Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 16:01:38 (5738)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Það er gott að fá fram þessa yfirlýsingu hjá hv. 3. þm. Reykv. að hér sé ekki um vantraust að ræða. Ég held hins vegar að ókunnugir sem ekki hafa hlustað á hann hljóti að líta svo á.
    Varðandi sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna þá er ég að sjálfsögðu, og hef allan tímann verið, hlynntur því. Ég gerði mér hins vegar ljósa þá erfiðleika sem viðkomandi ríki mundu lenda í þegar sjálfstæðið væri fengið, þau vandamál sem mundu skapast af upplausn Sovétríkjanna. Ég tel hins vegar að það hafi verið hárrétt skref að leysa upp Sovétríkin. Ég er á því að þjóðir eigi yfirleitt að ráða sér sjálfar og ég hef fullan skilning á vilja íbúa þessara svæða til þess að ráða sér sjálfir. Það gefur þeim hins vegar ekki rétt til þess að fara illa með aðra. Það er dálítið athyglisvert og á því vil ég vekja athygli að víðast hvar í veröldinni eru ríkjasamsteypur að gliðna í sundur og þjóðirnar að endurheimta sjálfstæði sitt á sama tíma og Íslendingar eru á fleygiferð inn í stórríki Evrópu.