Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 16:02:10 (5643)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég hætti mér út á hálan ís þegar ég fer að tala hér og nú. Maður hefur verið kannski hvattur til að segja einhver orð hér en umræðuna hef ég hlýtt á eins og flest sem hér fer fram eftir mínum mætti en kunnáttan í þessu fagi er æðilítil. Ég verð að játa það þó að hún hafi farið vaxandi með því að hlusta á orð manna og sérstaklega kvenmanna í dag og raunar oft áður.
    Ég held að eitthvað sé til í því sem hér var sagt að það hefur jafnvel verið fremur afturför í þessum málum en hitt nú upp á síðkastið hvað sem veldur. Þá er sjálfsagt ekki þó það yrði nú farið að lýsa inn í höfuð mannanna möguleiki á því að finna nákvæmlega hvað það sé.
    Hitt er rétt að íslensk saga segir okkur það að konur hafi yfirleitt verið metnar af karlkyninu og oft og tíðum hafa þær afrekað meira en bóndinn. Þó að hann stæði í vígaferlum þá held ég að konan hafi vakað heima og séð um börn sín og kannski lært meira af því en standa í baráttunni út á við.
    Ég ætla mér ekki að vera sá spámaður að segja eitt eða neitt um það hvað við getum akkúrat gert. Ég viðurkenni að það er nokkuð á reiki hvað minn flokkur eins og sjálfsagt allir flokkar hafa beint á stefnuskrá sinni. Við skiptumst ekki eftir flokkum í afstöðu til þessa mikla vandamáls. Að sjálfsögðu hefur Kvennalistinn riðið á vaðið og verið fordæmi fyrir aðra, líka erlendis, og hefur verið með því fylgst. Þó er ekki ljóst að hugsjónir flokksins hafi ræst miklu betur en hafi verið gert innan stjórnmálaflokkanna. Ég segi það eins og það er. Staðreyndir sýna að það hefur ekki orðið svo en hitt er náttúrlega alveg ljóst að við karlmennirnir erum illa settir kvenmannslausir í öllum skilningi.
    Þegar ég hef verið að horfa yfir sal á þessu ári, síðasta ári, síðustu árum þá hefur það æðioft verið svo að það hafa verið fleiri konur í salnum en karlar við alvarleg málefni eins og þetta. Þær hafa yfirleitt talað oftar en við, styttra og kannski gagnorðara. Ég hef gert það hér að gamni mínu að telja þetta saman. Oft eru konurnar fleiri en karlarnir í salnum. Það er æðioft svo þó að ekki sé verið að ræða sérstök málefni þeirra. Þetta sýnir manni nú a.m.k. að konurnar eru ástundunarsamari eða hvað á að kalla það. Þær eru áhugameiri. Þær taka kannski lífið alvarlegar en við karlarnir að sumu leyti. Þær sinna því starfi sem þær hafa tekið að sér og vafalaust hafa konurnar vakað lengur en karlarnir í gegnum árin og aldirnar. En ég ætla ekki að fara að hæla þessum elskum hér inni. Það þarf ekki. Þær standa fyrir sínu en þar sem eftir því var kallað að minn flokkur og kannski einhverjir fleiri karlmenn ræddu málið þá vil ég nú leggja þessi fáu orð í púkkið. Auðvitað má orða það svo að það megi horfa inn í hugarheim hvort heldur er karla eða kvenna og það er nú gert í þessum vísindum öllum saman sem bera samt takmarkaður árangur en sem betur fer stundum mjög glæsilegan. Oft er hægt að lækna þetta með menntuninni og menningunni og án þess værum við illa komin. En ég held að bæði konur og karlar þurfi að herða á og gera það að raunveruleika að á Íslandi eins og svo oft áður til forna þegar við vorum kannski ekki mikils megandi, þá eru konurnar ekki síður ráðandi afl en karlarnir. Oft hafa þær verið meira ráðandi en karlarnir og þess óska ég innilega að svo verði áfram í miklu ríkara mæli en verið hefur undanfarin ár.