Kirkjugarðar

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 12:24:52 (5696)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Á þskj. 659 hefur verið lagt fram frv. til laga um kirkjugarða, greftrun líka og líkbrennslu sem kirkjulaganefnd hefur samið á grundvelli frv. sem samþykkt var af kirkjuþingi á sínum tíma. Frv. var lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi, 1991--1992, en varð þá ekki útrætt.
    Frv. þessu er ætlað að leysa af hólmi lög um kirkjugarða frá 1963, með síðari breytingum, og lög um líkbrennslu frá 1915.
    Kirkjulaganefnd, sem skipuð er biskupi Íslands, ráðuneytisstjóranum í dóms- og kirkjumrn. og dr. Ármanni Snævarr, samdi frumdrög að frv. um þetta efni eftir að tillögur og ábendingar höfðu borist frá

ýmsum aðilum sem kunnugir eru framkvæmd laga um kirkjugarða.
    Kirkjuráð lagði frv. fyrir kirkjuþing 1985 en málið var afgreitt endanlega af kirkjuþingi haustið 1986 eftir að tillögur höfðu borist frá ýmsum aðilum. Taldi kirkjuþing rétt að heildarfrv. yrði samið um þetta efni og tók saman slíkt frv. Þá var horfið að því ráði á kirkjuþingi að fella lög um líkbrennslu, nr. 41/1915, inn í frv.
    Kirkjulaganefnd fjallaði að nýju um frv. eins og það kom frá kirkjuþingi og gerði nokkrar lagatæknilegar breytingar á því. Dr. Ármann Snævarr sá um endurskoðunina á vegum kirkjulaganefndar. Sérstök nefnd samdi frv. um kirkjugarðsgjöld og kirkjugarðssjóð sem breytir lögum um kirkjugarða og var það lögfest sem lög nr. 89/1987. Hafa þau lög verið felld inn í þetta frv. án efnislegra breytinga. Gengið var frá frv. til flutnings nú í dóms- og kirkjumrn.
    Frá því að frv. þetta var síðast lagt fram hafa nokkrar breytingar verið gerðar á því í kirkjumrn. Breytingarnar varða 10., 20. og 21. gr. frv. og miða að því að skerpa línur um það hvaða verkefni í kirkjugörðum er ætlað að kosta með kirkjugarðsgjöldum.
    Í 10. gr. frv. er nú lagt til að kirkjugarðsstjórn sjái ávallt um að láta taka grafir, auk þess sem hún annist árlegt viðhald legstaða en þannig mun þetta víða hafa verið framkvæmt. Að auki er lagt til það nýmæli að kirkjugarðsstjórn beri kostnað af prestsþjónustu vegna útfara. Þessum breytingum er ætlað að koma í veg fyrir mismunun um það hvaða þjónusta skuli vera kostuð af því kirkjugarðsgjaldi sem menn hafa þegar greitt eftir því hvar þeir búa á landinu eða hver annast útförina.
    Í 2. mgr. 20. gr. er lagt til að kirkjugarðsstjórn sé heimilt að styrkja kostnaðarsamar framkvæmdir við útfararkirkjur. Þótt slíkt ákvæði sé ekki í lögum nú mun slíkur stuðningur hafa átt sér stað víða um land, enda oft mikil samstaða með kirkju og kirkjugarði og erfitt að greina þar á milli. Þykir nauðsynlegt að ætla fyrir þessu í lögunum. Þetta er þó aðeins heimildarákvæði og það er hverrar kirkjugarðsstjórnar fyrir sig að marka stefnu í þessu máli. Mætti svo kveða nánar á um þetta í reglugerð.
    Í 1. mgr. 21. gr. er lagt til að leyfi dóms- og kirkjumrn. þurfi til að reka útfararþjónustu og að ráðuneytið afli sér umsagnar skipulagsnefndar kirkjugarða um umsóknir um slík leyfi. Var alls ekki ætlunin með þessu ákvæði að auka kröfur til þeirra sem nú stunda þessa starfsemi eða hafa í framtíðinni bein áhrif á fjölda þeirra sem þessa þjónustu stunda heldur leggja grunn að því að til þeirra aðila sem ætla sér að koma inn í starfsemina séu gerðar ákveðnar eðlilegar, faglegar kröfur.
    Í 2. mgr. 21. gr. er svo lagt til að þar sem kirkjugarðsstjórnir annist útfararþjónustu skuli sú starfsemi vera aðskilin frá lögboðnum verkefnum kirkjugarðsstjórnar. Þetta ákvæði er í góðu samræmi við 10. gr. frv. eins og hún er nú, samanber það sem sagt hefur verið um þá grein, að skýrt skuli kveðið á um það til hvaða verkefna kirkjugarðsgjöldum er varið og þau skuli ekki notuð til annars. Þetta ákvæði miðar að því að útfararþjónusta á vegum kirkjugarðsstjórnar sitji við sama borð og útfararþjónusta á vegum annarra aðila.
    Aðrar efnisbreytingar hafa ekki verið gerðar á frv. þessu frá því það var síðast lagt fram og vísa ég til framsögu með frv. á síðasta þingi og athugasemda sem fylgja frv.
    Í athugasemdum með þessu frv. er gerð grein fyrir sögulegri þróun á þessu sviði og gefið yfirlit yfir löggjöf fyrri tíma um þetta efni. Þar kemur enn fremur fram að þau lagasjónarmið sem búa að baki lögum um kirkjugarða og líkbrennslu eru þríþætt. Það eru í fyrsta lagi trúræn viðhorf, í öðru lagi heilbrigðissjónarmið og í þriðja lagi eru kirkjugarðar og góð umhirða þeirra menningarviðfangsefni. Út frá því sjónarmiði hefur lengi þótt eðlilegt að leggja nokkrar skyldur á sveitarfélög og er þetta frv. m.a. á því byggt að nauðsynlegt sé að auka samskipti sveitarstjórna og kirkjugarðsstjórna.
    Ég vil að lokum taka fram að ekki er í frv. gerð breyting varðandi þann grundvöll sem aðstöðugjald er fyrir útreikningi ákveðinna tekna kirkjugarða, sbr. 38. gr. frv., þótt innheimta aðstöðugjalds hafi verið felld niður með lögum nr. 113/1992, um breytingu á lögum nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga. Um þetta þarf að fjalla nánar þegar þeim atriðum sem lög nr. 113/1992 fjalla um, verður ráðið til lykta fyrir árið 1994.
    Frú forseti. Ég hef þá í aðalatriðum gert grein fyrir efni frv. og þeim breytingum sem á því hafa orðið frá því að það var lagt fram á síðasta þingi og legg til að því verði vísað að lokinni þessari umræðu til 2. umr. og hv. allshn.