Tvöföldun Reykjanesbrautar

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 12:31:54 (5697)

     Flm. (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Framhaldi umræðu um þessa tillögu hefur verið frestað með tilliti til þeirra þingmanna sem hafa kvatt sér hljóðs sem hafa verið fjarstaddir þingfundi að undanförnu. Þeir hafa hins vegar ekki komið fram tilmælum sjálfir um að fresta umræðunni frekar og ég er því sammála því, virðulegi forseti, að hún haldi áfram og málið komist til nefndar.
    Ég hef áður við umræðuna gert grein fyrir helstu rökum sem mæla með þessari framkvæmd en það er skemmst að segja bætt öryggi umferðar og vegfarenda um Reykjanesbrautina. Í öðru lagi er þörf fyrir aukna flutningsgetu. En um öryggi vegfarenda verður að segjast að Umferðarráð, sem fjallar um öryggi í umferðinni, hefur hvað eftir annað á undanförnum árum bent á að þessi þjóðvegur sé einhver svartasti kafli þjóðvega landsins. Reykjanesbrautin er aðeins 0,6% af þjóðvegakerfinu, en þar gerast 12,3% allra umferðarslysa og hlutfall meiðsla og tjóna er enn þá hærra en þessu nemur.
    Vegagerð ríkisins hefur gert nokkurn samanburð á óhöppum og slysum í umferð á Reykjanesbraut og á Suðurlandsvegi sem telst á ýmsan hátt sambærilegur þjóðvegur og þar kemur fram að Reykjanesbrautin er mun verri þegar tekið hefur verið tillit til vegalengdar og fjölda í umferðinni. Umferð um Reykjanesbraut er sérstök, einkanlega hvað varðar mikla næturumferð og hversu mjög hún er tímabundin sem kemur auðvitað fram í vissu álagi á ökumenn og aðra sem í umferðinni eru.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera frekar að umtalsefni þessi atriði. Þeim flestum eru gerð skil í greinargerð með tillögunni og ég lýk máli mínu með því að leggja til að henni verði vísað til síðari umr. og til hv. samgn. þingsins.