Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 13:55:41 (5708)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson er Vestfirðingur og það er þeirra háttur að tala tæpitungulaust. Ég tel þess vegna rétt að tala tæpitungulaust. Þingmaðurinn veit það vel að þegar verið er að tala um íslenska kaupskipaútgerð þá eru menn fyrst og fremst að tala um Eimskipafélagið og þingmaðurinn þarf ekkert að koma hingað og halda því fram að Eimskipafélagið sé svo illa statt að það hafi ekki efni á að hafa íslenska menn í vinnu. Ég segi það þegar staðan er orðin þannig að Eimskipafélag Íslands, sem heldur hér uppi allt of háu verði á fragtflutningum til landsins og hefur grætt óhemjufé á síðustu árum, að ef þetta félag hefur ekki efni á því að ráða íslenska menn í vinnu, þá vil ég spyrja, virðulegi forseti: Hvaða erindi hefur þetta skipafélag inn í íslenskt athafnalíf lengur?