Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 14:16:07 (5712)


     Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég má til með að gera smáathugasemd við mál hv. þm. Ólafs Þórðarsonar. Það er nefnilega þannig að það gerðist ekki með EES-samningunum að það væri hægt að flagga út skipum og stofna fyrirtæki erlendis. Það hefur verið hægt lengi. Ég hélt að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefði gert grein fyrir því svo allir skildu í salnum að það er skipafélag sem er búið að stofna fyrirtæki úti á Kýpur og ræður í gegnum það fyrirtæki jafnt íslenska menn sem erlenda til starfa á þeim skipum. Þeir greiða hins vegar enga skatta og engar skyldur til íslenska ríkisins. Þetta var hægt áður en við samþykktum EES-samninginn og þetta hefur verið hægt lengi. Það sem við stöndum frammi fyrir í þessu máli er því einfaldlega það að getum við ekki gengið þannig í þetta mál að við getum verið jafnfætis þeim þjóðum í þessu tilliti sem eru í samkeppni við okkur, og þá er nærtækast að vitna til Norðurlandaþjóðanna sem við erum jú alltaf að bera okkur saman við á ýmsum sviðum, og reyna að gera hlutina þannig úr garði að menn sjái sér ekki hag í því að fara með fyrirtækin og atvinnustarfsemina úr landinu.
    Ólafur vék líka að því að búið væri að leyfa 350 millj. manna að sækja vinnu á Íslandi og átti þar við samninginn um EES og frjálsa för launafólks á milli landa. Samningurinn kveður hins vegar á um að það fólk sem þannig kemur starfar á íslenskum kjarasamningum, við þau kjör sem Íslendingar eru ráðnir á. Menn ná ekki að fara með kjörin niður samkvæmt EES-samningnum. Ef fólk kemur hingað til lands þá fer það á íslenska kjarasamninga. Það gerist hins vegar ef skipum er flaggað út að hægt er að fá þetta vinnuafl þrisvar til fjórum sinnum ódýrara en er almennt.