Vegalög

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 12:03:01 (5691)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla nú ekki að fara að tala um það þótt ég hafi beðið hæstv. samgrh. að hlýða á mitt mál, en það þakka ég nú fyrir samt að hann hefur tekið eftir því sem ég sagði. En það er alger misskilningur hjá hæstv. samgrh. að ég sé eitthvað sár yfir því að ég hafi ekki komið að einhverju ákveðnu máli. Það kemur þessu máli ekkert við. Mín vegna persónulega má samgrh. ákveða alla þessa hluti ef hann kýs svo. Það er það sem hann virðist vilja. Ég tel það hins vegar mjög óskynsamlegt, hæstv. samgrh., ekki bara vegna dagsins í dag heldur fyrir alla framtíð. Og ég segi það í mikilli vinsemd. Ég tel að hæstv. samgrh. gangi þannig fram í málum að hann skapi ekki frið um viðkvæm mál. Ef hæstv. samgrh. vill sérstaklega leggja sig fram um það að skapa ófrið í þessum málum, þá er hann á réttri leið og hann ætti þá heldur að herða sig í því. Ef hann vill hins vegar reyna að skapa sátt um þessi erfiðu og viðkvæmu mál á hann að ganga öðruvísi fram og ég tel að það væri skynsamlegt að gera það upp á framtíðina. Ég tel að það hafi tekist allvel til í gegnum áratugina að byggja upp þessa vinnuhætti þótt oft hafi verið deilt um það. Ég tel mikilvægt að varðveita það sem hefur áunnist og horfa til lengri tíma og þá kemur það ekkert við endilega vegarkafla á Möðrudalsöræfum, það er sérstakt mál. En almennir samskiptahættir skipta miklu máli, hæstv. samgrh,. og ég bið þig um að taka þá til endurskoðunar.