Vegalög

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 11:22:04 (5686)


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að þetta frv. er nokkur framför frá því frv. sem flutt var í gær um járnbrautir og skipaskurði. En þá er líka eiginlega allt sagt sem skiptir máli því til málsbóta. Hér hefur verið farið inn á þá braut sem er einhver sú forkostulegasta að tryggja það eitt að Vegagerðin hafi völd en ekki að fólkið komist eftir vegunum. Virðist það sérstæð lagasetning að leggja jafnmikið kapp á það t.d. með forræði yfir vegi að Vegagerðin sé orðin einkaeigandi að öllum snjó á veginum. Og hann megi alls ekki fjarlægja nema með leyfi Vegagerðarinnar. Það blasir við ef hæstv. samgrh. verður fastur í skafli þá er hann lögbrjótur ef hann fer að moka þennan snjó í heimildarleysi í stað þess að sækja um leyfi til vegamálastjóra og gildir þá einu hvort það er að nóttu eða degi og þætti mér gaman að sjá hvort hæstv. samgrh. færi eftir þeim lögum ef þetta yrði gert að lögum. Menn halda kannski að það sé verið að ,,djóka`` þegar svona er talað en það er svo merkilegt að verkstjórar Vegagerðarinnar sumir hverjir hafa neitað sveitarfélögum um heimild til að opna vegi þegar þeir hafa haldið þeim lokuðum samkvæmt reglum um snjómokstur og sagst meira að segja hafa rétt til að skipa þeim að skila snjónum aftur á sinn stað ef þeir gerðust nú svo djarfir að fjarlægja hann. Þetta hefur aftur á móti hvergi verið skipulega sett upp í frv., eða lögum, fyrr en nú. Nú er þetta sett snyrtilega niður. Og svo skulum við skoða muninn á þeim rétti sem Vegagerðin ætlar sjálfri sér að búa við og það sem hún ætlar öðrum að búa við. Við skulum örlítið kíkja á þetta atriði.
    Ef um einkaveg er að ræða þá kemur það hér fram í 10. gr. að lögreglustjóri getur skyldað eiganda til að gera úrbætur og stöðvað vegagerð eða bannað umferð um veginn þar til bót hefur verið á ráðin ef hann telur veghaldi svo áfátt að hætta geti stafað af. En hvað ef stofnbrautin sjálf er nú lokuð? Hver hefur þá sjálfdæmi um það? Þýðir að benda lögreglunni á að það sé ófært eftir stofnbrautinni til Ísafjarðar? Nei, það skiptir lögreglustjórann engu máli. Þá er ekki hægt að skipa lögreglustjóranum að sjá til að Vegagerðin komi veginum í lag. Þá hefur Vegagerðin sjálfdæmi um hvenær hún sér til þess að vegurinn verði opnaður. Hvers lags lagasetning er þetta? Hvers lags hugmyndir liggja á bak við svona rugl í uppsetningu?
