Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 18:50:54 (5674)

     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er tímabært að fjalla um. Það er mál sem er mjög flókið í öllum atriðum. Ástæðurnar fyrir því eru fyrst og fremst þær að hér er verið að ræða um endurreisn sjálfstæðis þriggja ríkja sem hafa orðið að búa við það áratugum saman að það hefur verið gerð kerfisbundin tilraun til þess að útrýma þjóðlegri menningu þeirra. Það liggur í hlutarins eðli að þegar stundaður hefur verið kerfisbundinn innflutningur manna af öðru þjóðerni sem tala aðra þjóðtungu árum saman, þá er komin upp í þessum löndum afar viðkvæm staða, bæði að því er varðar þjóðmenningu og sjálfstæði þessara ríkja sem hefur verið endurreist, en einnig að því er varðar stöðu þeirra íbúa sem af erlendu bergi eru brotnir og þar búa nú. Þessi staða er svo eldfim og viðkvæm að það flokkast nánast undir kraftaverk ef tekst að leysa hana án þess að til hreinna vandræða komi.
    Eystrasaltsríkin eru nú að þreifa fyrir sér um það með hvaða hætti þau geti treyst stöðu þjóðlegrar tungu og menningar um leið og þau eru að endurvekja lýðræði og lýðræðislega stjórnarhætti. Það sem þessi þáltill. fjallar um, einkum og sér í lagi, er að þess sé gætt að þessi ríki fái ráðrúm til að leggja á ný grundvöll að þjóðlegri menningu án þess að þau séu beitt óeðlilegum þrýstingi.
    Ég hjó eftir því áðan í ræðu hv. 2. þm. Vestf. að hann hafði misskilið greinargerð með tillögunni. Hann taldi að Evrópuráðið hefði sett það strangar kröfur að Eystrasaltsríkin væru ekki talin standast þær. Þessu er ekki þannig farið og er raunar hvergi sagt í greinargerðinni. Þvert á móti liggur það nú fyrir að þær kröfur sem Evrópuráðið setur eru ekki strangari en svo að Eistland og Litáen standast þær.

    Að því er varðar Letta er löggjöf er varðar ríkisborgararétt skemmra komin þar en í hinum ríkjunum. Þar er raunar, held ég að ég megi fullyrða, enn í undirbúningi löggjöf varðandi ríkisborgararétt. Síðast þegar ég frétti af þessu máli var verið að undirbúa þessa löggjöf og var gert ráð fyrir því að hún mundi fara í mjög svipaðan farveg og löggjöf í Eistlandi. Því má gera ráð fyrir að í Lettlandi, þar sem staðan er raunar viðkvæmust, verði fundin svipuð lausn og í hinum Eystralandsríkjunum.
    Að halda því fram að með flutningi tillögunnar sé verið að mæla með þjóðernishreinsunum er þess vegna ekki einungis ótrúlegur misskilningur á þáltill. heldur verður að líta svo á að þar hljóti að vera einhver mismæli líka á ferðinni.
    Ég vil hins vegar taka það fram að málið er ekki síst flókið vegna þess að ákveðnar landfræðilegar ástæður liggja til þess að þessar þjóðir eru beittar þrýstingi. Þær hafa verið beittar óeðlilegum þrýstingi og settir óeðlilegir kostir af ákveðnum þjóðum, einkum og sér í lagi af hálfu Rússa. Þeir hafa beitt þrýstingi innan Evrópuráðsins og á ýmsum öðrum alþjóðlegum vettvangi. Þeir telja þessa kosti sem eru settir í löggjöf um ríkisborgararétt óaðgengilega og telja þetta brot á mannréttindum.
    Það ber að geta þess að það liggja landfræðilegar ástæður til þess að stjórnvöld í Rússlandi hafa á undanförnum öldum sóst eftir yfirráðum yfir landi við austanvert Eystrasaltið. Þessar landfræðilegu ástæður eru miklu gildari en svo að þær lifa ekki af fleiri en eitt stjórnkerfi. Þær lifðu t.d. af keisaradæmið og má leiða að því sterk rök að þessi sjónarmið lifi af Sovétríkin. Raunar er ekki loku fyrir það skotið að sú gagnrýni sem komið hefur fram á þróun lýðræðis í Eystrasaltsríkjunum eigi að mestu uppruna sinn í Rússlandi þar sem augun beinast að rússneska minni hlutanum í þessum ríkum. Þá er rétt að minna á að tilvera slíks þjóðernisminnihluta innan smáríkja, sem eiga landamæri að voldugum stórríkjum, hefur iðulega orðið upphaf að landakröfum sem hafa leitt til mikilla blóðsúthellinga. Nægir þar að minna á hvernig þriðja ríkið gerði sér að efniviði minnihlutahópa bæði í Póllandi og Tékkóslóvakíu og gerði landakröfur í framhaldi af því sem enduðu með ósköpum.
    Það ber þess vegna að líta svo á að um leið og fagnað er lýðræðisþróun í Rússlandi er ekki loku fyrir það skotið að landfræðilegar ástæður liggi til þess að þrýstingi verði beitt á þessi ríki. Sá þrýstingur sem þau eru beitt nú, sá þrýstingur sem er beitt á alþjóðlegum vettvangi ber vott um að þarna lifi pólitísk sjónarmið sem eru hafin yfir stjórnkerfið.
    Ég vil hins vegar nota þessar örfáu mínútur sem ég á eftir til þess að undirstrika það að alveg öfugt við það sem hér kom fram í máli hv. 15. þm. Reykv., að Rússar yrðu að líða fyrir það að þeir stæðu höllum fæti í skólakerfinu, þá hygg ég hægt að leiða að því upplýsingar og rök að því að þessu sé öfugt farið. Það er mjög löng hefð fyrir því í Eystrasaltsríkjunum að sýna minnihlutahópum mikinn skilning í sambandi við skólakerfið. Ég hygg að ég geti fullyrt að einmitt þau skref hafi verið stigin núna sem miða að því að tryggja rétt rússneskumælandi Eistlendinga og Litáa í sambandi við skólakerfið.