætluðum ekki að fara að búa til svona kerfi. Með allri virðingu fyrir námskeiðum og aukinni menntun þá held ég að sumt af þessu sé æðiyfirborðskennt og ekki mikil alvara á bak við. En það væri mér svo sem ekki til ama þó atvinnulausir af báðum kynjum færu á saumanámskeið eða prjónanámskeið til að efla íslenskan heimilisiðnað. ( Forseti: Ég verð að vekja athygli hv. þm. á því . . .  ) Ég hef þegar skilið, hæstv. forseti, að tími minn er búinn og ég skal hlýða því kalli. Einungis að lokum. Yfir tekur á bls. 8 kaflinn um konur í þróunarríkjunum. ( Forseti: Ég vil biðja hv. þm. um að spara viðbætur við ræðu sína.) Nú bið ég hæstv. forseta að fylgja þeirri venju að hafa þolinmæði í nokkrar sekúndur. Þar er stungið upp á því að á

vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði sérstakur gaumur gefinn að stöðu kvenna í þróunarlöndunum. --- Það er ekki bannað að hlæja.