Vegalög

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 10:56:04 (5680)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því sem ég hef reyndar gert oft áður að kvarta undan því með hvaða hætti stjórnarmeirihlutinn stendur að málum. Hér hefur verið unnið eins og áður þannig að það hefur verið skipuð nefnd sem aðilar úr þingflokkum stjórnarandstöðunnar eiga enga aðild að og það mun auðvitað kosta það að málið tekur miklu lengri tíma. Það eru engin rök í málinu sem hæstv. samgrh. færði fram áðan að það hafi alltaf á lokasprettinum hvort sem er verið niðurstaða stjórnarflokkanna á hverjum tíma sem réði úrslitum í álitamálum. Það eru engin rök í málinu einfaldlega vegna þess að áður en kom að þeim lokaákvörðunum höfðu menn þó hlustað á sjónarmið hvers annars, vænti ég, í þeim nefndum og undirbúningshópum sem hafa unnið að málum. Þá hafa menn getað áttað sig á því hvað menn gátu náð samkomulagi um og hvað ekki og væntanlega þá færri álitamálin sem meiri hlutinn hefur orðið að skera úr að lokum. Þannig þarf auðvitað að vinna að málum. Ég er ekki einn af þeim sem heldur því fram að meiri hlutinn eigi ekki að fá að ráða úrslitum. En ég held því fram að hann eigi að starfa eðlilega að málum og það er auðvitað gert með því að kynna sér álit og afstöðu allra sem eiga að koma að málinu að lokum.
    Ég ætla ekki að hafa langt mál um þessi vegalög nú. Ég tel eins og ég var að koma að áðan að samgn. þurfi töluverðan tíma til að skoða málið og töluvert lengri tíma en hún hefði annars þurft. Því ef það hefðu verið fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum sem hefðu fengið að koma að málinu áður þá hefði þurft að athuga færri atriði.
    Það eru á ferðinni hér verulega miklar breytingar sem hlýtur að verða mikil vinna hjá nefndinni að fara í gegnum. Ég ætla ekki að fara að lýsa miklum efasemdum hér um margar greinar. Ég get þó bent á sem dæmi að ég hef efasemdir um að það sé rétt að flokka þessa vegi með þeim hætti sem hér er gert. Og t.d. að þessi flokkun í einkavegi sé eðlileg. Ég held að fyrir það fyrsta sé orðið rangt valið. Ég tel að orðið einkavegur hafi ákveðna merkingu í augum landsmanna og það sé óeðlilegt að yfirfæra þá merkingu á veg sem opinberir aðilar eiga eins og hér er t.d. lagt til á einum stað, þ.e. að vegir sem sveitarstjórnir eða bæjarfélög bera ábyrgð á séu kallaðir einkavegir. Ég held að þessi skilgreining geti út af fyrir sig verið til athugunar og gengið en menn verði alla vega að velta því fyrir sér að finna annað orð yfir þá vegi sem eru styrkhæfir af því opinbera og eru kallaðir einkavegir í þessari tillögu. En þar eru á ferðinni ýmsar tegundir af vegum. Þar eru t.d. þjóðvegir í þéttbýli sem eru kallaðir hér einkavegir. Það þætti nú ýmsum skrýtið að hafa það orð yfir vegi í gegnum kauptún og bæi. Þetta er eitt af dæmunum.
    Hæstv. samgrh. gerði grein fyrir afstöðu sinni til ýmissa hluta. M.a. fjallaði hann um áætlanirnar sem slíkar. Hann talaði um að það þyrfti kannski að hafa þann hátt á að fresta áætlunum ef kosningar væru í nánd eða gera breytingar á þeim ef kosningar vofðu yfir. Ég verð nú að segja alveg eins og er að mér finnast þetta fáránlegar hugmyndir. Ég tel að þingið verði auðvitað að standa við sínar samþykktir og það verði síðan að koma í ljós hvort þeir sem kosnir eru á þing í kjölfarið eru því sammála sem gert hafði verið fyrr. En að menn hætti að taka ákvarðanir hér þótt kosningar vofi yfir. Það er nú æðierfitt að gera sér grein fyrir því t.d. hvenær kosningar eru fram undan. Ættum við t.d. að fara að hafa varann á okkur núna? Það hefur komið fyrir oftar en einu sinni að kosningar hafa farið fram fyrr en menn ætluðu. Kannski ættu menn þá að hafa vara á sér núna gagnvart þessari lagasetningu sem hér er vegna þess að einhverjir teldu að það væri líklegt að kosningar færu að nálgast. Ég tel sem sagt að þetta sé út í hött og menn ættu að halda sig við það að koma að þessum málum sem hér er auðvitað gert og reyna að gera áætlanir dálítið langt fram í tímann og endurskoða þær með eðlilegum hætti. Þannig held ég að væri gott að standa að málum.
