Greiðslur úr ríkissjóði o.fl.

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 17:22:01 (5653)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er á ný flutt frv. um greiðslur úr ríkissjóði og fleira. Ég vil fagna að þetta er gert en mig undrar hvers vegna það er gert svo seint á þinginu. Hér er ekki um mál að ræða sem undirbúningur að hefði þurft að vera svo langur vegna þess að hér er að mestu leyti um gamlan kunningja að ræða sem var árangur langrar baráttu sem m.a. sá sem hér stendur tók þátt í að setja af stað. Það var krafan um að aukafjárveitingum yrði hætt.
    Ég verð að segja eins og er að meðan það ástand er að ekki er hægt með venjulegum lögum að hafa áhrif til þess að stöðva eitt og annað má gera ráð fyrir því að framkvæmdarvaldið hafi mjög frjálsar hendur, svo ekki sé meira sagt, því það er hægara sagt en gert að koma ráðherrum fyrir landsdóm.
    Hér segja sumir að það eigi ekki að gera ráðherra ómynduga og finnst að það eigi ekki að herða svo mjög að þeim hvað fjármálaumsvif snertir. Ég ætla að nefna eitt dæmi um ráðstafanir ráðherra sem mér þykja harla merkilegar. Eitt dæmi úr fortíðinni sem mjög stór hópur ráðherra kom að. Það var að breyta Rúgbrauðsgerðinni í húsnæði fyrir veislur og fundahöld. Menn mega fletta fjárlögunum fram og aftur, e.t.v. ríkisreikningnum líka, án þess að finna nokkurt dæmi um að fé hafi verið veitt til þessa verkefnis.
    Ég er sannfærður um að það er enn ærið umhugsunarefni hvort íslenskir ráðherrar halda sig innan þess ramma sem stjórnarskráin setur þeim varðandi þessa hluti. Ég veit raunar að enn gerist það að farið er af stað með framkvæmdir án þess að búið sé að ganga frá lagaheimild þar að lútandi. Verk eru boðin út án þess að búið sé að ganga frá heimildum til þess að greiða. Þess vegna fagna ég þessu frv. þó það sé því miður, að mínu viti, of seint fram komið en vona jafnframt að Alþingi Íslendinga beri gæfu til þess að vinna vel í þessu máli.
    Hér er farið fram á að eignir séu ekki seldar nema heimildir séu í almennum lögum og þar er eignarhlutur settur inn, þ.e. hlutabréf. Mér finnst líka þó nokkurt umhugsunarefni varðandi sölu á eignum að það er oft sett inn að ,,ráðherra hefur heimild til að selja`` en svo það er söluformið. Sumt er nánast sala til málamynda eins og menn þekkja. Jafnvel hefur það gerst að menn hafa í skálarræðum á góðum stundum gefið eignir ríkisins og viljað svo fá það staðfest seinna að þeim hafi verið heimilt að gera það. Sé ég nú að sumir muna eftir ýmsum atvikum úr liðinni tíð. Ég hugsa stundum um gamla kennaraskólahúsið í því sambandi en það er kannski ekki það stærsta sem gefið hefur verið af valdsmönnum vorrar þjóðar. ( SvG: Það var afi Steingríms sem byggði húsið.) En ekki sakar að menn séu fróðir um fortíð húsa og hverjir stóðu að byggingu.
    Þegar ég segi þessa hluti vil ég biðja hv. fjárln. að athuga það form sem er í dag á fasteignum ríkissjóðs, þ.e. að einhver sérstök undirdeild í fjmrn., sem ég hef aldrei vitað hver stjórnar, á rétt á því að leigja hinum einstöku ríkisstofnunum fasteignir. Þær fasteignir líta yfirleitt miklu betur út en allar aðrar fasteignir ríkisins vegna þess að það er tryggt með leigunni að hægt sé að sjá þar mjög myndarlega um viðhald og margt fleira. Þetta form er aftur á móti í reynd á þann veg að Alþingi neyðist í gegnum rekstrarframlög til þess að greiða fjármuni til viðhalds. Út af fyrir sig þarf að standa að viðhaldi en spurningin er aðeins þessi: Er ekki eðlilegt að það sé jafnræði á milli ríkiseigna í landinu hvað þetta snertir? Eiga einhverjar sérstakar eignir að vera undir náð fjmrn. hvað þetta snertir en aðrar eignir að vera undir náð Innkaupastofnunar ríkisins að stórum hluta hvort þar er sett fé í viðhald?
    Ég kem þessu hér með á framfæri vegna þess að mér hefur stundum fundist dálítið skrýtið hvernig eignir, sem ég vissi ekki annað en væru eign viðkomandi stofnunar, hafa færst til í eignareikningi og allt í einu orðið eign þessarar undirdeildar í fjmrn. Sömu undirdeildar og er eigandi að Rúgbrauðsgerðinni. Ég sé að hv. formaður fjárln. kannast við þetta fyrirbrigði og veit sennilega þó nokkuð um þessa starfsemi.
    En hvað um það. Hér erum við vonandi að taka gæfuspor ef þetta verður gert að lögum og enginn yrði glaðari en ég ef sá árangur yrði að við gætum nú endanlega sagt sem svo: Það er liðin tíð að veita aukafjárveitingar. Það hefur þokast mjög verulega í áttina til þess að það yrði liðin tíð. Þó hef ég grun um að það sé enn að gerast að greiðslur séu inntar úr ríkissjóði áður en heimildirnar eru fengnar hjá Alþingi.