Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 15:29:57 (5639)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þær undirtektir sem fram komu í máli hennar við ræðum þingmanna hér. Mér finnst að hún hafi í raun og veru fallist á það að áætlunin eins og hún lítur út sé of óljós, hún þurfi að vera miklu skýrari og skarpari en hún er. Hún tók undir hvatningar til þingnefndarinnar um að nefndin vandaði sig við verkið. Ég skora á hv. þm. sem eru í þessari nefnd að taka þessari hvatningu vel og endurmeta þessa áætlun. Og það að hæstv. ráðherra getur lesið upp úr áætluninni núna nákvæmlega sömu setningar og voru í henni fyrir mörgum árum bendir auðvitað til þess að menn hafi kannski ekki lagt ýkja mikla alúð við plaggið einmitt núna þegar það er lagt fram. Ég hef satt að segja grun um að menn hafi ekki gert það. Ég hef rökstuddan grun um að við meðferð málsins í einstökum ráðuneytum hafi menn yfirleitt ekki tekið á þessum tillögum af mikilli alvöru, svo ég segi nú ekki meira.
    Það er einnig nauðsynlegt að taka á því hvað af þessum hlutum hefur verið gert sem er í raun og veru mjög auðvelt að gera. Hér er fjöldinn allur af hugmyndum um að skipa nefndir til kannana og athugana á ýmsu. Hefur þetta kannski staðið lengi í þessum jafnréttisáætlunum? Að skipuð verði nefnd til að gera úttekt á og setja fram tillögur um það hvernig tryggja megi sem best rekstrargrundvöll félagasamtaka sem aðstoða konur og börn sem eru þolendur ofbeldis og sifjaspella? Skipuð verði nefnd til að gera úttekt á stöðu kvenna í iðnaði og móta tillögur í þá átt að jafna hlut kynjanna á öllum starfs- og stjórnunarstigum? Hvað er að frétta af þessum málum?
    Ég held að í rauninni sé það þannig að hér séu í fyrsta lagi almennar yfirlýsingar, í öðru lagi yfirlýsingar um nefndaskipanir, í þriðja lagi sjálfsagðir hlutir af ýmsu tagi og í fjórða lagi tillögur um ákvarðanir sem Alþingi hefur engin áhrif á og ekkert vald á nema í fjárlögum. Dæmi um það er t.d. varðandi Rannsóknarlögreglu ríkisins. Þar væri auðvitað hægt að setja inn í fjárlög ákvæði um að styrkja þá stofnun en það sem vantar sérstaklega er konur í rannsóknarlögreglustörf af fjölmörgum ástæðum og þeim sem hafa komið þar við hefur ekki verið vært þar mjög lengi eins og þeir þekkja sem hafa sett sig eitthvað aðeins inn í þau mál.
    Í þessum umræðum ættu menn líka að velta því eitthvað fyrir sér, sem hæstv. félmrh. nefndi, hvaða vald hefur ráðherra, hvaða möguleika hefur ráðherra á þessu sviði. Ég tel að ráðherra hafi í grófum dráttum tvenns konar meginmöguleika. Í fyrsta lagi hefur hann möguleika til að hafa áhrif á hina almennu pólitík sem fylgt er í landinu. Það er alveg ljóst að núv. ríkisstjórn hefur ekki stuðlað að jafnrétti með þeirri stefnu sem hér hefur verið fylgt á undanförnum tveimur árum eins og ég rakti í fyrri ræðu minni í dag. Það kemur fram í atvinnuleysinu, það kemur fram í grunnskólamálunum, það kemur fram í leikskólamálunum og alveg séstaklega fram í Lánasjóði ísl. námsmanna. Þar er bersýnilega um að ræða stefnu og ákvarðanir sem allar hafa haft það í för með sér að misrétti hefur aukist á Íslandi. Það er þannig. Það hefði verið eðlilegt að leggja hér fram tölur og upplýsingar um það hvernig misréttið hefur aukist og jafnrétti minnkað á Íslandi á undanförnum tveimur árum eða svo. Og það er auðvitað skylda nefndarinnar að taka á því.
