Greiðslur úr ríkissjóði o.fl.

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 17:31:13 (5655)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Fréttirnar sem bárust af þessu voru mjög á misvíxl. Þeir sem þáðu húsið að gjöf báru fréttina á þann veg að þeim hefði verið gefin þessi bygging. Aftur á móti er hér ýjað að því að í fundagerðabók ríkisstjórnarinnar hafi þetta verið skráð á þann veg að ríkisstjórnin hafi lofað að beita sér fyrir því við Alþingi að þetta hús yrði afhent Kennarasambandi Íslands.
    Ég var ekki við þegar hæstv. menntrmh. flutti sína ræðu á sínum tíma þannig að ég get ekki dæmt um þetta, en ég tók þetta dæmi vegna þess að þessar fréttir voru misvísandi á sínum tíma og þetta eru ekki einu fréttirnar sem hafa borist af slíkum hlutum.
    Hvort ég hafi talað of mikið undir rós skal ósagt látið en ég fór ekki í ræðustólinn til þess að ýfa allt upp í fortíðinni. Ég man eftir ýmsum hlutum. Á sama tíma og verið var að vinna að undirbúningi fjárlaga birtust fréttir um að það væri búið að tryggja aukafjárveitingu í ákveðinn skóla á Íslandi á sama tíma og verið var að reyna að skera niður og ná jafnvægi og ekki var búið að leggja málið fyrir Alþingi.
    En ég ætla ekki að fara að þrátta mikið við hv. 9. þm. Reykv. en vil þó undirstrika að það verða

að gilda sömu lög og reglur hvort sem forsrh. er hv. Steingrímur Hermannsson eða einhver annar. Ríkið getur að sjálfsögðu tekið ákvarðanir um að beita sér fyrir ýmsu sem það leggur fyrir þingið en það er mjög óþægilegt að gefa út yfirlýsingar og koma svo til þingsins. Þá er verið að stilla þinginu upp við vegg, þá er verið að setja málið þannig fram að þingmenn eru nánast neyddir til að samþykkja ella gera þeir sína ráðherra menn að minni.