    Það er merkilegur hlutur þegar farið er yfir þetta að það er eins og það hafi gleymst gjörsamlega að það er nýbúið að gera samkomulag við sveitarfélögin um að ríkið taki við sýsluvegunum og í staðinn áttu sveitarfélögin að taka við öðrum verkefnum. Ríkið byrjaði á að svíkja mjög hvað það ætti að leggja til af fjármunum til sýsluveganna. Núna aftur á móti fer það svoleiðis á handahlaupum undan þessari skyldu sinni. En hvað með verkefnin sem sveitarfélögin tóku við á móti, hvað með þau? Hvar er klásúlan um að það eigi að skila þeim til baka? Hvar er sú klásúla? Hæstv. samgrh. hefur því miður látið ginna sig heldur illa þegar hann ákvað að tala fyrir þessu frv. án þess að hafa lesið það áður en hann talaði fyrir því. Því það fær ekki staðist að hæstv. ráðherra sem er stuðningsmaður einkaframtaks í þessu landi hafi látið sér detta það í hug að standa þannig að málum eins og hlutirnir eru hér settir upp. En sumt er þó svo skemmtilega skoplegt að maður skilur ekki einu sinni hvernig þeir hafa hugsað sér að það yrði framkvæmt. --- Og nú bið ég hæstv. ráðherra að halda sig í salnum og fylgjast með. --- Hér stendur í 14. gr.:
    ,,Þegar helmingur þeirra sem afnotarétt hafa af veginum er sammála um hvernig mæta skuli sameiginlegum útgjöldum eru þær ákvarðanir bindandi fyrir hina . . .  ``
    Gott og vel. Annar helmingurinn gerir samþykkt um að svona skuli mæta útgjöldunum, með nefskatti, hinn helmingurinn gerir aðra samþykkt, hún er alveg jafnbindandi en bara ekki fyrir þann helming sem gerði hana heldur hinn helminginn, ef það á að fara eftir textanum. Það eru tvær löglegar ákvarðanir teknar á sama fundinum af sitt hvorum helmingnum sem völdin hafa á þessum fundi. Og auðvitað á að framkvæma báðar og báðar eru bindandi. Þetta eru nátturlega hugmyndir um lagasetningu sem eru svoleiðis út í hött að maður hefur aldrei séð jafnskemmtileg tilþrif í vitleysu eins og hér er verið að leggja til. ( Samgrh.: Hvernig væri að þingmaðurinn útskýrði mál sitt betur?) Með leyfi hæstv. forseta, er guðvelkomið að taka að sér að lesa hér upp 14. gr. og fara hægt yfir hana.
    ,,Nú verða þeir sem einkaveg nota ekki á eitt sáttir um hverjir hafi rétt til nota af veginum eða um greiðslu viðhaldskostnaðar og getur þá hver þeirra krafist mats samkvæmt reglum 46. gr.

    Þegar helmingur þeirra sem afnotarétt hafa af veginum er sammála um hvernig mæta skuli sameiginlegum útgjöldum eru þær ákvarðanir bindandi fyrir hina, þar á meðal að kostnaður skuli að einhverju eða öllu leyti greiðast af umferðargjaldi.``
    Reglan hefur verið sú, hæstv. ráðherra, frá því að Alþingi var stofnsett á sínum tíma að það er meiri hlutinn sem ræður. Meiri hlutinn hefur samkvæmt lýðræðislegum leikreglum rétt til að hafa rangt fyrir sér var það sem hæstv. fyrrv. forsrh. Bjarni Benediktsson boðaði á sínum tíma sem grundvallaratriði fyrir lýðræðinu. Meiri hlutinn hefur rétt til að hafa rangt fyrir sér. Núna er aftur á móti niðurstaðan sú að helmingurinn skal hafa rétt til að ráða. Gallinn er bara sá að það eru tveir helmingar. Ef maður skiptir 100 í tvennt þá koma tveir helmingar, 50 atkvæði í hvorum í þessu tilfelli, og báðir helmingarnir skulu hafa réttinn til að hafa rétt fyrir sér. Þetta er svo furðuleg hugsun að maður skilur ekki hvernig stendur á því að menn setja svonalagað inn í frumvarpstexta.
    Svo kemur hér 15. gr. Þar hefur aftur á móti gerst það fádæma undur að aftur átta menn sig á því að það er reglan í fundarsköpum að það sé meiri hlutinn sem eigi að hafa réttinn en ekki helmingurinn. Ég trúi því hreint ekki að hæstv. ráðherra hafi lesið þetta án þess að gera sér grein fyrir hvað þetta var vitlaust.
    En ég ætla að fara hér yfir 10. gr., með leyfi hæstv. forseta.
