Iðn- og verkmenntun

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 13:59:45 (5748)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu þáltill. um endurmat iðn- og verkmenntunar, sem er flutt af okkur fjórum þingmönnum Framsfl. og er 1. flm. hv. þm. Stefán Guðmundsson.
    Ég held að það fari ekkert á milli mála að verkleg menntun hefur verið vanrækt á undanförnum árum og jafnvel áratugum og á sama tíma hefur samkeppnisstaða innlends iðnaðar verið að versna. Og á þessu öllu saman bera stjórnvöld að sjálfsögðu nokkra ábyrgð. Afstaða almennings til þess hvað framtíðin ber í skauti sér dregur síðan dám af þessu og það er ástæða til þess í tengslum við umræðu um verkmenntun að skoða reynslu þeirra þjóða sem hafa lagt raunverulega rækt við verklegt nám og tengt það tækniþróun á hverjum tíma, en staðreyndin er sú að þær þjóðir hafa í seinni tíð skarað fram úr og tryggt bestu kjör sinna þegna.
    Almenningur í þessum löndum lítur á verkmenntun eða hvers konar verk- og tæknimenntun sem álitlegan valkost og hvetur ungmenni til að fara þá leið í námi. Þar heldur fólk því ekki fram, eftir því sem best ég þekki til, að verkmenntaskólar séu bara fyrir þá sem ekki hafa getu til þess að fara í menntaskóla og síðan í háskóla. En það eru fleiri sem eiga við svipuð vandamál að stríða á þessu sviði eins og við Íslendingar og eftir því sem mér hefur skilist og hef lesið, þá er það fræðsluyfirvöldum í Bandaríkjunum nokkurt áhyggjuefni hvernig komið er fyrir tæknimenntun og verkmenntun, en hins vegar er grunnskólamenntun þar fjölbreytt og háskólamenntun á háu stigi eins og allir vita. En Bandaríkjamenn hafa ekki náð því eins og t.d. Þjóðverjar og ýmsar Norðurlandaþjóðir og Japanir hafa gert að tengja saman hugvit og verkvit þannig að hvað styðji annað. Við Íslendingar megum ekki falla í þá gryfju að álykta sem svo að verkmenntun hafi það helst til síns ágætis að geta tekið við þeim sem einhverra hluta vegna kjósa að ganga ekki hinn gullna veg bóknámsins og ég held að það sé nú kannski að verða nokkur samstaða um það í þessu landi að þarna verðum við að taka okkur á.
    Íslendingar og Bandaríkjamenn virðast hafa átt það sameiginlegt að vilja framleiða einhver ósköp af stúdentum. Með fullri virðingu fyrir þeim sem slíkum, þá er það ekki þægilegt og ekki æskilegt fyrir þetta þjóðfélag né önnur að nám sé á svo þröngu sviði og menntun.
    Í þeirri áfangaskýrslu sem nýlega hefur komið út frá nefnd menntmrh. um mótun nýrrar menntastefnu er nokkuð tekið á þessum málum og á æskilegan hátt held ég að megi segja. A.m.k. ég vil á þessu stigi málsins ekki segja annað. Það var líka gert í þeirri skýrslu sem gefin var út í lok síðasta kjörtímabils í menntamálaráðherratíð hv. þm. Svavars Gestssonar, Til nýrrar aldar. Í báðum þessum skýrslum finnst mér að það komi fram að menn hafi áttað sig á því að þarna þurfi að taka á og vegna þjóðfélagsins sem slíks þurfi að auka menntun í verklegum greinum.
    Samt kemst ég ekki hjá því að nefna það að fram til þessa hafa verk hæstv. ríkisstjórnar ekki beinlínis snúið að því að efla verkmenntunina og nefni ég Iðnskólann í því sambandi því að það var staðið mjög illa að framlögum til Iðnskólans við samþykkt síðustu fjárlaga. Eins má nefna það að úthlutunarreglur Lánasjóðs ísl. námsmanna eru ekki jákvæðar í garð verkmenntunar. Nú veit ég ekki um það hvort hæstv. menntmrh. hefur algerlega gefið frá sér allt vald varðandi þessar úthlutunarreglur, en ég álít þó að hann þurfi að samþykkja þær áður en þær koma til framkvæmda. Við munum það að með setningu nýrra laga um lánasjóðinn var stjórninni falið mjög mikið vald sem ráðherra hafði áður og þetta gagnrýndi ég og fleiri og sögðum sem svo að þrátt fyrir allt og þrátt fyrir það að maður hefði kannski ekki mikla tilhneigingu til þess að styðja þá ríkisstjórn sem nú situr, þá hafi þetta vald verið betur komið í höndum hæstv. menntmrh. heldur en þeirrar stjórnar sem nú fer með Lánasjóð ísl. námsmanna og málefni hans.
    Ég ætla, hæstv. forseti, ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. en langaði til þess að leggja nokkur orð inn í þá umræðu sem fer fram um verkmenntun og það er einlæg von mín að á þeim málum verði tekið sem allra fyrst að færa okkar menntakerfi meira inn á þá braut að það sinni þeirri hlið menntamála.