Vegalög

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 10:36:27 (5676)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegur forseti. Það hefur nú þegar orðið nokkur umræða um þetta frv. til vegalaga sem hér liggur fyrir. Eins og fram hefur komið eru þetta 30 ára gömul lög sem nú eru í gildi og oft verið krukkað í þau en nú á að gera stóruppskurð á lögunum. Það hefur vakið athygli að enginn þingmaður stjórnarandstöðunnar hefur fengið að koma nálægt þessari lagasmíð. Það er auðvitað í takt við annað sem þessi hæstv. ríkisstjórn er að gera.
    Ýmsar breytingar eru boðaðar í þessu frv. Það eru fyrst og fremst breytingar á skilgreiningu ýmissa vega, trúlega til einföldunar sýnist mér því nú er talað um þjóðvegi og einkavegi. Undir þjóðvegi eru stofnvegir, tengivegir, safnvegir og landvegir. En undir einkavegi eru vegir sem geta fengið styrk frá ríki og síðan vegir sem eru alfarið á ábyrgð eigenda.
    Það sem vekur mesta athygli í þessu er að það er verið að breyta þjóðvegum í þéttbýli sem hafa hingað til verið styrktir af ríkinu. Það er út af fyrir sig eðlilegt að það séu endurskoðað. Ég tel ekki rétt t.d. að Bústaðavegur í Reykjavík sé reiknaður sem þjóðvegur í þéttbýli og fái til þess styrk frá ríki. Mér
finnst mjög eðlilegt að það sé skoðað. En það kemur greinilega fram í frv. að það hefur lítil eða engin samvinna verið höfð við Samband ísl. sveitarfélaga, alla vega hefur fulltrúi þess við gerð þessara laga ekki fengið sínum málum framgengt og lítið eða ekkert tillit verið tekið til hans enda er hann með sérálit á fylgiskjali 4.
    Það væri gott fyrir þingheim að heyra hvað hæstv. ráðherra er að hugsa í sambandi við þjóðvegi í þéttbýli. Það kemur alls ekki skýrt fram í þessu frv. hver breytingin er og hvernig skiptingin verður vera ef þetta frv. verður samþykkt.
    Það er líka mjög áberandi að ekki á að taka tillit til íbúa sveitarfélaga almennt því ef Vegagerðin ákveður eitthvert vegarstæði og það koma athugasemdir frá íbúum verður sveitarfélagið alfarið að greiða kostnaðinn sem verður í mismun ef tekið er tillit til athugasemdanna. Samgrh. fær enn meira vald en hann hefur nokkru sinni haft og það verður sem sagt lögfest ef þetta frv. verður að lögum.
    Við höfum svolítinn forsmekk af alræðisvaldi samgrh. í sambandi við þau flýtiverkefni sem nú þegar hafa verið ákveðin. Þar hefur enginn fengið að koma nálægt og ekki verið tekið neitt tillit til athugasemda sem komið hafa úr kjördæmunum heldur hefur samgrh. alfarið ráðið því og keyrt áfram á ótrúlegum hraða. Ef gerðar eru athugasemdir við þær framkvæmdir sem hann hefur ákveðið að fara í þá telur hann að það sé vegna þess að það vanti undirbúning við þær framkvæmdir sem áður hafa verið ákveðnar. Það var alveg furðulegt að heyra til hans í umræðunni um vegáætlun þegar hann var að skýra það fyrir þingmönnum af hverju var ekki farið í þau verkefni sem þegar er búið að ákveða að fara í á vegáætlun og farið í önnur á undan. Rökin voru þau að það vantaði hönnun á sama tíma sem hann er að fara í verkefni sem ekki er búið að hanna. Ég tel því að það alræðisvald sem samgrh. fær ef þetta frv. verður að lögum sé ekki til bóta.
    Það er ýmislegt ágætt í frv. þó kannski mætti ganga lengra. T.d. í sambandi við lausagöngu búfjár. Það er örlítið tekið á því máli. Lausaganga búfjár verður bönnuð ef það er girt báðum megin vegar. En það er auðvitað alveg sérfyrirbrigði á Íslandi hvernig lausaganga búfjár er. Maður má alltaf eiga von á sauðfé á miðjum akbrautum og það er náttúrlega ólíðandi og hefur valdið mörgum slysum. ( Gripið fram í: Það er sérstaklega vont fyrir sauðféð.) Ég heyri ekki hvað hv. þm. segir en hann er eitthvað að tala um sauðfé. ( Gripið fram í: Hann hefur ekkert vit á því.) Nei, hann hefur sennilega ekki vit á því en það veldur honum sennilega jafnmiklum óþægindum og hverjum öðrum vegfaranda þegar búfé gengur laust á vegum.
    Í 23. gr. frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Heimilt er að greiða af vegáætlun hluta kostnaðar við ferjur til flutnings á fólki og bifreiðum yfir sund og firði, enda komi ferjan í stað vegasambands . . .  `` o.s.frv. Í ákvæðum til bráðabirgða við frv. segir þó að í allt að þrjú ár sé heimilt að greiða kostnað við ferjur þó þær uppfylli ekki skilyrði um að koma í stað vegasambands. Þannig mundu framlög til Akraborgar og Fagraness falla niður eftir þrjú ár að öðru óbreyttu og það fé nýtast til almennra vegamála þess í stað. Í fjárlögum 1992 fá þessar ferjur samtals 81,8 millj. kr. í framlög úr ríkissjóði, segir hér.