    ,,Eigendur einkavega hafa veghald þeirra. Á einkavegum sem opnir eru fyrir almenna umferð getur viðkomandi lögreglustjóri skyldað eiganda að gera úrbætur og stöðvað vegagerð eða bannað umferð um veginn þar til bót hefur verið á ráðin ef hann telur veghaldi svo áfátt að hætta geti stafað af.``
    Þarna er valdið skýrt. Á einkavegaeigendurna skal senda lögregluna miskunnarlaust ef þeir ekki standa sig. Ekkert hik. Ætli sérsveitin verði ekki kölluð á vettvang til að sjá til þess að þetta verði í lagi? En hvað ef stofnbrautirnar eru ekki í lagi, hæstv. ráðherra? Hvað þá? Ég hef komið að stofnbrautum sundurgröfnum á Vestfjörðum? Hver ber þá ábyrgðina? Það er hvergi minnst á skyldur veghaldarans, það er hvergi minnst á þær. Ekki eitt einasta orð um að það megi þá senda dómsmrh. á Vegagerðina ef þetta er ekki í lagi. Þetta er nefnilega sett upp á þann furðulega hátt að ríkið ætlar sér allt annan rétt en þegnunum.
    Ríkið ætlar ekki að búa við það, í þessu tilfelli Vegagerðin, að það sé hægt að skipa neinum sem hún hefur yfir að ráða að lúta lögum frá dómsvaldinu í þeim efnum að hér verði að gera úrbætur. Þeir hafa gengið svo grimmt fram í sumum tilfellum að þeir hafa breytt legu vega þannig að fjöldi manns hefur farið út af á viðkomandi stað, meira að segja vegaeftirlitið hefur farið þar út af, lögreglueftirlitið. Það var gert við brú í Hrútafirði á sínum tíma.
    Ég hygg að hæstv. ráðherra hafi heldur ekki áttað sig á því hvaða meðferð eignarrétturinn fær í kafla á bls. 6 í 32. gr. Ég ætla að lesa þessa grein fyrir hæstv. ráðherra:
    ,,Nú er lagður vegur gegnum land manns þar sem skipulag er ekki fyrir hendi og á hann þá rétt á að fá óhindraðan aðgang að vegi, a.m.k. á einum stað frá landareign sinni. Landeigandi skal birta Vegagerðinni kröfu sína í þessu efni, áður en vegurinn er fullgerður á þeim stað sem hann vill hafa aðgang að og skal aðgangur gerður þar eða svo nálægt sem kostur er. Telst kostnaður við það verk með öðrum vegagerðarkostnaði.
    Nú birtir landeigandi Vegagerðinni eigi kröfu sína um aðgang að veginum í tæka tíð og skal hann þá gera aðganginn á sinn kostnað.``
    Hvar er það land sem ekki er skipulagt á Íslandi? Samkvæmt skipulagslögum er allt land skipulagsskylt. Það er nú það fyrsta. En hér virðist eiga að veita Vegagerðinni rétt til að leggja vegi án þess að gengið sé frá skipulaginu fyrst. Og það merkilega er að þeim finnst þó sanngjarnt að setja það í lög að landeigandinn eigi rétt á því að komast af þessum vegi yfir á sitt land. En engu að síður, ef vegurinn liggur nú í gegnum mitt land hans, á hann kost á einum afleggjara upp á veginn. Það er honum tryggt með lögum. Hvernig á hann þá að komast yfir á hinn helminginn? Það skal hann þá gera á eigin kostnað. Og ef þetta væri nú gegnum 10 km langa spildu gæti farið svo að það þyrfti að gera nokkra slóða upp á þennan veg. Ég er alveg gáttaður á því hvað það er sem mönnum dettur í hug að setja í lög.
    Svo er hér dálítið merkilegt í 33. gr.:
    ,,Byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki, föst eða laus, má ekki staðsetja nema leyfi Vegagerðarinnar komi til`` --- ég hef nú aldrei heyrt talað um laus mannvirki, en það er sama --- ,,nær vegi en 30 metra frá miðlínu stofnvega og 15 metra frá miðlínu annarra þjóðvega.
    Verði ágreiningur um hvar miðlína vegar muni verða sker Vegagerðin úr.
    Loftlínur má ekki strengja yfir veg nema lægsti hluti línu sé a.m.k. 5 metra frá yfirborði vegar.
