Endurskoðun slysabóta sjómanna

122. fundur
Föstudaginn 05. mars 1993, kl. 16:31:42 (5745)

     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls. Vissulega er umhugsunarefni hvers konar nefnd eigi að skipa eða hve fjölmenna til þess að endurskoða þennan þátt siglingalaganna. Engu að síður þótti okkur flm. rétt t.d. að rannsóknarnefnd sjóslysa ætti hlut að máli svo mjög sem hún þekkir þessi mál af rannsóknum sínum. Því er ekki óeðlilegt að hún komi nálægt málinu.
    Ég er ekki hissa á því þótt mönnum þyki orðalag grg. nokkuð sérstakt, en það mál segir kannski allnokkuð um orðalag siglingalaganna. Að vísu voru þau endurskoðuð síðast 1975 en það má segja að orðalag sé með sama hætti og var í upphafi þá Danakonungur réði hér lögum og lofum.
    Vissulega er eðlilegt að það komi upp í huga manna hvers vegna ætti að tryggja sjómenn öðrum launþegum frekar. Á umliðnum árum hefur það verið almennt að 25% þeirra slysa, sem tilkynnt eru Tryggingastofnun ríkisins, eru slys á sjómönnum enda þótt þeir séu ekki nema rétt um 0,8% á vinnumarkaðnum. Það segir því sína sögu hve slysin eru tíð þótt kannski komi þar ekki nægjanleg skráning fram um hversu alvarleg þau eru. Vissulega væri umhugsunarefni og er náttúrlega mikil nauðsyn á að slysaskráning sjómanna verði bætt. Þar þyrfti t.d. að koma nákvæmar fram hvaða skip, við hvaða kringumstæður, hvar og hvernig tjónið var og hver var hin eiginlega örorka, náði viðkomandi sjómaður þeirri heilsu sem þarf til þess að geta stundað sjómennsku eða ekki.
    Eins og ég las upp úr gömlum dómum þá hefur það verið með ólíkindum hve oft, og oftar þá en ekki, hve sjómanninum sjálfum hefur verið dæmd hlutdeild í slysi. Við vitum að á fiskiskipaflotanum hefur verið fækkað verulega í áhöfn. Tækni hefur þó fleygt fram að hluta til á móti, en engu að síður við fækkun í áhöfn er meiri hraði og meiri krafa er gerð til manna en áður var. Ef við tökum og berum saman síðutogara þar sem 24 eða 26 menn voru um borð eða nú á móti þeim skipum sem eru afkastameiri en gömlu síðutogararnir og algengt er að það séu 11--12 menn í áhöfn. Enn eru gerðar kröfur um fækkun á þessum skipum.
    Það segir líka sína sögu að í siglingalögunum er maður, sem slasast við að bjarga, eins og tiltekið er í siglingalögunum, góssi sem tilheyrir skipinu, betur tryggður en sá sem kastar sér til sunds til að bjarga félaga sínum og það er í hæsta máta óeðlilegt. Þess vegna, virðulegi forseti, leggjum við flm. þessa þáltill. fram um nauðsyn þess að endurskoða siglingalögin með það í huga að færa þau til nútímalegs horfs og síðast en ekki síst, til þess að skoða réttarstöðu þeirra sjómanna sem hafa lent í slysum. Því miður er saga sjóslysa hér við land skráð á of mörgum blöðum og ekki hvað síst þeirra staðreynda að mikill fjöldi sjómanna sem hefur lent í slysum hefur hlotið örkuml af.
    Það hefur komið fram að eðlilegt sé og sjálfsagt að sjómenn leggi sig í hættu vegna félaga sinna. Það hlýtur þá að leiða af því að það sé eðlilegt og sjálfsagt að menn séu með sama hætti tryggðir betur en aðrir til þess að það sé hvati til björgunar á skipsfélögum sínum. Menn hugsa ekkert um það hvort þeir séu sæmilega tryggðir eða ekki áður en þeir henda sér til sunds eftir félögum sínum, menn ætlast hreinlega til þess.
    Þegar störf landverkamanns og sjómanns eru borin saman og menn hugsa upphátt um það hvort ekki sé eðlilegt að jafnt skuli ganga yfir alla launþega landsins þá er rétt að taka inn í myndina aðstöðumun sjómanns og t.d skrifstofumanns sem hefur fast land undir fótum. Í rannsóknum sem hafa komið fram liggur ljóst fyrir að sjómaður sem stígur ölduna og stundar starf sitt eyðir 25% meiri orku en sá sem hefur fast land undir fótum. Það leiðir af því að eftir mikla vinnuönn eru þeir þannig á sig komnir að þreyta sækir að, aðgæsla er ekki sem skyldi vegna þess mikla vélbúnaðar sem er um borð í skipinu og þeirra vinnukrafna sem eru gerðar til þessara fáu manna þegar skip eru að veiðum.
    Ég ítreka að ég vona að þessi þáltill. fái skjóta meðferð á hinu háa Alþingi, svo nauðsynleg sem endurskoðun siglingalaganna er.