Vegalög

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 12:05:18 (5692)


     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get ekki tekið til mín þau ummæli sem hv. þm. hafði hér. Ég hef þvert á móti í hvert skipti sem þingmenn stjórnarandstöðu hafa rætt við mig um samgöngumál reynt að greiða mjög fyrir því að slíkar viðræður gætu tekist og vil minna hv. þm. á viðræður sem við höfum átt m.a. um Flugfélag Austurlands í þeim efnum. Hitt liggur alveg ljóst fyrir að það var tekin ákvörðun um það af ríkisstjórninni nú í haust að leggja fram lista með ákveðnum framkvæmdum þegar farið var í vegarframkvæmdir í sambandi við sérstaka lántöku til atvinnuaukningar. Það er líka rétt að ýmsir þeir sem áttu sæti í fyrri ríkisstjórn hafa lýst yfir andstöðu sinni við það að ekki skuli hafa verið farið eftir þeim drögum að langtímaáætlun sem síðasta ríkisstjórn lagði fram á síðasta þingi fyrir síðustu kosningar. Og þar vík ég m.a. að framkvæmdum eins og brú yfir Jökulsá í Dal en eins og ég hef áður vikið að --- þessi ákvörðun mín hefur mjög verið gagnrýnd, m.a. af hv. þm. ef ég hef réttar spurnir af því --- var farið í þá brú m.a. vegna þess, eins og ég hef áður skýrt frá, að aðilar vinnumarkaðarins lögðu á það ríka áherslu að það yrði reynt að verja sumu af þessu fé til brúarframkvæmda vegna þess að þeir töldu að fleiri gætu komið að slíku. Það má á hinn bóginn vel vera að hv. þm. hefði verið sáttari við það ef ég hefði tekið þann kostinn t.d. að nota þetta stórverkefnafé til þess að ráðast í nýja brúargerð yfir Skjálfandafljót eða Héraðsvötn. Ég skal ekki um það segja. En ég hef lagt mig fram um að eiga gott samband við stjórnarandstöðuna þó svo að milli okkar sé djúpur ágreiningur um þetta einstaka atriði.