    Ekki er heimilt að gera brýr yfir þjóðvegi nema að fengnu leyfi Vegagerðarinnar sem ákveður hvert lágmarksrými skuli vera undir þeim.
    Ekki er heimilt að hengja á loftlínur eða brýr merki eða auglýsingar sem ekki eru leyfð annars staðar á vegsvæðinu.``
    Hérna er það fyrst og fremst þessir 30 metrar, annars vegar 30 frá miðlínu stofnvega og 15 frá miðlínu annarra þjóðvega. Þetta land skal allt á forræði Vegagerðarinnar og nú ætla ég að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað eru þetta margir ferkílómetrar? Ég bið hann nú að skrifa þetta niður, hæstv. ráðherra. Hvað eru þetta margir ferkílómetrar sem hér er um að ræða? Og hverjir eru eigendur þessa lands í dag? Er það

Vegagerðin? Það hlýtur nefnilega að vera mikið umhugsunarefni þegar svona frv. kemur fram hvort það sé ætlunin að Vegagerðin eignist bara landið út frá þjóðvegunum eins og henni dettur í hug, verði veghaldari jafnt yfir veginum, snjónum sem grasinu á þessu svæði.
    Ég verð að segja eins og er að hæstv. ráðherra hefur trúlega ekki vitað heldur hvað hann var að gera varðandi 39. gr. og er rétt að lesa hana hér upp:
    ,,Skylt er eiganda girðinga að halda þeim við svo að aldrei geti þær hindrað eða bagað umferð um veginn. Þyki þessa ekki gætt er Vegagerðinni heimilt að framkvæma viðgerð á kostnað þess sem að réttu ber að halda girðingunni við.
    Vegagerðinni er heimilt að flytja girðingar og fjarlægja tré og annan gróður ef nauðsyn ber til af öryggisástæðum eða til framkvæmdar viðhaldi, svo sem snjómokstri.``
    Það væri nú fróðlegt að fá að vita hversu mikið af skóglendi er ætlað að fjarlægja, en vissulega getur þetta átt rétt á sér í sumum tilfellum. En hitt er þó ekki síður athyglisvert að ef Vegagerðin er nú orðin eigandi að veginum og landinu í kring, þá eru í gildi þau lög í landinu að eigendur verða að girða á merkjum ef annar eigandi krefst þess. Og ef landeigandinn tilkynnir nú Vegagerðinni að hann vilji girða á merkjum milli síns lands og Vegagerðarinnar sem hún er orðin eigandi að samkvæmt þessu, þá er eins árs fyrirvari gagnvart almennum lögum að fara í verkið, eins árs fyrirvari. Svo einfalt er það. Þannig að nú þurfa bændur bara að tilkynna Vegagerðinni að þeir vilji girða á merkjum og það er einfalt mál. Það verður að fara í þá girðingu á næsta ári.
    Og hvernig skyldi nú vera með viðhald á girðingu sem er sameign tveggja, þ.e. Vegagerðarinnar og landeiganda? Auðvitað borgast viðhaldið að hálfu, hæstv. ráðherra. Það er grundvallaratriði í samskiptum aðila sem eiga sameign að jöfnu.
