Vegalög

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 10:49:42 (5677)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vegna ummæla hv. þm. vil ég segja það fyrst að það er laukrétt að stjórnarþingmenn komu að endurskoðun laga um vegamál. Það hefur verið hafður margvíslegur háttur á í þessum efnum. T.d. var skipuð nefnd allra flokka til þess að endurskoða hið sama fyrir síðustu kosningar en þegar til stykkisins kom þá fóru þingmenn ríkisstjórnarinnar inn í sína þingflokka og kváðu þar upp úr um það hver skyldi verða niðurstaða nefndarinnar og var auðvitað í lokasprettinum ekki haft neitt samstarf a.m.k. við Sjálfstfl. Þannig að það má nú gefa þessu ýmis nöfn.
    Auðvitað geta menn látið sem svo að þeir hafi samstarf við stjórnarandstöðu og er auðvelt að gera það áður en til ákvörðunar kemur en kjarni málsins er sá hvernig staðið er að lokatillögum og hvort þá er tekið tillit til heildarsjónamiða.
    Um Akraborgina vil ég segja að það er rétt sem hv. þm. sagði að á Akraborginni hvíla nú 132 millj. kr. sem er auðvitað kjarni vandamálanna. Það er búið að velta þessu á undan sér allan þennan tíma, þetta er fortíðarvandi, og það er út af þessum fortíðarvanda sem íbúar Akraness og Vesturlands eru áhyggjufullir vegna framhalds rekstrar Akraborgarinnar. Það er auðvitað ekkert nýtt því það kom nú í ljós að heildarskuldir á ferjum og flóabátum eru 2,3 milljarðar sem er í algjöru og hróplegu ósamræmi við þær fjárveitingar sem veitt hefur verið til þessa á fjárlögum undangenginna ára.
    Það er rétt að það hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um framhaldsrekstur Akraborgarinnar. Í fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir að til beins rekstrar þurfi hún ekki á styrkjum að halda úr ríkissjóði en á hinn bóginn er í athugun hvort ráðlegt þyki að ráðast í göng undir Hvalfjörð.