Greiðslur úr ríkissjóði o.fl.

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 16:57:02 (5648)

     Flm. (Karl Steinar Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Mjög gagnlegar umræður hafa farið fram um það frv. sem hér liggur fyrir um greiðslur úr ríkissjóði og bent á ýmis atriði sem væru umhugsunarvirði. Fram komu hjá hv. 9. þm. Reykv. vangaveltur í sambandi við 2. gr. frv. Ég vil minna á að við höfum sótt ráð og hugmyndir til þinganna í nágrannalöndunum, t.d. í Noregi og annars staðar á Norðurlöndum og þar er svo málum háttað að ríkið getur ekki gert kjarasamninga öðruvísi en með samþykki þess þings sem situr hverju sinni. Þannig var það lagt til við fyrstu gerð frv. hér. Það vakti heilmiklar spurningar og var fallið frá því að hafa greinina þannig og er hún því í núverandi búningi.
    Hann minntist á þær mótsagnir að ráðherra hefði ákveðið vald til að gera hlutina óháð skoðunum þingsins og það gæti farið svo að því yrði beitt þrátt fyrir þetta frv. Það er hins vegar skoðun mín að ráðherra hafi t.d. ekki vald til þess að selja hús, það er nokkuð sem þarf að gefa heimild til í 6. gr. fjárlaga og enn þá síður að gefa hús. Þannig er lögformlegi hátturinn á þessu og ég hygg að það sé eðlilegt að hafa hlutina þannig. En hvað varðar hin ýmsu tækifæri er ákveðið fé í fjárlögunum til þess að sinna því ef upp koma einhver sérstök viðfangsefni sem verður að sinna hið fljótasta.
    Hann minntist einnig á 10. gr. og það var rétt hjá hv. þm. að það gæti komið upp við þingrof að engin fjárln. væri til en samkvæmt mínum skilningi þá er ekki á því tímabili sem væntanlega er ekki langur tími þá er ekki fyrir hendi heimild til þess að taka afdrifaríkar ákvarðanir í fjárhagsmálum ríkisins utan þeirra fjárlaga sem gilda.
    Málum er nú svo komið eftir breytingar á þingsköpum að fjárln. starfar allt árið sem er öðruvísi en var þegar frv. var fyrst sett fram.
    Hann minntist aðeins á skiptingu safnliða og þá þróun sem átti sér stað í þeim efnum. Rétt er það að stundum hafa verið deildar meiningar um það hvernig með það skuli fara, en sú hefð hefur skapast að fjárveitinganefnd áður og síðan fjárln. hefur skipt ýmsum safnliðum, þó ekki öllum, og ég hef heyrt af því að a.m.k. áður fyrr hafi oft verið deilt um það hvernig það hefur verið gert. Mér er ekki kunnugt um það að ágreiningur sé um það núna enda höfum við freistað þess að hafa gott samráð við þau ráðuneyti sem um er að ræða hverju sinni.
    Það er líka rétt að fjárln. hefur vald til þess að gera tillögur um meðferð þessara fjármuna og má vera að það sé skynsamlegt að breyta þessu á þann hátt að meira sé tilgreint í fjárlögunum en núna og safnliðir séu jafnframt því rýrari.
    Hann minntist einnig á hina ýmsu sjóði sem munu vera til í ráðuneytinu. Ég er alveg sammála honum í því að auðvitað á að tilgreina þetta allt saman, það á ekki að vera neinn feluleikur með fjármuni ríkissjóðs og var þetta athugasemd sem á heima í umræðunni. Auðvitað á að greina frá öllu sem um ríkiskassann fer og ég minni á að til er sérstök nefnd sem er að fjalla um þessa hluti, hvernig skuli fara með bókhald ríkisins og vona ég að hún skili áliti hið allra fyrsta.
    Hvað varðar það hvert vísa á frv. sáum við ekki leið til þess að vísa því neitt annað en til fjárln. en það verður reynt að hafa sem allra best samráð við efh.- og viðskn. Frv. hefur legið fyrir alllengi og lá fyrir í fyrra líka. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að auðvitað verða þingflokkarnir að skipta sér af þessu, þetta er mál þingsins fyrst og fremst. Þetta er mál löggjafans, reglur sem gilda gagnvart framkvæmdarvaldinu og er mjög mikils virði að sátt sé um það hvernig að málum er staðið.
    Auðvitað er mikil ástæða til þess að laga sig að því efnahagsumhverfi sem við búum við, allt annað efnahagsumhverfi en var svo áratugum skipti með óðaverðbólgu og óráðsíu í ríkisfjármálum en það frv. sem hér liggur fyrir er eitt skrefið í þá átt að skapa betra efnahagsumhverfi og betri umgengni um ríkissjóð.
    Ég hygg að ekki sé ástæða til þess að hafa fleiri orð um þetta en ég vænti þess að frv. þetta geti náð afgreiðslu. Ígildi þess hefur oft verið fyrir þinginu en ekki náð afgreiðslu. Það ættu að vera öll efni til þess núna að það takist.