Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 14:43:31 (5720)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er ekki ómerk umræða sem hér fer fram. Ég hef á stundum ýjað að þessum málum á hinu háa Alþingi og satt best að segja ekki fengið allt of miklar undirtektir. En það er vissulega virðingarvert af hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni og Guðmundi Hallvarðssyni að flytja þessa tillögu. Hins vegar er ég ekki alveg viss um að þeir hafi vitað hvað þeir voru í raun að gera. Hvað eru þeir að leggja til? Þáltill. er jú beiðni til ríkisstjórnarinnar um að bæta úr í þessu tilviki ástandinu hjá farmannastéttinni. Hvernig er það? Þetta er deyjandi stétt á Íslandi. Einungis fjögur skip Eimskipafélagsins sigla undir íslenskum fána. 11 farskip sigla undir íslenskum fána, 19 undir erlendum. Og í umræðu hér hinn 12. jan. sl. þar sem ég gerði þetta að umtalsefni sagði hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, 1. flm. þessarar tillögu, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: ,,Það er rétt að það komi líka fram í þessari umræðu að það er þegar búið að flagga út skipum frá íslenskum útgerðum. Þau eru hreinlega rekin frá Kýpur. Það þýðir hins vegar ekki að það séu ekki ráðnir íslenskir menn til starfa. Þeir eru ráðnir að hluta, en þeir greiða engin opinber gjöld til íslenska ríkisins og af viðkomandi skipaútgerðum renna engin gjöld til íslenska ríkisins. Hér verða engin margfeldisáhrif eða nokkur atvinnuskapandi störf í kringum þessa útgerð.``
    Ég held að það sé þess vegna tími til kominn að menn hætti að tala um Eimskipafélag Íslands eins og íslenskt fyrirtæki. Þetta fyrirtæki kemur okkur ekkert við. Þetta er erlent fyrirtæki sem rekur fjögur skip undir íslenskum fána.
    Hugur þessara ágætu flm. með þessari tillögu er eflaust góður. Á því er þó sá hængur að báðir greiddu þeir atkvæði með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og það er samhengi þarna á milli. Ég vil minna þá ágætu menn á að í öllu samkeppnistalinu verður auðvitað að bregðast við þægindafánaskipunum. Vissulega mega Evrópubandalagsskip sigla undir þægindafánum og þau mega einnig sigla undir eigin fána. En hvernig ætla þeir þá að keppa við þægindafánaskipin? Um það mál má lesa í plaggi sem heitir: ,,EES-samningurinn, Upplýsingablöð, Flugmál og Skipaflutningar II.2 og II.3.`` Þetta plagg er gefið út af sjálfu utanrrn. Þar segir svo, með leyfi forseta á bls. 8:
    ,,Stuðningsaðgerðir: Þegar ráðherranefnd EB staðfesti fyrrnefndar reglugerðir árið 1986`` --- en þær fjalla um frelsi í aðgangi að sjóflutningum og þjónustu o.s.frv. --- ,,lagði nefndin jafnframt fyrir framkvæmdastjórn EB að hún legði fram nýjar tillögur um frekari stefnumótun í kaupskipaútgerð og til styrktar EB-útgerðum. Þessar tillögur hafa verið nefndar ,,jákvæðar aðgerðir``. Framkvæmdastjórnin lagði slíkar tillögur fram 1989 og hafa þær verið til umræðu innan bandalagsins síðan. Tillögurnar ganga almennt í þá átt að vernda hagsmuni EB-útgerða gagnvart öðrum siglingaþjóðum, einkum þægindafánum, og eru í höfuðatriðum eftirfarandi:
    1. Forgangur skipa EB-útgerða verði tryggður í flutningum á allri þróunaraðstoð bandalagsríkjanna.
    2. Sameiginleg skráning allra skipa bandalagsins verði stofnuð, svonefnd EUROS-skráning.`` --- Og nú vil ég biðja hv. flm. að hlusta.
    3. Á EUROS-skipum verði heimilt að helmingur undirmanna verði frá þróunarríkjum á kjörum sem ríkja í heimalöndum þeirra og að EB-farmenn á EUROSskipum verði að hluta eða að öllu leyti skattfrjálsir og skattar þeirra gangi til útgerðanna.``
    Hvað er hér verið að gera? Það er verið að gera EUROS-skipin sams konar skip og þægindafánaskip. Þetta hljóta hv. flm. þessarar tillögu að skilja. Hvaða þýðingu hefur þessi tillaga við þessi skilyrði? Nákvæmlega enga nema verið sé að biðja hæstv. samgrh. að reka 80 manns, sem eru af erlendu þjóðerni, frá Eimskipafélagi Íslands --- 80 af 259 starfsmönnum er ærið há tala erlendra manna --- og veita 80 atvinnulausum íslenskum mönnum þessi störf. Eru þingmennirnir að biðja um það? Það hlýtur að vera. Það er það eina sem hæstv. ráðherra gæti gert sem um munaði því að Alþingi Íslendinga er búið að samþykkja EES-samninginn. Sú er okkar einasta von að hann nái aldrei samþykki annars staðar og verði þess vegna aldrei veruleiki.
    En þau skip sem kæmu hér eftir að EES-samningurinn væri samþykktur undir EUROS-fána mega hafa allt að helmingi undirmanna af erlendu þjóðerni. Ég hef því aldrei getað fengið það inn í kollinn hverju sá samningur breytir til bóta fyrir íslenska farmenn. Ég held að menn hafi ekki lesið allar lexíurnar sínar heima.
    Það er nefnilega svo í heimi samkeppninnar og gróðafíknarinnar að menn finna sér aðrar leiðir til að græða . Ef þeir þykjast hafa látið af eða orðið að fara af einhverjum leiðum þá finna þeir einfaldlega aðrar. Ég fæ ekki betur séð en að EUROS-skráningin svonefnda komi beinlínis í staðinn fyrir þægindafánakerfið. Mér þætti a.m.k. vænt um ef hv. flm. reyndu að segja mér eitthvað annað. Sé þetta rangt hjá mér þá skal ég svo sannarlega éta það ofan í mig aftur. En ég held einfaldlega að þetta sé rétt.
    Mér er ekki alveg ljóst hvað hv. þm. eru að biðja hæstv. samgrh. að gera. Hvernig hann á að leita annarra leiða, eins og þar segir, til að tryggja störf íslenskra farmanna á íslenskum kaupskipum. Þeim mun fara fækkandi ekki síður eftir gildistöku EES-samningsins. Þetta horfðu menn upp á án þess að depla auga og sögðu já við þessum samningi.
    Það er svo önnur saga að hér skuli menn líklega 80 árum seinna hafa Eimskipafélag Íslands í flimtingum, gera grín að því, óskabarni þjóðarinnar sem einu sinni var stofnað til með samskotum fátæks fólks. Enn er til á heimili mínu hlutabréf í Eimskip, sem bera held ég 75 kr. arð á ári, þar sem notaður var síðasti eyririnn til að stofna þetta félag sem nú er ekki lengur íslenskt félag heldur erlent.