    Það er frá því að segja ef ég tek Akraborgina sérstaklega að árið 1992 fóru með skipinu 230.000 farþegar og rúmlega það. Fjöldi gangandi farþega voru 67.000 og akandi farþega 163.182. Það væri kannski skoðandi hvað hver bíll kostar varðandi slit á vegum og það er spurning mín til hæstv. samgrh. hvort hann hafi ekki staðla um það hvað hver bíll kostar varðandi slit á vegum sökum þess að þarna sparast 163 þús. ferðir bíla um Hvalfjörð sem er alls ekki undirbyggður fyrir þá miklu umferð sem yrði ef þessi bílafjöldi kæmi til viðbótar. Hvalfjörður er alls ekki tilbúinn að taka við þessum mikla fjölda bíla sem þar mundi fara um. Ef við skoðum hvað það mundi kosta að gera þær vegabætur í Hvalfirði sem þyrfti til að taka á móti þessari umferð er ég nú hrædd um að dæmið yrði ansi þungt fyrir Vegagerðina.
    En það sem málið snýst um er að það er skuld í Ríkisábyrgðasjóði upp á 130 millj. kr. sem er skuld vegna kaupanna á Akraborginni. Skipið var keypt árið 1982 og hefur reynst afskaplega vel, því hefur verið haldið mjög vel við og daglegur rekstur hefur borið sig þangað til í fyrra. En skipið hefur aftur á móti ekki haft fyrir afborgunum og vöxtum. Það er spurning hvort það yrði mikill hagnaður fyrir ríkið ef það tæki til sín skipið, sem er eflaust ekki mikil söluvara, og reksturinn stöðvaðist. Það dæmi held ég að sé alls ekki fullreiknað. Ég vil minna á að reksturinn stóð undir sér þangað til lagður var virðisaukaskattur á olíu. Það setti stórt strik í reikninginn fyrir rekstur Akraborgar. ( Samgrh.: Það er ekki virðisaukaskattur á olíu.) Það er virðisaukaskattur á olíu, hæstv. samgrh. Það setti stórt strik í rekstur Akraborgar. Að sjálfsögðu hefur ferðum fækkað frá því þær voru flestar en samt sem áður fara enn þá yfir 230.000 farþegar með skipinu árlega.
    Það er mjög löng hefð fyrir flóasiglingum milli Akraness og Reykjavíkur. Það er 60 ára hefð. Þingið hefur gjarnan borið mikla virðingu fyrir hefðum --- alla vega var þegar þingveislan var haldin talin mjög löng hefð fyrir því að þingmenn greiddu ekki fyrir sig sjálfir og þess vegna var ekki hægt að breyta þeirri hefð. Það er 60 ára hefð fyrir siglingum þarna á milli og auðvitað hefur þessi hefð skapað vissar forsendur sem erfitt er að grípa inn í í dag. Sérstaklega hafa menn í síauknum mæli sótt vinnu til Reykjavíkur frá Akranesi og einnig hefur atvinnurekstur treyst á að eiga von á föstum samgöngum þarna á milli. Þetta er eins og slagæð á milli Reykajvíkur og Akraness. Akraborg er eins og slagæð. Ég bið hæstv. samgrh. áður en hann klárar þennan stóruppskurð að undirbyggja þessar æðar vel áður en hann sker alfarið á þær. Mér fannst hann segja, ekki samt skýrum orðum, í umræðunni um daginn um vegamál að hann hygðist ekki leggja niður siglingar Akraborgar fyrr en Hvalfjarðargöng væru komin. Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort það er ekki réttur skilningur hjá mér að það sem stendur í þessu frv. sé eitthvað sem hann ætli

ekki að framfylgja, hvort hann ætli að bíða eftir göngum undir Hvalfjörð áður en hann leggur niður þessa ferjuflutninga.
    Ef skoðað er hvort flóaskip almennt eigi rétt á sér þá hljóta menn að skoða hversu margir nýta sér þetta farartæki. Ég er margbúin að endurtaka það í þessari umræðu hversu margir nýta sér Akraborgina. Mér finnst það alls ekki liggja ljóst fyrir hvað það mundi spara ríkinu að stöðva þessa flutninga. Það verður að koma fram einhver betri arðsemiskönnun á því en hér liggur fyrir til að það sé trúverðugt og arðsamt fyrir ríkið. Það er mjög erfitt á sama tíma sem á þriðja hundrað manns eru atvinnulausir á Akranesi að fá slík skilaboð frá ríkisstjórninni um þá óvissu sem það hefur í för með sér að það eigi e.t.v. að klippa í sundur þessa slagæð. Ég endurtek að ég vona að ráðherra skoði það mjög vandlega áður en hann leggur út í þá aðgerð.