Vegalög

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 11:12:57 (5681)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Eins og fram kom í ræðu minni og fram kemur í frv. þá er það samið af innanhússnefnd í Vegagerðinni. Sá sem hafði umsjón og stjórnaði því verki var fyrrv. vegamálastjóri, Snæbjörn Jónasson, þannig að hér er um faglegt frv. að ræða eins og ég hélt að hefði komið skýrt fram. Mér kemur það þess vegna mjög mikið á óvart ef hv. þm. ætlar að hafa það að yfirvarpi til að tefja fyrir málinu í nefnd eins og hann sagði í upphafsorðum sínum hér áðan þegar hann sagði að málið tæki lengri tíma af því að stjórnarandstaðan fékk ekki að koma að því. Þetta er yfirlýsing hv. þm. um að hann ætli að tefja fyrir málinu í nefnd þó svo hann eigi að vita það sem samgöngunefndarmaður að hér er um faglegt frv. að ræða sem unnið var innan Vegagerðarinnar. Þetta lýsir að sumu leyti sumum þeim sjónarmiðum og

vangaveltum sem hv. þm. var með hér áðan og í rauninni má segja að sé grunntónninn í málflutningi þingmanna um samgöngumál eins og fram kom á síðasta fundi þingsins.
    Ég vil í öðru lagi frábiðja mér þess að ég hafi sem samgrh. reynt að stöðva Akraborgina. En úr því að farið var að tala um óreiðuna áður en ég kom í embætti samgrh. og það var gert af þingmanni Alþb. á Akranesi vil ég rifja það upp að í fjárlögum fyrir árið 1991 voru ætlaðar 25 millj. kr. til Akraborgarinnar. Þegar kom fram á haustið lá við að Akraborgin stöðvaðist og það varð að veita ríkisstyrki að fjárhæð 50 millj. kr. á því ári til að reyna að halda rekstrinum gangandi. Þannig var nú viðskilnaðurinn. Þetta er eitt með öðru skýringin á því hversu illa er komið fyrir rekstri flóabáta, hversu miklar skuldirnar eru. Og þetta er líka skýringin á því hvers vegna þingmenn Vesturlands eru svo kvíðnir yfir áframhaldandi rekstri Akraborgarinnar.