Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 14:23:46 (5715)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Hér er það upplýst af hv. 17. þm. Reykv. að þetta mál er flutt sem vantraust á hæstv. samgrh. Það kom hvergi fram í máli frummælanda og ég náði því alls ekki að svo væri. Ef það hefði verið skýrt strax þá hefði ég að sjálfsögðu gert mér grein fyrir því að ríkisstjórnin gæti ekki gengið beint í málið. Hún þyrfti að fá hrísvönd til þess að taka við sér.
    En varðandi Bretaveldið þá hélt ég að jafnvel hv. 17. þm. Reykv. vissi að þetta er ein mesta siglingaþjóð heimsins og Bretadrottning hefur náttúrlega gegnt sögulegu hlutverki hvað það snertir. Hins vegar hefur hún haft þann háttinn á í gegnum allar aldir, sem þetta var mesta siglingaveldi heimsins, að vera skattfrjáls sjálf en ætla farmönnunum að greiða skatta. Nú aftur á móti er farið að halla svo undan að hún hefur gert samkomulag um að greiða skatta.
    Varðandi EES og þann stóra misskilning sem hann kvað að ég hefði í því sambandi, þá vil ég taka fram að ég geri mér fulla grein fyrir því að það var hægt að sigla undir þægindafána áður. En ég veit ekki til þess að hlutafélögum utan úr heimi hafi verið heimilt að stunda óáreitt atvinnurekstur á Íslandi áður. Það fylgdi EES. En nú er hæstv. samgrh. genginn í salinn og má gera sér grein fyrir því að hér er opinbert vantraust flutt á hann undir því yfirskini að hann sé slíkur verndari Eimskipafélags Íslands að það verði ekki hægt að koma lögum yfir það félag nema þingið samþykki þáltill. sem hér hefur verið flutt og reynir nú mjög á karlmennsku kappans hvort hann gerir meira en að snýta sér.