Atvinnumál farmanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 15:12:01 (5728)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Sjálfsagt er nú þessi tillaga í góðri meiningu flutt og dreg ég það ekki í efa að hér eru miklir vinir farmanna á ferð. En það er raunar, eins og rækilega hefur komið fram í umræðunni, ekki tjaldað nema til einnar nætur þar sem eftir að gildistöku Evrópsks efnahagssvæðis mun verða torvelt fyrir íslensk stjórnvöld að beita einhverjum þvingunum á íslensk skipafélög til þess að halda Íslendingum á skipunum.
    Auðvitað er Eimskipafélag Íslands íslenskt skipafélag og ég er dálítið undrandi á þeim staðhæfingum sem hér hafa komið fram í umræðunni. Eimskipafélag Íslands á einmitt töluvert mikið á Íslandi og í Íslandi. Það er einrátt á markaðnum og hefur blómstrað býsna vel á undanförnum árum með þeim hætti að fullkomin ástæða er til að gefa gaum að þeim rekstri.
    Tillagan fjallar um að bæta samkeppnisstöðu þess og um það að lækka skatta þess fyrst og fremst, en ég sé ekki að hún tryggi með neinum hætti, þó samþykkt yrði, að skip Eimskipafélagsins yrðu mönnuð með Íslendingum. Þetta er fyrst og fremst tillaga sem hefði það í för með sér, ef samþykkt yrði og eftir henni unnið, að samkeppnisstaða fyrirtækisins batnaði, þ.e. gróði þess ykist fremur en á því sé tekið að skip þess yrðu mönnuð Íslendingum. Ég tel að þessi þróun sem hér hefur orðið á undanförnum árum sé ákaflega sorgleg. Við erum að hætta að reka þetta þjóðfélag sjálf. Við erum að eyðileggja iðnaðinn með innflutningi, hann er að stórdragast saman. Ef ég man rétt þá töpuðust í iðnaði á síðasta ári 1.000 störf. Skipaflotinn er orðinn mannaður útlendingum. Tvíhöfða nefndin er að gera tillögur um, eftir því sem fregnir herma, að hleypa útlendingum inn í útgerð og fiskvinnslu. Þetta er allt á sömu bókina lært.