Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 14:26:57 (5717)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hélt ég hefði tekið það nægilega skýrt fram í mínu svari áðan að eftir að það er upplýst að þetta er vantraust á samgrh. horfir málið náttúrlega þannig við að þingið verður að samþykkja tillöguna. Ég hélt að hv. 17. þm. Reykv. gerði sér grein fyrir því. Er það tilfellið að ríkisstjórn Íslands telji ekki þörf að vinna þetta verk á miklu breiðari grundvelli? Það þarf að vinna hliðstætt verk á miklu breiðari grundvelli.
    En varðandi EES og skjól undir pilsum Bretadrottningar þá veit ég að hv. 17. þm. Reykv. er það vel kunnugur á þeim slóðum að ég kemst ekki í hálfkvisti við hann og vil ekki þræta um möguleika sem þar eru. En EES hefur fært okkur inn í atvinnusvæði sem eru 350 millj. manna. Það þýðir að atvinnuleysi á Íslandi á næstu árum mun verða svipað og innan þess svæðis.