    Í öðru lagi geta einstakir ráðherrar haft áhrif á jafnréttismál með ráðningum í störf og með skipun í nefndir og ráð. Það er greinilegt að á því sviði varð nokkur breyting á árunum 1987--1990, þar sem hlutfall kvenna í ráðum og nefndum, sem skipað er í á vegum ríkisstjórnarinnar, jókst úr 11% í 17% á þeim tíma. T.d. í menntmrn. úr 16% í 29%, í fjmrn. úr 6% í 16%, það er merkjanlegur munur, í félmrn. var munurinn að vísu mjög lítill, aukning úr 21% í 23%. Þar var einna minnst aukning af þeim ráðuneytum þar sem einhver aukning verður. Það er bent á það í nýjustu skýrslu Jafnréttisráðs að vandinn fyrir ráðherrana er ekki síst sá þegar þeir eru að skipa nefndir að tilnefningaraðilarnir eru býsna fastir í þeirri rullu

að gera tillögu um karla í allar nefndir. Þegar ég beitti mér fyrir því í menntmrn. á sínum tíma að allir tilnefningaraðilar voru beðnir um að tilnefna karl og konu þannig að hægt væri að gæta jöfnuðar í skipun nefndarinnar þegar hún var komin saman sem heild vissi ég satt best að segja ekki hvert sumir þeirra ætluðu þegar þeir hringdu í ráðuneytið og spurðu: Ætlið þið að fara að ráða því hverjir verða í nefndum fyrir okkur? Og þetta voru reyndar sumir þeir sem síst skyldi. Möguleikar ráðherranna til að hafa áhrif á þessa hluti eru því oft og tíðum mikið takmarkaðri en menn ímynda sér. Vegna þess að að lokum skiptir það höfuðmáli að vald ráðuneyta og ríkisstjórna í þjóðfélaginu hefur með markvissum hætti verið minnkað á síðustu árum, minnkað. Markaðurinn ræður meiru og meiru.
    Í öllum þeim kærumálum um jafnrétti sem hafa verið kveðnir upp úrskurðir í á undanförnum árum hafa menn verið að fjalla um opinbera markaðinn. Einkamarkaðurinn er ekki ræddur. Það er aldrei spurt um það hvernig einkaaðilar sem reka fyrirtæki framkvæma jafnréttisreglur inni í sínum fyrirtækjum. Það er t.d. aldrei spurt um það hvernig það kemur sérstaklega niður á konum að í stærstu einkafyrirtækjunum er alger leynd um laun og kjör hvers einasta manns, honum eða henni er bannað að viðlögðum brottrekstri að segja frá því hvað viðkomandi hefur í laun. Það er öruggt mál að þetta pukur með launin sem einkamarkaðurinn hefur tekið upp kemur mikið verr niður á konum og það er öruggt að launamunurinn í einkageiranum hefur aukist, hann hefur m.a. aukist af þessum ástæðum og hann sést minna nú en áður út af þessu pukri með laun og kjör.
    Þess vegna er alveg ljóst að það er mjög erfitt að berjast fyrir jafnrétti að ekki sé meira sagt á sama tíma og menn játa markaðinum alla sína trú og vilja beygja sig í duftið fyrir hverju sem markaðnum þóknast að innleiða í þjóðfélaginu, hvort sem það er í jafnréttismálum eða á öðrum sviðum. Þess vegna er það skrýtið að Jafnaðarmannaflokkur Íslands skuli ganga framar í því að heimta að markaðurinn ráði öllu heldur en mér liggur við að segja allir aðrir flokkar í landinu.
    Aðalatriðið er að minna á það að lokum, virðulegur forseti, af minni hálfu að í rauninni sýnist mér vera full samstaða um það hér meðal fulltrúa þeirra flokka sem hafa talað --- ég hef ekki orðið var við að hér hafi talað neinn frá Sjálfstfl. Hefur það gerst? Nei, ekki í þessu máli. En milli allra annarra flokka virðist vera full samstaða um að taka á þessu máli og setja sama burðuga jafnréttisáætlun, endurskoða þessa og setja saman burðuga og skýra jafnréttisáætlun og fara jafnframt yfir áhrifin af þeim áætlunum sem þegar hafa verið skrifaðar og ræddar hér á Alþingi.
    Að lokum ætla ég að mótmæla því sem fram kom, virðulegur forseti, í ræðu hv. 10. þm. Reykv. sem sagði að konur hefðu beðið óþreyjufullar eftir umræðunni um þessi mál í fyrra. Það er bara hálfur sannleikur. Það vill svo til að það kemur fyrir að karlar eða a.m.k. karl fjallar um jafnréttismál úr þessum virðulega ræðustól. Og það má gjarnan nefna það stundum. Ég er ekki viss um að það sé jafnréttismálum til framdráttar að slá á það liðsinni sem kann að koma annars staðar að.