Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 14:59:26 (5724)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er ekki góður þingsiður að byrja á því að væna fólk um fáfræði án þess að færa fyrir því einhver rök. Ég held að hv. 16. þm. Reykv. hafi misskilið mig að því leyti, ég er ekki að kenna honum um ófarir Eimskipafélagsins. Margt má nú væna hann um en ekki það.
    Það breytir hins vegar ekki því að ástandið er nákvæmlega eins og hann sagði núna. Æ fleiri störf í farmannastéttinni eru setin af erlendum mönnum. En það ættu að vera hæg heimatökin fyrir hæstv. samgrh. að líta ofan í þessi mál. Hann situr sjálfsagt í jólaboðum með stjórninni sakir kunningsskapar og skyldleika og það ætti að vera auðvelt fyrir hæstv. ráðherra að ráðgast við stjórn Eimskipafélags Íslands um hvað skuli gera til þess að bæta hag íslenskra farmanna og tryggja það að Íslendingar séu á íslenskum skipum og að íslensk skip greiði skatta sína og skyldur til íslenska ríkisins.