Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 13:53:09 (5707)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hélt að það lægi svoleiðis í augum uppi þegar ég nefndi ónefnt fyrirtæki daginn eftir að aðalfundur þess var haldinn að menn gæti rennt í grun um, þó ekki væri annað, hvaða fyrirtæki ég hefði átt við. En úr því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallaði fram í og opinberaði þar með vanþekkingu sína á þessu máli þá var það mér auðvitað bæði ljúft og skylt að upplýsa hann um það að hér hefði að sjálfsögðu verið átt við Eimskipafélag Íslands, það ágæta fyrirtæki.
    Ég nefndi það alveg sérstaklega í minni ræðu áðan að við hefðum góðu heilli á síðasta hausti breytt skattareglum, fellt niður aðstöðugjald, sem sem betur fer kæmi þessu fyrirtæki eins og öðrum atvinnufyrirtækjum í okkar landi til góða. Ég vakti líka athygli á því í andsvari mínu áðan við hv. 3. þm. Vesturl. að við þyrftum hins vegar að fara í þann samanburð sem gert er ráð fyrir í þáltill. að bera saman skattalegt umhverfi þessa fyrirtækis við þau fyrirtæki sem það er að keppa við á alþjóðlegum mörkuðum. Það getur vel verið að eitthvað í okkar skattalegu löggjöf sé fyrirtækjarekstri eins og hjá Eimskipafélaginu hagstæðara en gerist og gengur í kaupskipaútgerð erlendis, en það hins vegar er ekki margt sem bendir til þess að svo sé þegar sú staðreynd blasir við okkur að Eimskipafélag Íslands eins og önnur kaupskipaútgerð í landinu hefur orðið að neyðast til þess að mál hafi þróast með þeim hætti að íslenskum ársverkum í kaupskipaútgerð hafi fækkað um 183. Það er sérstök athygli vakin á því í grg. þessarar ágætu þáltill. með hvaða hættir Danir hafi snúið þessari þróun við og það getur vel verið að þá leið verðum við að fara ella að tapa ársverkum úr landi. Það getur verið að við stöndum einfaldlega frammi fyrir þessum tveimur kostum og við verðum einfaldlega að vera menn til þess að taka ákvörðun um hvora leiðina við viljum fara.