    Ég nefndi álitamálin áðan sem eru mörg í þessari tillögu. M.a. kemur það fram í bókun sem fylgir tillögu frá einum nefndarmanni, Þórði Skúlasyni, sem er fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga í nefndinni að þarna er auðvitað verið að flytja á milli í skilgreiningum veganna vegi sem kostar auðvitað töluvert að gera og með því yrði fluttur verulegur kostnaður yfir á sveitarfélögin ef þjóðvegir í þéttbýli yrðu gerðir miklu styttri heldur en þeir eru samkvæmt núverandi skilgreiningu. Það er mat Þórðar að þarna sé á ferðinni um það bil þriðjungur kostnaðar sem mundi færast í stofnkostnaði yfir á sveitarfélögin. Það er auðvitað ekki hægt að setja fram þannig breytingar öðruvísi en um leið sé gerð grein fyrir því með hvaða hætti á að bæta sveitarfélögunum það tap sem þau yrðu þá fyrir við þessa breytingu. Þórður gerir líka tillögu um að það verði skipuð sérstök samstarfsnefnd Vegagerðarinnar og Sambands ísl. sveitarfélaga, sem ég tel fulla ástæðu til að gefa gaum að og mun auðvitað koma til umræðu í nefndinni hvaða breytingar verði teknar inn í þetta því ég geri ráð fyrir að þær verði einhverjar vegna þess hvernig unnið hefur verið að málinu.
    Það hlýtur líka að verða ævinlega rætt mikið um starfsemi Vegagerðarinnar í tengslum við endurskoðun af þessu tagi. Það eru líka skiptar skoðanir um ýmsa þætti í þessari starfsemi Vegagerðarinnar og við höfum orðið vör við að sumt af því sem heyrir til nýjunga í vegagerð hefur valdið deilum. Þar má t.d. nefna sérdeildirnar sem Vegagerðin er með og er farin að láta bjóða í verkefni. Það er vissulega hugmynd sem er skoðunarverð og ég held að út af fyrir sig megi færa ýmis rök fyrir því að Vegagerðin eigi að hafa möguleika á að veita verktökum aðhald. En það er líka hægt að færa ýmis rök á móti þessu og

ég tel að það þurfi að takast á um þessa hluti núna. Vegagerðinni hafa líka verið færð ný verkefni og þar er kannski það nýjasta að hún eigi að fara að sjá um útgerð á ferjum og flóabátum. Ég held að það þurfi að ræða alvarlega hvaða stefna á þar að vera. Ég hef heyrt að yfirmenn Vegagerðarinnar séu búnir að koma sér upp ákveðinni stefnu í því hvernig eigi að standa að þessum rekstri og í aðalatriðum sé sú stefna þannig að þeir telji að Vegagerðin eða ríkið eigi þá að eiga ferjurnar en reksturinn verði síðan boðinn út. Kannski ekki endilega skilyrði að Vegagerðin eigi ferjurnar heldur verði aðalatriði málsins það að þessi starfsemi verði boðin út. En þessi stefna hefur hvergi verið staðfest. Hæstv. samgrh. hefur þó sagt nokkurn veginn beinum orðum að það sé hans skoðun að það eigi að fara þessa leið. En það hefur hvergi komið fram nein ákvörðun frá hendi ríkisstjórnarinnar eða hér í þinginu sem staðfestir þessa stefnu. Það er mikil vöntun á því og ég tel að í tengslum við þessa umræðu hér um vegalögin hljóti menn að verða að gera upp svona hluti, þ.e. starfsemi Vegagerðarinnar yfirleitt og að það geti varla orðið til einhverjar nýjar stefnur sem Vegagerðin ætlar að fylgja öðruvísi en það séu teknar einhverjar ákvarðanir hér á Alþingi um það. Ég get ekki sætt mig við að stefnan verði til einhvern veginn utan við umræðu þingsins. Það er nú einu sinni þannig að Alþingi ber alla ábyrgð á fjárveitingum sem fara til vegamála. Og þá er ekkert af þessu undanskilið, hvorki ferjur né flóabátar eða neinir vegir.
