Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 14:28:04 (5718)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég bað um orðið þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson var að ljúka sinni ágætu ræðu, hinni fyrri. Raunar var sú síðari líka skemmtileg þó hin væri kannski meira alvörugefin. Við erum að fjalla um hagsmunamál farmanna og hverju það muni sæta að fremur fækki en fjölgi íslenskum farmönnum sem sigla um heimsins höf. Það er hlutur sem við horfum ekki á án þess að gera gagnráðstafanir eftir því sem okkur telst heppilegast. Við vitum að launakjör eru ekki orðin miklu betri hjá okkur en víðast annars staðar. Það eitt ætti að gera það að verkum að óskabarn þjóðarinnar ætti að einbeita kröftum sínum að því að bæta hag sinna farmanna og starfsmanna í staðinn fyrir að fækka þeim og efla siglingar í staðinn fyrir að draga úr þeim. --- Hér er kominn hæstv. ráðherra þessa málaflokks og mun sjálfsagt taka einhvern þátt í þessari umræðu.
    Um Eimskipafélagið var auðvitað allt gott að segja. Íslenska þjóðin sameinaðist um að koma því á laggirnar á sínum tíma og tók nánast hver einasti maður, hversu fátækur sem hann var, þátt í því verki. Þessi starfræksla mikilvægustu atvinnufyrirtækja, þ.e. opin og almenn hlutafélög, er gömul að árum en ekki ung, allt frá 17. öldinni. Við kynntumst þessu síðar og það reyndist mjög vel um langan aldur en síðan fóru menn að safna auðnum saman. Orðið burðarás kom inn í þessa umræðu af annarra hálfu og ætti kannski að vera mönnum til íhugunar um hver þessi burðarás sé nú. Það er fyrirtæki sem gjarnan mætti fá upplýsingar um hverjir eiga og hvernig þeir eignuðust það. Það er mál út af fyrir sig.
    Ég var svo heppinn, vil ég segja, að vera beðinn um það af starfsmönnum Ríkisskipa á sínum tíma að aðstoða starfsmennina við það að geta eignast Ríkisskip. Svo varð nú ekki. Ég held að hæstv. samgrh. geti frætt okkur á því hvers vegna það varð ekki. Hins vegar var Samskip stofnað og það bjargaði þó nokkru því það er þó ekki algjör einokun í strandsiglingum eða millilandasiglingum eins og í stefndi á tímabili.
    Það var gott að fá þessa umræðu, bæði er þetta þing með því leiðinlegasta sem ég hef setið a.m.k. þannig að það gerir ekkert til þó menn skvetti svolítið úr klaufunum, svo maður noti góða og gegna íslensku, og rífist ef því er að skipta. En hér er málefnalegt rifrildi, ef við köllum það rifrildi, eða málefnaleg umræða um einn af mikilvægustu þáttum í okkar atvinnulífi sem siglingarnar hljóta að vera. Við verðum auðvitað fyrst og fremst að berjast fyrir því að varðveita okkar fiskimið og nota þau sem við eigum. Því miður er ekki enn þá farið að nýta hafið og hafsbotnsvæðið suður af Reykjanesi, t.d. út í 350 mílur sem við eigum þar, Hatton-bankann eigum við o.s.frv. Þetta þekkja menn allir og ég hef sagt hér 150 þúsund sinnum eða hvað það er nú oft og þarf ekki að segja það öllu oftar. En ef þessi hugsjón okkar, almenningshlutafélögin --- ég held ég hafi búið til það orð og það er gott orð og menn mættu gjarnan fara að hugsa hvernig þau félög eigi að vera byggð upp, hvernig verði gætt réttar minni hlutans og hvernig fyrirtæki geti þróast eðlilega ekki síst í svo litlu þjóðfélagi eins og okkar er en raunar í miklu stærra landi en svarar til allra landanna í Vestur-Evrópu og Mið- og Suður-Evrópu. Við eigum stærra yfirborð og verðmætara yfirborð af jörðinni okkar en öll Vestur-Evrópa. Við höfum sem sagt nóg við að glíma að byggja upp okkar eigin óháðu atvinnuvegi og þurfum ekki að leita á annarra náðir um hvaðeina sem við hyggjumst gera.
    Það er svo óteljandi margt sem við getum gert ef við sameinumst. Við deilum auðvitað um leiðirnar en í meginatriðum ættum við að geta verið sammála um þessa stefnu sem mótaðist af sjálfu sér þegar Eimskip var stofnað. Líklega merkilegasta almenningshlutafélag sem nokkurn tímann hefur verið stofnað í veröldinni að uppbyggingu og frjálsræði og nauðsyn þess að varðveita hag minnihlutaeigenda, en flestir áttu of smáa hluti. Menn lögðu gjarnan fram eitt lambsverð eða eitt kýrverð eða eitthvað slíkt og þeir fátækustu fengu að borga það á nokkrum tíma en allir voru með.
    Ég vildi gjarnan fá að sjá það áður en maður hættir stjórnmálaafskiptum. En það þarf enginn að láta sig dreyma um að ég geri það fljótlega því það ætla ég ekki að gera. Ég ætla að vera lengi við hvort sem vel farnast á næstu árum eða ekki vegna þess að við eigum verk að vinna og einmitt Eimskipafélagshugsjónin, ég kalla það svo enn þó hún hafi breyst í burðarása. Það er fleira sem ég þarf ekkert að nefna og allir hér inni og allir Íslendinga raunar vita hvernig hefur verið farið að í því ágæta félagi.
    En það var sem sagt þessi frábæra ræða Össurar Skarphéðinssonar sem hvatti mig til að fara í pontuna en ég get ekki orðað þessa hugsun alla saman betur en hann gerði og læt hér staðar numið.