Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 18:58:19 (5675)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem fleiri hér hafa sagt að sú umræða sem nú fer fram um stöðu Eystrasaltsríkjanna og minni hluta Rússa í þessum ríkjum sé mjög þörf og tímabær og hefði átt að eiga sér stað fyrir löngu síðan. Ég reikna með að þessi tillaga sé búin að liggja nokkuð lengi og henni hafi kannski verið ætlað að koma upp fyrr en dregist eins og svo margt annað á þessu þingi. En umræðan er mjög þörf og mér finnst hún mjög fróðleg í rauninni og væri gaman að hafa hana lengri en tök eru á því að mér finnst að í þessu máli og þessari umræðu séum við í rauninni að snerta á ákveðnum kjarna sem varðar kannski alla umræðu um alþjóðamál á þessum áratugum og ekki síst þessum árum sem við erum nú að upplifa.
    Í fyrsta lagi snýr þetta að mannréttindum og spurningunni um hvort hægt sé að aðskilja kosningarétt og kjörgengi frá einhverju sem heita mannréttindi. Mér virðist sá skilningur vera á ferðinni í tillögunni að hægt sé að tryggja fólki sem hefur ekki borgaraleg réttindi, hefur ekki kosningarrétt og kjörgengi, eitthvað sem heita mannréttindi. ( BBj: Ríkisborgararétt.) Ríkisborgararéttinum fylgir kjörgengi og kosningarréttur. Sá sem ekki hefur ríkisborgararétt í tilteknu landi hefur væntanlega ekki þau borgaralegu réttindi að geta kosið og boðið sig fram til kjörs.
    Ég hjó eftir því í máli hv. 3. þm. Reykv. að hann sagði að það væri ekki brot á mannréttindum að setja kröfur um hvernig menn öðlist ríkisborgararétt og það væri það sem menn væru að gera í þessum löndum. Það kann út af fyrir sig vera rétt en það er ekki sama hvort verið er að fjalla um einhvern sem er nýfluttur til lands, nýsestur að, eða einstakling sem er hugsanlega fæddur og alinn upp í viðkomandi landi og hefur alið þar allan sinn aldur. Það er auðvitað tvennt ólíkt. Við höfum komið inn á umræðu um kosningarréttinn og kjörgengið og það snertir ríki eins og Suður-Afríku. Þeir sem ekki hafa þar þennan rétt eru annars flokks borgarar og það eru borgarar sem setja það á oddinn sem mannréttindakröfu að öðlast fullan kosningarrétt og kjörgengi.
    Þetta mál kemur líka inn á hugmyndina um þjóðríkið. Það er mjög athyglisvert einmitt í ljósi þess sem er að gerast í Evrópu og í ljósi þeirrar umræðu sem við höfum farið í gegnum á þinginu um sameininguna og samrunaþróunina í Evrópu vegna þess að þar er í rauninni verið að ganga þvert á hugmyndina um þjóðríki, þ.e. að í hverju ríki sé einungis ein þjóð og ríkið ekki samsett af þeim sem búa á tilteknu svæði.

    Það var minnst hér á þriðja ríkið og að það hefði gerst að þriðja ríkið hefði í krafti þess að Þjóðverjar bjuggu í Póllandi og víðs vegar í kringum Þýskaland gert landakröfu vegna þess að þessi þjóðabrot bjuggu í öðrum löndum. Ástæðan fyrir því að þriðja ríkið gerði þessa landakröfu og ástæðan fyrir að þessi umræða kom yfirleitt upp var hugmyndin um þjóðríki, þ.e. að sameina innan sömu landamæra alla þýskumælandi menn. Hugmyndin er að þeir sem tala eitt tungumál eigi að búa í einu ríki og í krafti þeirrar hugmyndar gat m.a. þriðja ríkið sett fram þessar kröfur sínar. Menn eru auðvitað enn þann dag í dag með þessar kröfur á lofti. Ég hefði haldið að það væri kannski frekar akkur í að reyna að vinna aðeins gegn þessu og tryggja jafnrétti allra þeirra þegna sem búa á tilteknu svæði sem myndar eitt ríki.
    Við höfum líka komið inn á þessa umræðu varðandi Ísrael og við höfum sagt: Ísrael á ekki bara að vera ríki gyðinga. Ísrael á að vera ríki þess fólks sem þar býr. Þar eiga ekki að vera neinir annars flokks borgarar. Þar eiga allir að njóta sömu réttinda.
    Við erum því komin að mjög flókinni umræðu en umræðu sem er að mínu mati mjög spennandi. Hún er mjög flókin og það eru margir þræðir í henni og í rauninni ekki hægt að afgreiða þetta mál á mjög einfaldan máta.
    Þetta mál er líka sérstaklega flókið vegna þess að við vitum að það áttu sér stað ákveðnar þjóðernishreinsanir, getum við sagt, þ.e. Rússar voru fluttir til þessra landa og íbúar þessara landa voru fluttir frá þeim. En að þessar þjóðernishreinsanir hafi átt sér stað á undangengum áratugum réttlætir í sjálfu sér ekki að menn komi þannig fram að fólk sem þangað hefur verið flutt og þarna hefur fæðst í kjölfar þess sé meðhöndlað eins og annars flokks borgarar.
    Hv. 5. þm. Reykn., Árni R. Árnason, minntist á að það væri mjög mikilvægt að viðhalda þjóðtungu þessara ríkja og þjóðmenningu. Það er auðvitað mjög mikilvægt og rétt en við verðum líka að viðurkenna rétt minni hlutans. Við verðum að viðurkenna rétt annarra þjóðtungna líka. Ég reikna með að það sé ekkert sem komi í veg fyrir það að þessi ríki haldi mjög á lofti sinni þjóðmenningu og sinni þjóðtungu í skólakerfinu og víðs vegar, en það er varla hægt að gera þá kröfu til allra þeirra sem þarna búa að þeir láti þá af sinni þjóðtungu sem minnihlutahópur.
    En eins og ég segi er þetta mjög flókið mál. Ég hjó eftir því m.a. í grg. að það er talað um að aðeins eistneskir ríkisborgarar skuli hafa kosningarrétt til þings. Allir útlendingar og þar á meðal Rússar geta sótt um ríkisborgararétt í Eistlandi. Þá vaknar sú spurning: Hverjir eru útlendingar? Hvenær er maður útlendingur í einhverju ríki og hvenær ekki? Ég vildi gjarnan fá skilgreiningu á því hér hverjir nákvæmlega eru útlendingar. Ég þekki ekki þessar reglur nákvæmlega um ríkisborgararétt og hverjir teljast útlendingar í þeim skilningi sem hér er settur fram.
    Þetta er skemmtileg umræða og áhugaverð og við þurfum að skoða þetta mál mjög vandlega. Þetta er ekki einfalt mál. En mér finnst líka tillagan sem hér er flutt orka mjög tvímælis og sérstaklega það orðalag á henni ,,að Eystrasaltsríkjunum verði ekki settir óeðlilegir kostir`` en þessir óeðlilegu kostir eru ekkert nánar skilgreindir. Það er ekki nánar sagt hvað er átt við með ,,óeðlilegum kostum``.