Vegalög

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 12:00:33 (5690)


     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að mér þótti undarlegt þegar flokksbróðir hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar vék orðum að mér þar sem ég sat í mínum stól að biðja mig sérstaklega að hlýða á mál sitt og hafa þau orð um hegðun flokksbróður síns að segja: Ég tel að það sé ekki til of mikils mælst af samgrh. Þarna hefði hv. þm. auðvitað átt að ávarpa flokksbróður sinn en ekki mig.
    Ég vil gera annað að umræðuefni í ummælum hv. þm. Við erum hér að fjalla um faglegt mál sem ég setti til sérstakrar umfjöllunar hjá sveitarstjórnarmönnum og jafnframt var sent til umfjöllunar hjá formanni fjárln. og formanni samgn. ásamt fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Í þessu felst ekki annað en eðlilegur pólitískur undirbúningur að því að leggja fyrir þingið nýtt frv. um vegamál sem er umgerð fyrir Vegagerð ríkisins metin út frá sjónarmiðum þess ráðherra sem fer með þessi mál. Það hefur ekki verið gefið í skyn eða með neinum hætti áformað að reyna að koma í veg fyrir eðlilegt samráð og samvinnu við stjórnarandstöðuna um það hvernig unnið skuli að þessu máli í samgn. og mér finnast þau ummæli sem hv. þm. var að gefa í skyn í því samband mjög óverðug. Hitt er vitað áður að hv. þm. er sár yfir því að hann skyldi ekki hafa komið að þeirri ákvörðun hvernig fjármagni var varið í sambandi við átak til atvinnuaukningar nú í haust. Það er annað mál en kemur auðvitað þessu frv. ekki við.
    Ég vil svo að síðustu segja að auðvitað eru skiptar skoðanir um stefnu í samgöngumálum en við það verðum við báðir að una, ég og hv. þm. Við höfum áður rætt um þau efni en ég tel að það komi fleirum en þingmönnum Austurlands við hvernig staðið verði að t.d. veglagningu yfir Möðrudalsöræfi.