Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 14:07:34 (5711)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um atvinnumál farmanna. Og vissulega er það rétt að á seinustu missirum hefur mjög fækkað möguleikum Íslendinga til starfa á ýmsum sviðum. Það er undanhald samkvæmt áætlun. Og það mál sem hér er á dagskrá er í sjálfu sér angi af því.
    Hv. 3. þm. Vesturl. gat um að það væru mjög margar starfsgreinar sem stæðu frammi fyrir því sama og hér er verið að tala um. Samningar í landinu eru lausir í dag og það er verið að semja og auðvitað væri það vafalaust lausn milli atvinnurekenda og launþega ef skattarnir yrðu skornir niður og athyglisvert er að fulltrúar Sjálfstfl. hafa nú tvo daga í röð flutt tillögur um það. ( ÖS: Stjórnarandstaðan flutti líka slíka tillögu.) Og stjórnarandstaðan líka, segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem fylgist nú yfirleitt mjög vel með, stjórnarandstöðunni sérstaklega, og áttar sig strax á því að nú er Alþfl. kominn í minni hluta.
    En burt séð frá því eru margar hliðar á þessu máli. Ein er sú að með EES-samningunum hefur Eimskip eða Samskip þá lausn að það á ekkert undir Alþingi Íslendinga í skattalegu tilliti varðandi skatta sjómanna. Þeir geta einfaldlega stofnað hlutafélag í Danmörku strax á morgun og þegar EES-samningurinn er kominn í gildi, þá sigla þeir bara undir dönskum fána með íslenska áhöfn og það er löglegt. ( Gripið fram í: Siðlaust.) Siðlaust, heyrist hér utan úr salnum. Ég veit það ekki. Það eru nú sumir af ráðherrum vors lands afkomendur þeirra sem vildu nú aldrei að við yfirgæfum Danaveldi og héldum danska fánanum áfram þannig að það er ekki skrýtið þó að þessi ,,tendens`` kæmi nú upp í stöðunni. Ég sé nefnilega ekki að það sé neitt sem kemur í veg fyrir það að við fáum þá stöðu að menn flytji starfsemi til útlanda í stórum stíl vegna þess að það er leyfilegt með fullu athafnafrelsi á Íslandi á eftir. Þetta var tekið fyrir varðandi prentiðnaðinn. Sá sem rak umsvifamestu útgáfustarfsemi hér á landi ræddi við þingmenn fyrir jólin og benti þeim á í hvaða stöðu menn væru að fara með virðisaukaskatt, sem þá var verið að leggja á. Menn lokuðu bara eyrunum. Það var verið að flytja atvinnu úr landi í stórum stíl.
    Ég skil það ekki hreint út sagt hvernig menn stóðu að því að styðja EES en standa nú upp og segja: Við verðum að bjarga íslenskum atvinnutækifærum og koma í veg fyrir að menn séu atvinnulausir. Það er búið að leyfa frjálsan innflutning á starfsmönnum til landsins, jafnt farmönnum sem öðrum frá 350 millj. manna samfélagi. Þetta vita þessir ágætu þingmenn sem hér hafa talað. Það er alveg tómt mál að tala um það að atvinnuleysi á Íslandi, hvorki hjá farmönnum eða öðrum, geti verið á annan veg stórt séð en það er innan þessa svæðis, innan EES. Ef hér verður miklu betra atvinnuástand en þar, hljóta menn að flykkjast hingað. Ef þar verður miklu betra atvinnuástand en hér fara menn út. Það eru engar hömlur á þessu lengur. Það þýðir að menn geta ekki á nokkurn hátt leyst þessi mál á þann hátt, sem hér er verið að tala um, þannig að það breyti því sem við höfum áður gert í samningum um þessa hluti.
    Það sem aftur á móti blasir við og væri sanngjarnt að ríkisstjórnin gerði nú án þess að Alþingi þyrfti að setja á hana sérstaka þáltill., að ríkisstjórnin færi yfir afleiðingar gerða sinna, settist niður og léti skoða það hjá hinum ýmsu starfsstéttum, jafnt farmönnum sem öðrum, hvert stefnir. Ég vil segja það t.d. hér og nú hreint út að ég er hlynntur því að allir þeir Íslendingar sem vinna á erlendri grund verði látnir borga skatta til íslenska ríkisins. Hvers vegna eiga þeir sem nú eru sendir til starfa úti í Brussel að komast undan því að greiða skatta til íslenska ríkisins? Ef þeir veikjast og þurfa á læknishjálp að halda hér á landi, eiga þá einhverjir aðrir að borga fyrir þá læknishjálpina? Hvers vegna eiga þeir sem verið er að ráða með laun upp á 600--800 þús. ekki að borga hér skatta af því að þeir eru að vinna fyrir íslenska ríkið úti í Brussel? ( Gripið fram í: Er það svo?) Og hvað með sendiráðin? Hvers vegna eiga þau ekki að borga skatta? ( Gripið fram í: Gera þau það ekki? Hvað með forsetann?) Þau gera það ekki, að ógleymdum forsetanum. Það er hneyksli, svo ekki sé meira sagt, að á sama tíma og konungar Evrópu eru farnir að borga skatta og forseti Bandaríkjanna hefur alltaf borgað skatta, þá skuli þjóðþing Íslendinga sameinast um það að forseti landsins eigi ekki að borga skatta. Það er nefnilega mjög auðvelt að koma hér upp í þennan stól og leggja til sér til vinsælda að menn eigi ekki að borga skatta. Það er mjög auðvelt. Ég hef séð menn gera það oft. En það þarf nefnilega þó nokkurt þrek til þess að þora að halda því fram að forréttindahóparnir eigi að borga skatta.
    Ég vil taka undir allt það sem sagt hefur verið um ágæti íslenskra sjómanna og ég er sannfærður um það að það er mikið skammtímasjónarmið sem ræður ríkjum þegar menn eru að ráða erlenda aðila á farskip. Við sjáum mýmörg dæmi þess hvernig stórslys hafa orðið, alveg gífurleg mengunarslys, vegna þess að skip eru undirmönnuð og á þau ráðnir menn sem hafa ekki þekkingu á því hvað þeir eru að gera.

Þess vegna er þetta mál mikið alvörumál, ekki bara út frá atvinnulegu tilliti. Það er mikið alvörumál út frá öryggissjónarmiði við strendur landsins. Ég held að það sé ekki ofverk íslensku ríkisstjórnarinnar að setja nefnd í þetta mál. Það þarf enga þál. Þeir geta sett nefnd í málið. Þeir stjórna þessu og geta tekið þessi mál fyrir á víðum grunni. Hvert stefnir með atvinnuöryggi þessarar þjóðar?