Endurskoðun slysabóta sjómanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 16:26:33 (5744)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir með þeim þingmanni sem talaði áðan, að hún tæki undir þær röksemdir sem koma fram í greinargerð með tillögunni. Ég verð samt að segja það þó að ég hafi starfað að tryggingamálum og um skeið verið aðstoðarforstjóri í tryggingafélagi þá á ég fullt í fangi með að skilja það orðalag sem er á sumum stöðum og jafnvel þeim veigamestu í greinargerðinni.
    Að öðru leyti vil ég segja það, virðulegi forseti, að hér er um viðkvæmt mál að ræða og það er rétt að menn varpi upp öllum hugsanlegum flötum á því. Mér sýnist að í dag sé staðan sú að um sjómenn gildi hið sama og landverkafólk, að atvinnurekendur þeirra verða að veita þeim vissa vernd með því að kaupa slysatryggingu sem bætir tjón vegna slysa upp að tiltekinni hámarksupphæð. Um sjómenn gildir það sama og landverkafólk að ef menn vilja sækja sér bætur umfram það þak sem tryggingaverndin veitir þeim þá verða þeir að gera það eftir reglum skaðabótaréttarins og þeir verða að sýna fram á að atvinnurekandinn hafi orðið sekur að einhvers konar vanrækslu eða gáleysi. Þetta er vissulega rétt. Um þetta gildir nákvæmlega það sama og um landverkafólkið. Ég leyfi mér að hugsa upphátt: Á að búa til sérstakar reglur fyrir sjómenn? Ég get vel skilið það viðhorf að þetta þurfi að bæta, en hvers vegna einungis fyrir sjómenn? Eru það nægileg rök sem hér eru flutt að tíðni slysa á sjó er meiri en í landi? Ég dreg það í efa. Ég vil hins vegar fallast að einhverju leyti á þá röksemd að slys úti á sjó eru oft og tíðum miklu meiri og leiða til meira tjóns, meiri örkumla en slys á landi. En þá leyfi ég mér aftur á móti að hugsa upphátt: Hvað með þá einstaklinga sem vinna í landi og lenda í þeirri neyð að hljóta líka veruleg örkuml og eru þá í nákvæmlega sömu stöðu og þeir sjómenn sem hér hafa verið rakin dæmi um? Hvers vegna á ekki líka að veita því fólki einhverja vernd, jafnvel þó tíðni slysa sé minni hjá því og jafnvel þó tíðni þungra slysa sé líka minni?
    Mér finnst því, virðulegi forseti, að verið sé að gera upp á milli starfsstétta. Ég fellst á það þarf að taka málið í heild sinni til endurskoðunar, en mér finnst að með nokkru sé verið að ganga á kjör eða hag og velferð landverkafólks með því að taka sjómenn út fyrir sviga í dæminu. Ég vil þó ekki leggjast gegn þessari tillögu. Ég vek hins vegar athygli á því, virðulegi forseti, að nefndarskipanin hefur e.t.v. takmarkaðan tilgang vegna þess að í niðurlagi greinarinnar er rakið næsta vel með hvaða hætti er hægt að bæta þessi mál. Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að halda því fram að ég hafi skilið þann hluta grg.
    Síðan vil ég aðeins drepa á eitt atriði sem tengist málinu og hv. flm. gerði að umtalsefni. Það eru þeir menn sem af óeigingjörnum hvötum leggja sjálfa sig, líf sitt og limi í hættu til þess að bjarga öðrum sjómönnum. Ég hef sjálfur lent í þeirri reynslu sem fyrrv. sjómaður að vera í lífshættu og vera bjargað af mönnum sem lögðu sjálfa sig í lífshættu. Sem betur fer urðu engin slys. En þess eru sorgleg dæmi að sá sem ætlaði að bjarga hefur hlotið varanlegt tjón og engar bætur. Þetta er algerlega óviðunandi og ég velti þessu tiltekna atriði fyrir mér. Svo vill til að sá hópur er næsta fámennur og ég vil velta því upp hvort ekki sé rétt að gera sérstakar ráðstafanir með lagasetningu sem verndar menn sem með þessum hætti leggja sig í hættu til þess að bjarga öðrum og taka þá alveg sérstaklega fyrir.
    Ég varpa þessu fram hér, virðulegi forseti. Ég er samþykkur því að þetta mál gangi til nefndar en áskil mér allan rétt til þess að kanna þetta til hlítar og koma síðar í umræðunni með ítarlegri og þaulhugsaðri röksemdir. Ég ítreka að lokum að mér finnst að með nokkrum hætti sé verið að gera upp á milli starfsstétta.