    Ég hygg nefnilega að það hafi gleymst þegar menn sömdu þetta frv. að það er nú svo að það er til þó nokkurt safn af lögum í landinu sem fjalla um hina ólíkustu hluti og það verður að taka tillit til þeirra. Þetta er alveg eins og með vegakerfið, það þarf að tengja það saman. En verði þetta frv. að lögum, þá hygg ég nú að viðleitni manna til að útbúa hringvegi muni stórkostlega aukast því að ef vegurinn er í hring, þá gilda allt aðrar reglur og allt aðrir möguleikar í túlkun hver á að borga kostnað heldur en ef um er að ræða veg sem endar í fjalladal, liggur fram dalinn öðrum megin, ef hann lægi nú fram dalinn hinum megin og aftur til mannabyggða, þá væri ástandið miklu betra varðandi allan kostnað, ef fara á eftir þeirri uppsetningu sem hér er lögð til. Satt best að segja held ég nú að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því að Vegagerðin þarf að lifa í sátt við sitt umhverfi, bæði sveitarfélög og landeigendur, og það er náttúrlega algerlega út í hött ef sveitarstjórnir mega ekki láta moka veg þegar Vegagerðin neitar að moka. Það er gersamlega út í hött. Það minnir mest á hvíta snjóinn í Rússlandi á sínum tíma þegar einn valdsmaður þar taldi nú skynsamlegt að sannfæra bónda sem alltaf hafði getað staðið í skilum um það að hvítasti snjórinn væri á hans landareign og þeir mundu vafalaust heimta að hann yrði allur fluttur til Moskvu ef þetta fréttist út og fékk hann til þess að greiða sér vissa þóknun til að þegja yfir þessu. Ég trúi því ekki að Vegagerðinni sé þetta svo mikið kappsmál að mega eiga snjóinn að það þurfi að ganga frá þessu á þann hátt sem hér er lagt til gagnvart veghaldi.
    Ég vona að það takist með vinnu í nefnd að sníða ýmsa agnúa af þessu frv. og ég vona líka að það verði meira sáttahljóð í mönnum því að þetta sem hér er verið að tala um er ekkert einkamál stjórnarandstöðunnar. Það er ekkert einkamál stjórnarandstöðunnar hvort þessi eða hin leiðin er opin og það er ekkert einkamál stjórnarandstöðunnar hvort hætt verður ákveðnum siglingum með ferjum. Hins vegar get ég vissulega tekið undir það að það þarf að gæta hagsýni í þeim efnum og kannski hef ég meiri samúð með hæstv. ráðherra varðandi ferjusiglingar en á mörgum öðrum sviðum, því að auðvitað þarf íslenska þjóðin að reyna að standa að málum á þann hátt að útgjöld hennar séu viðráðanleg. En menn hafa nú staðið að ferjusiglingum vegna þess að vegagerð hefur sums staðar verið það áfátt. Hún hefur hreinlega ekki verið í stakk búin til þess að takast á við það verkefni sem henni er ætlað.
    Ég er sannfærður um það að, ef við gerum stórátak í vegagerð á ýmsum svæðum, getum við dregið úr kostnaði við ferjusiglingar. En það verður þá að gera þessi stóru átök. Og það er ekki leið til sparnaðar að halda ferjunum kyrrum vegna verkfalla.
    Ég hef tekið eftir því að hæstv. ráðherra telur sér það mjög til gildis að hann hafi ,,tendensa`` til þess að stjórna á svipaðan hátt og alnafni hans hér í þinginu, hann sé ráðríkur líka og vilji ráða og það má vel vera að hæstv. ráðherra hafi á þingmannsferli fundist oft að mikið vantaði á að hann hefði þau völd sem hann vildi hafa. Þess vegna telji hann rétt að nota tækifærið núna og stjórna með skörungsskap, nota valdið meðan hann hefur það. Ég hygg að þetta mat hæstv. ráðherra á eigin skapgerð sé nokkuð rétt og út af fyrir sig skiptir þá öllu máli hvort réttar ákvarðanir eru teknar. En ég vil jafnframt bæta því við að hæstv. ráðherra átti nú stundum í brösum með þingið þegar hann var óbreyttur þingmaður og ég veit að hann gerir sér grein fyrir því að varðandi lagasetningu þarf hann að eiga nokkurt samstarf við þingið. Það er nú einu sinni svo að hér verður að flytja málin og fá þau samþykkt. Þess vegna ætlast ég til þess að hann skoði þetta frv. til laga á þann hátt að hann ætli Vegagerðinni ekki sjálfdæmi í sínum málum en lögreglunni aftur á móti að dæma þegar aðrir eiga að vinna hliðstæð verk, hann ætli sér að hafa jafnræði í þessum lögum og það verði að koma fram í þessum lögum skyldur á hendur Vegagerðinni.