Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 15:50:36 (5736)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Þegar ég sá þessa tillögu gat ég ekki skilið hana öðruvísi en sem vantraust á hæstv. utanrrh. Það stakk mig sérstaklega í augun að það skyldi vera hv. 3. þm. Reykv., formaður utanrmn., sem réðst með þessum hætti á utanrrh. Það segir að vísu í grg. að flm. vilji árétta að ekki beri á nokkurn hátt að skoða tillöguna sem vantraust á þá stefnu sem íslenska ríkisstjórnin hefur fylgt í þessu máli. Það er ekki

tekið fram sérstaklega um utanrrh. þarna og ég geri ráð fyrir því að aðrir ráðherrar hafi líka skoðun á málefnum Eystrasaltslandanna þó að það sé hæstv. utanrrh. sem hefur þetta umboð ríkisstjórnarinnar að fara með utanríkismál Íslands. Mér er alveg lífsins ómögulegt annað en að skilja þetta sem vantraust á hæstv. utanrrh.
    Nú verð ég að segja það að ég hef ekkert sérstakt traust á hæstv. utanrrh. og það hefur stundum hvarflað að mér hvort ekki væri eðlilegt að flytja vantrauststillögu á ráðherrann, en ekki hefði það hvarflað að mér að flytja vantraust á hann út af framgöngu hans í málefnum Eystrasaltslandanna. Ég vil rifja það upp að hæstv. utanrrh. sýndi djörfung og dug þegar hann var að liðsinna Eystrasaltsþjóðunum í sjálfstæðisbaráttu þeirra. Hann lagði sig meira að segja í feiknamikla lífshættu að því er fréttir herma eða hermdu á sínum tíma og þjóðin stóð á öndinni dægrum saman þegar í ljós kom að KGB hefði rænt hann töskunni með leyndarskjölum og ferðasjóði sem var hvorki meira né minna en 200 þús. kr. ef ég man rétt. Nú veit ég ekki um tölu leyndarskjalanna eða hvað á þeim stóð sem kannski er varla hægt að krefjast af mér. En ég held að hæstv. utanrrh. hafi sýnt mikla dirfsku, lofsvert framtak, í frelsisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna svo ég tel maklegt að hv. formaður utanrmn. eða flokksbræður hans ráðist á ráðherrann því þetta er ekkert smálið sem þarna fylgir formanni utanrmn. á þessari tillögu. Ég sé ekki betur heldur en það sé verulegur partur af Sjálfstfl. Ég rek að vísu augun í tvo flokksbræður utanrrh., og kemur mér það nokkuð á óvart að þeir skuli vega svo að flokksformanni sínum og utanrrh.
    Út af fyrir sig þá get ég svo sem fellt mig við tillgr. Ég tel að það eigi ekki að setja Eystrasaltsríkjunum óeðlilega kosti. Ég tel að það eigi hins vegar að setja þeim eðlilega kosti og ég er ekki alveg sannfærður um að mat okkar 1. flm. á hvað sé óeðlilegt og hvað sé eðlilegt fari alveg saman. Íslenska þjóðin stóð einhuga með Eystrasaltslöndunum í frelsisbaráttu þeirra og við lögðum þeim lið þar sem við gátum. Ekki bara utanrrh. heldur þjóðin öll þó hann færi þar fremstur í flokki sem kunnugt er og svo er guði fyrir að þakka að hann endurheimti tösku sína, leyndarskjöl og ferðasjóð á snyrtingu á hóteli eða bar í Riga í Lettlandi. Við væntum þess að í þessum löndum verði þróunin í lýðræðisátt og hún verði hröð, til blessunar fyrir íbúa þessara landa. Við ætlumst til þess að þar verði í heiðri höfð almenn mannréttindi og ég tel það eðlilegt að krefjast þess að svo sé og þessum löndum séu settir eðlilegir kostir. Við eigum ekki að líða það að gengið sé fram með einhverri feikna hörku gegn einhverjum minnihlutahópum íbúanna, hvorki í Eystrasaltslöndunum né annars staðar.
    Hv. 1. flm. talaði um að þarna færi fram eitthvað sem hann kallaði eðlilegt uppgjör við Rússa. Ég veit ekki hvort það er eðlilegt orðaval. Ég vil a.m.k. vona það að þarna séu ekki hafðar í frammi sérstakar hermdaraðgerðir gegn Rússum. Auðvitað voru Rússar búnir að fara illa með þjóðir Eystrasaltslandanna en samt sem áður þá réttlætir það ekki að mínu mati að sérstakar hermdaraðgerðir séu hafðar uppi gegn afkomendum þeirra manna rússneskra sem þarna ruddust inn á sínum tíma. Afkomendum sem hafa ekkert til saka unnið annað en að eiga ættir sínar að rekja til fólks sem kom þarna í trássi við íbúa svæðisins.
    Samskiptum þessara þjóðarbrota fylgja feiknaleg vandamál. Eystrasaltslöndin eiga öll við mjög alvarleg vandamál að stríða á mjög mörgum sviðum. Það vill svo til að áður heldur en hæstv. utanrrh. kippti frelsi þeirra í liðinn þá átti ég leið þarna um og hafði tækifæri til þess að kynnast nokkuð forustumönnum þessara þjóða og setja mig nokkuð inn í þessi vandamál. Eitt er það sem var mjög undan kvartað, það var hin mikla gjá varðandi menntun sem á milli þessara hópa var. (Forseti hringir.) Ég tel að það sé sjálfsagt mál, frú forseti, ég er að ljúka máli mínu, að hjálpa þessum þjóðum til þess að losna við rússneska herinn en ég er ekki tilbúinn að samþykkja það að í öllum greinum hafi Eystrasaltslöndin ævinlega farið rétt að í samskiptum sínum við þessa minnihlutahópa. Og hvert leiðir það okkur Íslendinga að fara að slaka sérstaklega á kröfum við þessar þjóðir? Hér hefur verið minnst á Ísraelsríki og við verðum að sjálfsögðu og eigum að sjálfsögðu að gera sömu kröfur til þeirra og annarra, jafnvel þó að þeir séu að hefna sín á Aröbum. Hvert leiðir það okkur í framtíðinni í viðurkenningu á ríkjum sem eru að spretta upp á rústum Júgóslavíu?