Réttindi og skyldur starfsmanna varnarliðsins

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 13:00:26 (5698)

     Flm. (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 634 hef ég lagt fram till. til þál. um réttindi og skyldur starfsmanna varnarliðsins á Íslandi. Hún er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að skora á utanrrh. að undirbúa og setja reglur um réttindi og skyldur íslenskra starfsmanna varnarliðsins á Íslandi.``
    Það er svo, virðulegi forseti, að um kjör og réttindi íslenskra starfsmanna varnarliðsins fer að mestu eftir almennum kjarasamningum en þó er það svo að um skyldur þeirra eiga við ákvæði og eru í raun viðhöfð ákvæði og kröfur sem ekki eiga við á hinum almenna vinnumarkaði. Þegar þetta tvennt er borið saman kemur í ljós verulegt misræmi, en hins vegar er hægt að finna visst samræmi með skyldum og kröfum til þessara manna og með þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra manna er gegna stjórnunarstöðum í hinu íslenska stjórnkerfi. Þó er það svo að vegna stöðu varnarliðsins er ekki unnt að skapa eða veita íslenskum starfsmönnum þeirra slíka stöðu en þá hefur komið upp það vandamál að tilteknir starfsmenn varnarliðsins gegna ábyrgðarstöðum og hafa þess vegna ekki fengið fulla réttarstöðu sem aðilar á vinnumarkaði, sem aðilar að þeim réttindum sem starfsmenn venjulegra fyrirtækja og opinberra vinna sér inn vegna greiðslna í sjóði eins og Atvinnuleysistryggingasjóð. Nú eru þessar greiðslur allar inntar af hendi með skilum, en þar sem félag þessara manna hefur ekki hlotið réttindi sem stéttarfélag njóta þeir ekki bótanna ef til þess kynni að koma.
    Nú er það svo að varnarliðið hefur undanfarin ár verið að draga saman umsvif sín og allar umræður sem við verðum áskynja um benda til þess að svo muni áfram halda. Þess vegna er ástæða til að huga að réttindum þessara manna og eðlilegt að þeim verði formlega gerð grein fyrir skyldum sínum. Ég tel nauðsynlegt að taka á þessu máli og tel engan færan um að hafa forgöngu um það eða veita því brautargengi annan en hæstv. utanrrh. og af þeim sökum, virðulegi forseti, hef ég lagt fram þessa þáltill.
    Nú er það svo að þessir starfsmenn sem um ræðir eru á annað hundrað talsins og þeir eiga allir á hættu að missa e.t.v. atvinnu vegna skipulagsbreytinga eða minnkandi umsvifa, en ganga núna að því vísu að þeir muni ekki njóta bóta eins og aðrir launþegar á vinnumarkaði. Að öðru leyti tel ég rétt að benda á, virðulegi forseti, að flest af þessu fólki hefur ílengst í starfi, hefur sem sé starfað lengi hjá þessum sama vinnuveitanda, hefur með mjög óvenjulegum hætti sérhæft sig, vinnur m.a. í vinnusamfélagi sem starfar á tveim tungumálum að öllu jöfnu og hefur kynnt sér framkvæmd starfa sem aðrir launþegar hér á landi eru ókunnugir, en þegar þessi störf falla brott, ef svo verður, njóta þeir í engu þessarar sérhæfingar sinnar eða sérstöku kunnáttu. Þess vegna hef ég einnig talið, virðulegi forseti, að þeim þurfi að búa sérstök starfskjör að þessu leyti.
    Ég lýk máli mínu, virðulegi forseti, með því að leggja það til að málinu verði vísað til hv. utanrmn. þingsins og til síðari umræðu.