    Það hefur komið töluvert til umræðu í ræðum manna sem hafa talað hér á undan mér rekstur þeirra ferja sem nú eru í rekstri, m.a. Akraborgarinnar. Það kemur fram í 23. gr. þessa lagafrv., að það er stefna ríkisstjórnarinnar --- hlýtur að vera þó ekki hafi verið gerð grein fyrir henni sem slíkri --- að á leiðum þar sem vegur er fær yfir vetrartímann verði ekki reknar ferjur sem ríkið taki þátt í rekstri á. Og hæstv. samgrh. hefur jú talað hér eins og þessi lagagrein sé ekki alveg marktæk. Hann hefur í ræðum sínum verið að tala um að ef ekkert verði af göngum undir Hvalfjörð og ef eitthvað, þá þurfi menn að byggja upp veginn fyrir Hvalfjörð. Samt leggur hann fram frv. sjálfur þar sem stendur skýrum stöfum að það eigi að leggja niður þennan rekstur, einmitt þessa skips sem við erum hér að tala um. Mér finnst að það sé ekki hægt annars vegar að leggja fram frv. þar sem kveðið er mjög skýrt á um að það eigi að leggja niður þennan rekstur og þá burt séð frá því hvort einhver göng verði lögð undir Hvalfjörð eða ekki og koma svo hér í ræðustól og tala um að það séu einhver ef þarna á ferðinni. Hvernig ber að skilja þetta? Ég vil fá betri útskýringar á afstöðu ráðherrans til málsins. Ég tel að hann verði að svara því skýrt: Er það meiningin að leggja niður rekstur þessa skips að óbreyttum aðstæðum? Menn eiga ekkert að vera að velta sér upp úr hugmyndum eins og göngum. Auðvitað taka menn afstöðu til þess um leið og það liggur fyrir að farið verði að grafa einhver göng undir Hvalfjörð. Þá geri ég ráð fyrir að menn taki þá ákvörðun að leggja niður þessar skipaferðir þegar því verki væri lokið og hægt væri orðið að aka um göngin. En það verður bara að koma í ljós. Lagafrv. hlýtur að miðast við þær aðstæður sem við erum í núna og menn taka þá ákvarðanir þess vegna. Ég tel að þetta lagafrv. sé ekki nægilega vel undirbúið að því leyti til að ef það á að vera hluti af þessari lagasetningu að ákveða það að leggja niður þessa þjónustu innan þriggja ára sem þarna hefur verið rekin í yfir 60 ár, þá finnst mér að það sé lágmark að lagðar séu fram góðar rannsóknir á því hvert þjóðhagslegt gildi þessarar þjónustu er og í þeirri skoðun verði auðvitað allir hlutir. Þar komi m.a. fjárfestingarnar í veginum fyrir Hvalfjörðinn. Þar komi auðvitað slit á bílum landsmanna. Þar komi orkukostnaðurinn og þar komi minni mengun sem auðvitað er að því að sigla hér á milli en að keyra alla þá bíla fyrir Hvalfjörð sem annars mundu gera það.
    Ég vil í sambandi við þessa umræðu um Akraborgina segja að það er eiginlega alveg ótrúlegt að ríkið, sem á 65% í fyrirtækinu, skuli hafa staðið með þeim hætti að rekstrinum, verandi með meiri hluta stjórnarmanna í fyrirtækinu allan tímann, að það hafi verið safnað upp óreiðuskuldum og þær látnar liggja á dráttarvöxtum. Stór hluti af þeim skuldum sem hvíla á skipinu eru dráttarvaxtareikningar frá ríkinu sjálfu, þ.e. frá Ríkisábyrgðasjóði. Og það er m.a. röksemdin fyrir því að þessi rekstur sé óhagkvæmur að hann dragnast með óreiðuskuldir sem svona eru til komnar. Ég tel að þarna þurfi að taka á málinu á einhvern skynsamlegri hátt og fara yfir það á eðlilegan máta og það verði þá borið vel saman ef allir þessir bílar eru keyrðir fyrir Hvalfjörð sem hlýtur að koma í staðinn fyrir rekstur Akraborgar.
    En ég ætla ekki að hafa hér langt mál eins og ég sagði. Ég tel að samgn. þurfi góðan tíma til að skoða þetta frv. Ég á sæti í henni þannig að ég fæ tækifæri til að fjalla þar um einstakar greinar sem ég geri ekki hér og hef ekki farið nægilega vel ofan í frv. til þess heldur. Þannig að ég mun síðar gera betri grein fyrir mínum skoðunum á því sem fram kemur í þessu frv.